SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir21. september 2024

SKÁLDS SAGA Á LEIÐINNI

Bráðum og vonandi sem allra fyrst kemur út SKÁLDS SAGA, 74 KAFLAR ÚR HÖFUNDARLÍFINU eftir Steinunni Sigurðardóttur. „Um skrifstaði og stundir frá upphafi. Hvernig skrifa megi hitt og þetta. Þessi sérstaka blanda inniheldur jafnvel tilvistarspursmál um tiltekt og matseld. Bon appétit!“ segir á facebook-síðu Steinunnar. 

Hér verður væntanlega hægt að lesa um tilurð verka höfundarins og pælingar um skáldskap, staði og stundir og tilveruna  almennt. Og eflaust fleira því Steinunn kemur fólki sífellt á óvart og vefur formi, efni og stíl um fingur sér, eins og sjá má t.d. í titli nýju bókarinnar. 

Kaflarnir eru jafnmargir og árin sem hún hefur lifað núna. Ætli þetta sé síðasta bókin? Varla, Steinunn skrifar til að lifa og lifir til að skrifa. Fyrsta bók hennar kom út 1969. Síðan hefur hún sent frá sér fjölmargar ljóðabækur, smásagnasöfn og skáldsögur, auk þess sem hún hefur skrifað leikrit bæði fyrir útvarp og sjónvarp.

Steinunn er mikill unnandi íslenskrar náttúrun, eins og glöggt má sjá af skáldskap hennar. Hún hefur verið óþreytandi að berjast fyrir verndun náttúrunnar og vekja athygli á þeim ógnum sem mannkyn og náttúra stendur frammi fyrir vegna hamfarahlýnunar (nýyrði Steinunnar). Mörg skáldverka Steinunnar vitna um þessa baráttu hennar, til að mynda ljóðabókin Dimmumót sem er áhrifaríkt tregaljóð um áhrif hamfarahlýnunar á Vatnajökul.

Steinunn hefur markað sér stöðu sem einn fremsti rithöfundur Íslands, bæði á sviði ljóðagerðar og skáldsagnagerðar. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín, nú síðast íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Ból, er heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands og hlaut heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands árið 2022. Ný bók frá henni sætir alltaf tíðindum.

 

Tengt efni