ÞÓRA JÓNSDÓTTIR FRÁ LAXAMÝRI ER LÁTIN
Þóra Jónsdóttir skáldkona er látin. Hún var fædd 17. janúar 1925 á Bessastöðum á Álftanesi en fluttist á barnsaldri með fjölskyldu sinni að Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu og ólst þar upp. Móðir hennar er Elín Vigfúsdóttir á Laxamýri, húsfreyja og skáld.
Þóra nam við Héraðsskólann á Laugum í Reykjadal og síðar við Menntaskólann á Akureyri þar sem hún lauk stúdentsprófi. Hún kenndi við Flensborgarskólann í Hafnarfirði einn vetur en hélt síðan til Kaupmannahafnar þar sem hún las bókmenntir við Hafnarháskóla. Eftir að hún kom aftur til Íslands lauk hún prófi frá Kennaraskóla Íslands. Þóra starfaði á Borgarbókasafni Reykjavíkur frá 1975 til 1982.
Ritstörf hóf hún seint eins og svo margar skáldkonur fyrri tíma, eða ekki fyrr en börn hennar voru fullorðin. Ferill hennar spannar frá 1973-2019. Fyrsta bók hennar, Leit að tjaldstæði, fékk afar góða dóma. Alls hafa komið út eftir hana 15 bækur: ljóð og örsögur og tvær ljóðaþýðingar, síðast kom út örsagnasafnið Sólardansinn (2019).
Sunnudaginn 18. maí sl efndi skald.is til ljóðadagskrár til heiðurs Þóru Jónsdóttur sem náði tíræðisaldri á árinu. Þóra var með okkur á þeim sólríka sumardegi og fyrir það ber að þakka. Blessuð sé minning góðrar skáldkonu.