VIGDÍS Á VAKTINNI
Þegar Vigdís Finnbogadóttir varð forseti Íslands árið 1980 hafði engin kona áður verið lýðræðislega kjörin í embætti þjóðhöfðingja – hvergi um víða veröld. Það þótti afar sérstakt að ógift kona og einstæð móðir gegndi slíku embætti og kosningabaráttan var býsna óvægin. Ekki hefur farið framhjá neinum að þessa dagana er verið að sýna frábæra þætti um Vigdísi á rúv. Vert er því að rifja upp bók Steinunnar Sigurðardóttur sem út kom 1998, Ein á forsetavakt, og fékk afar góða dóma. Bókin seldist í 14.500 eintökum sem enn í dag er fáheyrt.
Ein á forsetavakt er lýsing Steinunnar á lífi og störfum Vigdísar. Steinunn bregður upp litríkri mynd og sýnir hið flókna svið sem forseti landsins sinnir.
Í bókinni er sjö dögum í lífi Vigdísar lýst, ferðalögum utanlands og innan, gestaboðum og samkomum, skrifstofustússi, uppeldi og stopulum frístundum. Um leið viðrar Vigdís hugleiðingar sínar um hlutverk þjóðhöfðingja og þau fjölbreyttu verkefni sem því fylgja.
Steinunn Sigurðardóttir sagði sjálf um velgengni bókarinnar í DV, 15. nóvember 1998:
„Mér finnst eðlilegt að fólk hafi áhuga á því sem Vigdís hefur afrekað vegna þess að auk þess að vera sérstök manneskja er hún sérstakt fyrirbrigði í heiminum,"(...)„Lífsreynsla Vigdísar er einstök. Þaö sem fyrir hana kemur er ævintýri þannig að það væri skrítið ef fólk hefði ekki áhuga á því.“ Steinunn sagði að hún heföi reynt að benda á hinar miklu andstæður sem mætti finna í lífi og starfi Vigdísar og þannig komið inn á nýjar og persónulegri hliðar á forsetanum.“
Bókin var endurútgefin árið 2020, lítillega endurskoðuð og með nýjum formála og eftirmála höfundar, í tilefni þess að 90 ár voru liðin frá fæðingu Vigdísar og 40 ár frá því að hún var kjörin forseti Íslands.
Í ritdómi Ragnhildar Richter um Ein á forsetavakt sem birtist í Pressunni, 15 nóvember 1998, segir m.a.:
Í bókinni kynnumst við ekki aðeins forsetahliðinni á Vígdísi Finnbogadóttur. Við kynnumst einnig móðurinni sem ein axlar ábyrgð á uppeldi dóttur sinnar, finnst hún ekki hafa nógan tíma fyrir hana og hefur samviskubit þess vegna. Því ekki fer hjá því að skyldur forseta og einstæðrar móður rekist á og Vigdís reynir ekki að breiða yfir þá árekstra.
Við kynnumst einnig húsfreyjunni Vigdísi, því eins og hún segir sjálf: „Eitt sinn húsfreyja, ávallt húsfreyja" (bls. 24) og henni finnst sjálfsagt að gegna húsfreyjuskyldum auk allra annarra skyldna. Við kynnumst einnig konunni sem, rétt eins og við hinar, á alltaf óleyst verkefni sem eru „eins og Húsavíkur-Skotta" (bls. 63) á henni. í þessu samhengi talar forsetinn um að erfiðara sé fyrir okkur konur að sinna verkefnum á borð við ávörp og ræðuskrif sem krefjast einbeitingar, því að „við sjáum alltaf eitthvað sem er ógert á heimili" (bls. 64). Undir þetta geta víst margar konur tekið, ekki síst í jólamánuðinum!
Í heild uppfyllti Ein á forsetavakt vonir mínar um vel skrifaða, persónulega, hlýlega og oft á tíðum fyndna bók, sem varpar að ýmsu leyti nýju ljósi á konuna sem gegnir æðsta embætti þjóðarinnar.
Úr viðtali sem Agnes Bragadóttir tók við Vigdísi í Mbl, 4. desember 1998, „Ein í sorg og gleði“. Bókin var þá nýkomin út.
VIGDÍS, ERTU ANÆGÐ MEÐ BÓKINA OG hvernig tilfinning er það fyrir þig að sjá í bókarformi þá daga sem Steinunn lýsir í lífi þínu?
„Mér finnst bókin bráðvel skrifuð og ég er alltaf ánægð með góðan texta.“ Vigdís hugsar sig lítillega um áður en hún heldur svari sínu áfram. Brosir og segir síðan: „Nú, ég viknaði nú aldrei, þegar ég las hana, en ég skellti nokkrum sinnum upp úr og þar af leiðandi hlýtur einhvers staðar að vera í henni eilítið spaug. Að öðru leyti las ég hana eins og hverja aðra bók, sem mér lék nokkur forvitni á að lesa til enda.“
— Áttir þú náið samstarf við höfundinn, á meðan hún aflaði sér efniviðar í bókina?
„Já og nei. Steinunni var boðið að fylgja mér eftir, án þess að við værum í rauninni mikið að tala saman. Hún var áhorfandi að því sem ég er að gera. Ég mælti svo fyrir, eftir að það hafði verið ákveðið að hún skrifaði þessa bók, að henni skyldi vera boðið sem oftast og sem víðast, þar sem ég væri að einhverjum verkum. í verklok sátum við Steinunn stundum á hljóðskrafi, og ræddum þá atburði dagsins og annað sem í hugann kom.“
Vigdís segir alllangt síðan hugmyndin að bókinni varð fyrst til. Rithöfundar og blaðamenn, bæði innlendir og erlendir, hefðu reynt mikið á öðru kjörtímabili hennar að fá hana til samvinnu um bókargerð, en fyrir tveimur árum hafi kona frá þekktu tímariti í Frakklandi tekið við hana viðtal og á daginn hafi komið að þessi kona var ritstjóri fyrir ritröð, sem flallar um sjö daga í lífi kunnra manna, „aðallega karla,“ segir forsetinn hálfsposk. Enda augljóslega kominn tími til þess að hennar mati, að kona bættist í þennan kunna karlahóp. Því hafi hún slegið til og sagt: „Ja, því ekki það.“ Vigdís stakk upp á því að Steinunn yrði fengin til að taka að sér ritverkið, hvað síðan varð. „Mér fínnst Steinunn Sigurðardóttir góður rithöfundur og ég hef svo miklar mætur á henni, að ég stakk upp á henni," segir forseti. Síðan: „Eg treysti henni manna best til að skrifa svona bók — hún er heimskona, sem bæði þekkir heimalandið og önnur lönd.“
— Þekkir þú sjálfa þig og líf þitt, af lestri bókarinnar?
„Það er alveg áreiðanlegt að það er sitthvað um sjálfa mig og líf mitt í þessari bók, enda Steinunn svo glögg. Hún er löngu búin að sýna það að hún kann að lýsa bæði „tímaþjófum" og „kartöfluprinsessum“.“
Sjálf segist Steinunn Sigurðardóttir í nýjustu bók sinni, Skálds sögu, hafa tekið stærstu U-beygju lífs síns á ritvellinum þegar hún féllst á að skrifa bók um Vigdísi. Steinunn hafði á þeim tíma langa reynslu af blaða- og fréttamennsku og þekkti Vigdísi ágætlega en þetta var gjörólíkt því hún hafði áður fengist við: „En það að lifandi manneskja, og þjóðhöfðingi ofaní kaupið, sé efni bókar kallars hins vegar á annars konar ábyrgð og meira íþyngjandi en ábyrgðina á sem skáldsagnahöfundurinn stendur frammi fyrir gagnvart sínum uppdiktuðu persónum“ segir Steinunn.
Í formála endurútgáfu bókarinnar Ein á forsetavakt, sem vitnað er í í Skálds sögu Steinunnar (2024), segir m.a.
Harðasti opinberi slagur Vigdísar var kosningabaráttan. Hún bauð sig fram með svo hálfum huga að hún ætlaði að hætta við á elleftu stundu - þegar það var orðið of seint. Hún kallar framboðið fífldirfsku - en nú til dags er engin leið að gera sér grein fyrir hvers konar tiltæki það var. Enda fékk þessi framsækni frambjóðandi yfir sig ýmsar óþokkalegar gusur, andstyggilegar greinaskrif og helbera ókurteisi á framboðsfundum. Það er í minnum haft hvað hún var skjót til eitursnjallra svara og hvað hún stóð af sér óvæntar árásir með miklum glæsibrag. Eins og uppákoman fræga þegar maður nokkur spurði hana á framboðsfundi hvað kona með eitt brjóst hefði við það að gera að vera forseti (Vigdís hafði misst brjóst vegna krabbameins.) Og hún svaraði að bragði á þá leið að þar sem hún ætli sér ekki að hafa þjóðina á brjósti þá muni þetta ekki koma að sök.