Soffía Auður Birgisdóttir∙29. október 2025
HOLDSVEIKINNAR HRYGGÐARMYND - HÁDEGISFYRIRLESTUR

Á morgun, fimmtudaginn 30. október, heldur Guðrún Ingólfsdóttir fyrirlestur með yfirskriftinni „Holdsveikinnar hryggðarmynd“. Píslaskáldið glaða Kristín Guðmundsdóttir (1859–1901).
Fyrirlesturinn er fluttur í sal Þjóðminjasafns Íslands á milli klukkan 12 og 13 og er hluti af hádegisfyrirlestradagskrá RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, sem er á þessu haustmisseri tileinkuð konum sem hafa staðið í andstreymi og háð baráttu fyrir mannréttindum og breyttri stöðu kvenna.
Ævi Kristínar Guðmundsdóttur (1859‒1901) skálds var stutt og þyrnum stráð. Þegar hún var 11 ára smitaðist hún af holdsveiki og tók sjúkdómurinn fljótt mikinn toll af henni því 16 ára var hún orðin óvinnufær. Árið 1898 var Kristín í hópi fyrstu sjúklinga sem lagðir voru inn á hinn nýstofnaða holdsveikraspítala í Laugarnesi og þar lést hún.
Kristín skildi eftir sig kvæðasafn frá spítalaárum sínum og er það varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Líta má á safnið sem smámynd eða míkrókosmos af Holdsveikraspítalanum. Í upphafi erum við leidd inn í þetta mikla hús og kynnumst smátt og smátt sumum íbúum þess. Jafnframt veitir Kristín ómetanlega sýn inn í líf sitt sem einkenndist af fátækt, vanrækslu og sjúkdómum. Markmið Kristínar með kvæðasafninu var hins vegar fyrst og fremst að stæla kjark og auka trúartraust þjáningasystkina sinna á Holdsveikraspítalanum.



