Steinunn Inga Óttarsdóttir∙28. ágúst 2025
GAF KONUM LÍKAMA - SJÁÐU, SJÁÐU MIG
Ljóðabókin Sjáðu, sjáðu mig. Það er eina leiðin til að elska mig, kom út árið 1995 en hefur verið nær ófáanleg síðan. Nú hefur þessi 30 ára gamla ljóðabók Elísabetar Jökulsdóttur verið endurútgefin langeygum lesendum til mikillar gleði. Þetta er djarfur bálkur um konu sem missir rödd sína og líkama en fæðist á ný. Ljóðin eru femínísk og þrungin sársauka og sorg.
Soffía Auður Birgisdóttir sagði einhvern tímann eitthvað á þá leið að með ljóðum sínum hafi Elísabet gefið konum líkama. Og má með sanni segja að ljóð hennar séu almennt valdeflandi fyrir konur.
Útgáfuhóf verður hjá Forlaginu á Fiskslóð 39 í dag og mun Elísabet sjálf lesa upp.
Húsið opnar 16:30 en dagskrá hefst 17:00. Léttar veitingar í boði, upplestur og áritanir - og vitanlega verður bókin á útgáfutilboði. Þrír gestir stíga á stokk en þær Soffía Bjarnadóttir, Þórunn Valdimarsdóttir og Didda ætla allar að koma fram.
Spjallað var við Elísabetu í Víðsjá á dögunum, hér á 19. mínútu, smelltu á myndina!