SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. janúar 2025

KISA KEMUR Í HEIMSÓKN - Ný bók frá Hildi Knútsdóttur

Í gær kom út ný bók eftir Hildi Knútsdóttur sem sumir kalla meistara hrollvekjunnar. Þetta er blóðugur spennutryllir en áður hefur Hildur sent frá sér hryllingsnóvellurnar Myrkrið milli stjarnanna, Urðarhvarf og Möndlu. Hildur hefur jafnframt skrifað fjölda ungmennabóka og hlotið fyrir þær ýmsar viðurkenningar, segir á vef Forlagsins.

Þegar ókunnug læða tekur að venja komur sínar heim til viðskiptafræðingsins Unnar veit hún nákvæmlega hvernig hún á að leysa vandann. Hún þarf ekki að leita lengi á hverfissíðunni á Facebook áður en hún sér mynd af kettinum sem liggur í sófanum hennar ásamt fyrirsögninni „Edit er týnd!“. Innan skamms stendur eigandinn, ung og illa tilhöfð kona að nafni Ásta, á tröppunum hjá henni með ferðabúr. Daginn eftir birtist Edit þó aftur og gýtur agnarsmáum kettlingi í rúmi Unnar. Í kjölfarið tekst einlæg vinátta með Unni og Ástu og smám saman hleypa þær hvor annarri inn í sína myrkustu kima, áföll og ástarsambönd. Þegar ógn steðjar að standa þær saman – jafnvel þótt það kosti ósegjanlega glæpi.

Bækur Hildar Knútsdóttur hafa vakið athygli heima og heiman. Myrkrið milli stjarnanna kom út í Bandaríkjunum á síðasta ári og var valin ein af bestu hrollvekjum ársins af bæði Lithub og The New York Times. Kvikmyndarétturinn hefur þá einnig verið seldur til bandarísks framleiðslufyrirtækis. Þýðingarrétturinn fyrir Gesti hefur þegar verið seldur á ensku og hefur Mary Robinette Kowal þýtt hana.

Kisa, ást og glæpir - notaleg lesning á þorranum!

 

Tengt efni