Steinunn Inga Óttarsdóttir∙19. september 2025
EINLÆGUR OG PERSÓNULEGUR TÓNN FRÁ BIRGITTU

Árið 2021 missti Birgitta eiginmann sinn, Sigurð Inga Guðmundsson frá Leifsstöðum í Svartárdal, og hóf þá að skrá hugsanir sínar og tilfinningar um lífið, dauðann og tilveruna. Útkoman er berorð og áhrifamikil frásögn um sorg og missi en líka minningar um ástmann, sálufélaga og vin.
Snemma á árinu 2025 - eftir tuttugu ára hlé - sendi Birgitta frá sér nýja skáldsögu Undir óskasólu sem einnig kom út hjá Storytel. Bókin er sjálfstætt framhald að bók Birgittu frá 1992, Dætur regnbogans.
Birgitta hefur undanfarna áratugi hlotið mikla athygli fyrir rómantískar glæpasögur og sögulegar skáldsögur. Með Síðan hittumst við aftur slær hún nýjan streng, persónulegan og einlægan tón sem nær djúpt til allra sem hlusta. Aníta Briem les og ljær sögunni líf með hlýjum og áhrifamiklum lestri sem fangar bæði sársauka og fegurð frásagnarinnar, eins og segir í kynningarefni frá Storytel.