SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir29. ágúst 2021

AÐ MISSA OG SAKNA

Um sorg, sársauka og samlíðan í Frá ljósi til ljóss eftir Vigdísi Grímsdóttur
 
 
Sorg er eðlileg og heilbrigð viðbrögð við missi. Missir er ekki einvörðungu bundinn við fráfall ástvinar heldur getur hann líka átt við sambandsslit, heilsuleysi eða annað mótlæti í lífinu. Við missi gengur fólk í gegnum sorgarferli en þar sem sorg er afar einstaklingsbundin er misjafnt hversu lengi það varir og hvert birtingarform þess er.1 Missir og söknuður eru meðal meginþema í Frá Ljósi til ljóss eftir Vigdísi Grímsdóttur. Þar segir frá persónunni Rósu sem upplifir missi í bernsku. Móðir hennar, Magdalena, deyr við barnsburð svo hún elst upp hjá einstæðum föður. Þegar Rósa er tíu ára ákveður faðir hennar, Lenni, að láta gamlan draum rætast og fara út í heim að leita að konu sem hann fann mynd af og varð ástfanginn af sem barn. Rósa er sett í fóstur en upplifir um leið annan missi því fyrir utan fáein póstkort með nokkurra ára millibili hverfur Lenni úr lífi hennar næstu tíu árin.
 
 
Söknuður og sársauki Rósu
 
 
Frá ljósi til ljóss er fyrsta bókin í Þrenningunni; þríleik sem kom út á árunum 2001-2003. Þar er sögð saga Rósu frá fæðingu þar til hún er um tvítugt. Sagan er sögð í þriðju persónu en sögumaður hefur takmarkaða vitneskju því lesendur fá einvörðungu að skyggnast inn í huga Rósu en ekki annarra persóna. Hugsanir Rósu eru skáletraðar og þannig aðgreindar frá öðru í textanum. Í upphafi er lesendum sagt að Rósa sé „barn kærleikans“2 og ástarinnar og að faðir hennar hafi nefnt hana Rósu af því honum hafi fundist nafnið vera „einsog blóm ástarinnar, ástin sjálf, blóðið og allir mögnuðustu töfrarnir.“ (9) Lýsingarnar orka eins og áhrínsorð. Strax frá upphafi er framtíð Rósu ráðin. Hún elst upp við að hún verði að standa undir nafni og hugmyndum föður síns, sjá það fallega í lífinu og umfram allt að vera góð manneskja.
 
Rósa reynir að „gæða líf sitt mjúkri og einfaldri birtu“ (9) en engu að síður hvílir missir móðurinnar þungt á henni. Hún saknar þess að eiga hana ekki að og hafa aldrei fengið tækifæri til að kynnast henni. Það er algengt að börn sem misst hafa foreldri reyni að samsama sig því að einhverju leyti.3 Rósa reynir að moða úr því litla sem hún veit um Magdalenu til að búa til tengingar þeirra á milli og tekur því upp þann sið að endurnefna vini sína eins og Magdalena gerði meðan hún lifði. Besta vinkona Rósu fær því nafnið Lúna og kærastar þeirra stallna nöfnin Brúnn og Blár.
 
Eins og svo mörg börn sem misst hafa foreldri þráir Rósa að vita sem allra mest um móður sína og dauða hennar:4 „Segðu mér um dauðann. Segðu mér hvernig hún mamma mín dó. Segðu mér frá Magdalenu“ (19) þrábiður hún Lenna föður sinn en hann fer alltaf undan í flæmingi og segir að hann treysti sér ekki til að ræða konuna sem gaf „draumi hans líf og fórnað[i] sjálfri sér til þess. Hann hefði ekki röddina til þess, hún mundi bresta, hann hefði ekki orðin til þess, þau mundi hann ekki finna.“ (19) Lenna hefur ekki tekist að vinna úr sorginni. Lát Magdalenu hefur haft áhrif á líf hans og söguna sem hann sá fyrir sér; það hefur með öðrum orðum gert að engu hugmyndir hans um framtíðina, þau tvö munu ekki verða gömul saman, eignast hús í hlíðinni, ótal dýr og fleiri börn eins og þau höfðu ráðgert.5 En vegna þessa bregst samlíðan hans með Rósu, hann finnur ekki það sem hún finnur, getur ekki sett sig í spor hennar og áttað sig á hversu mikilvægt það er fyrir hana að fá nákvæmari mynd af móður sinni en hún hefur.
 
Þegar kemur að missi er algengt að börn feli tilfinningar sínar til að valda ekki þeim sem eldri eru vonbrigðum og leiða.6 Að undirlagi Evu föðursystur sinnar tekur Rósa þá ákvörðun að vera góð við Lenna, sýna honum umburðarlyndi og hætta að spyrja hann óþægilegra spurninga. Þar með setur hún velferð sína í annað sætið. Þegar Lenni ákveður að kveðja Rósu, tíu ára gamla, og setja hana í fóstur til vinahjóna sinna, Róberts og Helenu, tekur hún einarða ákvörðun um að sýna engum hvernig henni líður í raun.7 Hún kveður föður sinn án þess að fella tár og í öll skiptin sem Helena spyr hana hvort hún sakni pabba síns lýgur hún og segir: „Nei ekki mikið“ (36) því hún vill ekki segja Helenu frá því að hún saknaði lyktarinnar af honum, sérstaklega á morgnana, handanna hans, sérstaklega á kvöldin, augnanna og brossins, sérstaklega á daginn og svo saknaði hún líka alls sem þau höfðu gert saman, sérstaklega rétt áður en hún sofnaði. (36)
 
Með því að leika leikrit gagnvart umheiminum afneitar Rósa missinum út á við og einangrar sig um leið þótt hún sé umvafin fólki. Hún kýs að fela tilfinningar sínar vegna þess að hún veit að hún býr við bestu mögulegu aðstæður, hjá fólki sem elskar hana og vill allt fyrir hana gera. Hún vill ekki sýnast vanþakklát og umfram allt vill hún ekki hryggja Helenu og Róbert.
 
Til að takast á við söknuðinn og sársaukann beitir Rósa ímyndunaraflinu öðru fremur og fer í þykjustuleiki. Sálfræðingar hafa löngum bent á að þykjustuleikur (e. make believe) sé heppileg aðferð fyrir börn til að búa sig undir mismunandi hlutverk en ekki síður þegar þau takast á við áföll sem þau verða fyrir í lífinu, meðal annars lífshættulega sjúkdóma, dauða og missi. [8] Rósa ímyndar sér gjarnan samtöl við móður sína, hvernig hún myndi bregðast við í vissum aðstæðum og hvaða ráðleggingar hún myndi gefa henni.9
 
Með því að skapa ímyndaðan óskaheim les Rósa Magdalenu inn í daglegt líf sitt. Stundum er ímyndunin svo sterk að Rósa finnur bókstaflega fyrir návist móður sinnar samanber þessar lýsingar:
 
 
[…] stundum fannst henni einsog og hún fyndi mjúka, fíngerða hönd strjúka sér um hárið. Þetta var hönd Magdalenu sem auðvitað hlaut að sitja hjá dóttur sinni og horfa á hana sofna. (17) Þegar Rósa var nýfædd hafði Magdalenu sem sagt tekist að halda á henni örstutta stund, þrýsta henni að sér og kyssa á ennið. Þetta var mjúkur og heitur koss þótt varirnar væru bæði þurrar og kaldar. Stundum fann Rósa kossinn brenna á enninu. Þá var hún vön að grípa um staðinn til að halda varamerkinu dálítið lengur […]. (18)
 
 
Auðvelt er að afgreiða skynjun Rósu sem sjálfsblekkingu, það er að þráin eftir návist móðurinnar sé svo sterk að hún blekki markvisst sjálfa sig og láti sem móðir hennar sé hjá henni og sýni henni umhyggju. En einnig má skýra upplifun hennar með hliðsjón af rannsóknum taugafræðinga. Síðustu áratugi hafa þær leitt í ljós að í mönnum fyrirfinnast svipaðar frumur og spegilfrumur í makakí–öpum sem gegna því hlutverki að stýra eftirlíkingarhæfni þeirra og samlíðan.10 Að mati taugafræðinganna Antonios R. Damasio og Kaspars Mayer getur heilinn í mönnum ekki aðeins líkt eftir líkamsástandi annarra heldur líka eftir eigin líkamsástandi sem þeir hafa upplifað áður.11 Vegna þess að Rósa veit hver áhrif snertinganna sem hún lýsir eru, verður ímyndun hennar kannski raunveruleg að því leyti að hún kallar fram raunverulegar tilfinningar sem fela í sér þrá og söknuð eftir Magdalenu.
 
Þrátt fyrir að tilfinningarnar þrá og söknuður skíni af þykjustuleik Rósu er hann engu að síður uppbyggilegur. Vegna hans kemst Rósa nær móður sinni; með hjálp ímyndunaraflsins tekst henni að eiga í gefandi ímynduðum samskiptum við hana. Móðirin verður ímyndaður vinur og söknuðurinn og sársaukinn því bærilegri. Ímynduðum samtölum þeirra mæðgna svipar því til þeirra sem Rósa gerir ráð fyrir að dætur og mæður eigi; hún sækir til Magdalenu ráð, huggun og skilning sem hún ímyndar sér að dætur sæki alla jafna til mæðra sinna.
 
Rósa ímyndar sér ekki eingöngu að hún sé í kompaníi með Magdalenu heldur verða póstkortin frá Lenna eins og stökkpallur fyrir dagdrauma hennar um hvernig lífið leiki hann í Nýju Mexíkó. Dagdraumarnir ná hámarki þegar Rósa ímyndar sér að Lenni hafi fundið ástina, konuna sem hann leitar að, og skrifi Rósu til að segja henni fréttirnar en ekki síst til að bjóða henni til sín. Hún ímyndar sér jafnframt hverju hún muni svara og sér fyrir sér jákvæð viðbrögð Lenna við bréfinu. Ímyndun Rósu snýst ekki síst um að sameining þeirra feðginanna fullkomni hamingju Lenna; að hún sjálf sé ekki síður mikilvægur hlekkur í leit hans að hamingjunni en konan sem hann fór út í heim að finna.12 En í sömu mund afhjúpar ímyndunin hversu mjög Rósa saknar þess að vera ekki hluti af lífi Lenna.
 
Sögurnar sem Rósa ímyndar sér skapa henni með öðrum orðum oft vellíðan en afhjúpa líka vanlíðan hennar og þá staðreynd að hún er í vissum skilningi einstæðingur. Samhliða þykjustuleikjunum nýtir hún því umburðarlyndi og græðandi hugsanir til að hugga sig í sorginni:
 
 
Það kemur mér ekki á óvart að ég skuli hafa staðið hérna grátandi. Ég á það til að týnast í smáatriðum. En núna er ég fegin því að hafa grátið yfir sjálfri mér af því að þannig greindi ég aðalatriði lífs míns. Ég er í rauninni stálheppin ef eitthvað er af því að ég veit að Róbert og Helena munu aldrei yfirgefa mig. (56) Þegar ég rifja upp það sem liðið er þá er eðlilegt að ég gráti stundum. En ég græt ekki af söknuði. Ég græt vegna þess að ég er svo rík að minningum. Sem þýðir að ég græt af gleði. (87)
 
 
Viðbrögð Rósu minna á hugræna atferlismeðferð. Sú meðferð er tvíþætt. Annars vegar felst hún í því að menn læra að þekkja ósjálfráðar neikvæðar hugsanir og taka þær til gagnrýninnar skoðunar, það er að segja skaðlegar rangar hugsanir eru afhjúpaðar og felldar með rökum. Hins vegar eru borin kennsl á háskalega hegðun og henni breytt meðvitað vegna þess að hún er óskynsamleg.13
 
Eftir því sem tíminn líður dofnar sársauki Rósu vegna Lenna en hann hverfur ekki. Það er algengt að fyrst eftir missi upplifi syrgjendur mikla samlíðan annarra. En þegar lengra líður frá missinum kunna aðrir að verða þreyttir á syrgjandanum og samlíðanin dofnar.14 Þótt Rósa hafi kosið að takast á við sorgina í einrúmi imprar hún stundum á tilfinningum sínum við Lúnu, bestu vinkonu sína. Þegar Rósa hefur beðið í þrjú ár eftir póstkorti frá Lenna segir hún Lúnu að hún sé hætt að bíða. Hana langar að ræða Lenna, söknuðinn og missinn en Lúna hefur ekki áhuga og snýr talinu að hugðarefni sínu, myndlistinni og Fridu Kahlo. Samlíðan Lúnu hefur farið þverrandi, þolinmæði hennar er á þrotum og í stað þess að skilja líðan Rósu kemur í ljós að hún öfundar hana af að hafa fengið að upplifa missi þegar hún sjálf hefur lifað „eðlilegu og átakalausu lífi“ (106).
 
Rósa og Frida Kahlo

Lesandinn þarf að lesa á milli línanna og leysa úr ýmsum vísbendingum sem honum eru gefnar ætli hann að skilja raunverulega líðan Rósu til fulls af því að hún kýs að takast á við sársauka, þjáningu og missi með umburðarlyndi og þykjustuleikjum. Ein vísbendingin sem honum er gefin er umfjöllunin um mexíkósku listakonuna Fridu Kahlo (1907–1954) en í sögunni er hún helsta fyrirmynd Lúnu, bestu vinkonu Rósu. Lúna þreytist seint á að apa eftir verkum Fridu og ræða líf hennar og list við Rósu. Með því að minnast á Fridu Kahlo er ekki einvörðungu skerpt á tengingu persóna við Mexíkó heldur er einnig dregin fram hliðstæða með sársauka og þjáningu Fridu og Rósu. Eins og málverk Fridu bera með sér bjó hún við mikinn sársauka allt sitt líf. Ung að árum fékk hún barnalömunarveiki og var rúmliggjandi mánuðum saman. Frida náði sér aldrei til fulls því að veikindin urðu til þess að hún varð hölt á öðrum fæti og gat aldrei gengið almennilega. Fimmtán ára lenti hún í alvarlegu slysi þegar keyrt var á strætisvagn sem hún var farþegi í. Hún meiddist mikið; í slysinu brotnaði hryggjarsúla hennar á þremur stöðum, nokkur rifbein, viðbeinið og nokkur bein í hægri fótlegg. Í kjölfar slyssins var Frida með króníska verki, og var hvað eftir annað lögð inn á spítala auk þess sem hún þurfti að gangast undir 32 skurðaðgerðir.15 Þrátt fyrir mikil veikindi tókst henni engu að síður að sinna listinni og árið 1940, þegar haldin var alþjóðleg súrrealistasýning í Mexíkó, sló hún í gegn með verkum sínum.
 
Þrátt fyrir frægð og hylli átti Frida ekki sjö dagana sæla og ollu því bæði veikindin og stormasamt hjónaband hennar og listmálarans Diegos Rivera. Það fékk einnig mikið á Fridu að hún og Diego gátu ekki eignast barn saman en Frida gekk í gegnum margar misheppnaðar meðgöngur og til að bæta gráu ofan á svart var Diego henni ótrúr, en það endurgalt hún honum raunar. Lungann úr lífinu reyndi Frida að skilja sársauka sinn og þjáningu; hvað sársauki væri og hvers vegna hún fyndi til. Spurningunum leitaðist hún við að svara með málverkum sínum en í þeim endurspeglast þjáning hennar, sársauki og óhamingja. Oftar en ekki er myndefni Fridu hún sjálf en í málverkunum sýnir hún til dæmis fæðingu, fósturlát, fötlun, ofbeldi og svik. Sársaukann tjáði Frida iðulega með hjálp ýmissa líkinga sem löngum hafa verið tengdar sársauka og þjáningu. Til dæmis sótti hún gjarnan í bardagalíkingar og málaði vopn, eins og hnífa, sverð og örvar, og opin blæðandi sár.16 Stundum málaði hún tvær ólíkar útgáfur af sjálfri sér á sama málverkið. Þá er önnur Fridan oft heilbrigð en hin í sárum eins og til dæmis málverkið Two Fridas/Las dos Fridas vitnar um:
 

Málverkið málaði Frida skömmu eftir skilnað sinn og Diegos en á því er önnur Fridan heilbrigð en hin heldur á skærum og er særð banasári sem má túlka sem særindin vegna framhjáhalds Diegos. Hjörtu beggja kvennanna eru sjáanleg en á þeirri særðu er hjartað sundurskorið og blóðblettir í kjól hennar. Fridurnar tengjast bæði líffræðilega, í gegnum ósæð sem tengir hjörtu þeirra, og tilfinningalega af því að þær haldast í hendur. Í þessu verki og öðrum af sama tagi birtist ekki einvörðungu ofbeldislíking – það er að segja á málverkunum er eins og ráðist hafi verið á Fridu með vopni – heldur einnig spegil–líking því eins og svo margir sem upplifa sársauka varpar Frida sársaukanum yfir á eitthvað annað fyrirbæri (í þessu tilviki aðra Fridu) sem hjálpar henni að takast á við hann og þjáninguna sem fylgir honum.17 David Biro hefur sagt að með aðferð sinni takist Fridu að mála myndina sem hún sér í speglinum en jafnframt þá heilbrigðu Fridu sem hún þráir að vera og að auki öðlist hún félagsskap og betri skilning á sársauka sínum.18
 
Ákveðin málverk Fridu Kahlo eru ekki rædd sérstaklega í Frá ljósi til ljóss. Hún er fyrst kynnt til sögunnar þegar Rósa og Lúna ræða „dularfull tengsl“ þeirrar síðarnefndu við listakonuna. Lúna leggur sig fram um að líkjast Fridu; sjálf er hún bæði sambrýnd og skeggjuð, hefur reynt að ná göngulagi hennar og þráir að verða mikils metin myndlistarkona á borð við hana.19 Þótt Frida sé jafnan tengd Lúnu er hún hliðstæða Rósu en til marks um það má hafa ýmsar vísbendingar textans. Fyrst má nefna að þegar Rósa heimsækir Lúnu og segir henni að hún sé hætt að bíða eftir bréfi frá Lenna er Lúna að fletta málverkabók um Fridu Kahlo. Þó að málverkum bókarinnar sé ekki lýst ætti nafn listakonunnar að ýta undir að lesendur hugsi um sársauka hennar og þjáningu. Allt sem Frida stendur fyrir er vísbending um vanlíðan Rósu og – þótt hún beri sig vel – um að hún vilji gjarnan ræða líðan sína við Lúnu. Vera má að Lúna hafi ekki þolinmæði til að ræða söknuð og missi Rósu og kjósi því frekar að tala um Fridu. En ekki er ólíklegra að hún velji að tala um mexíkósku listakonuna til að byggja Rósu upp því hún stillir henni og Fridu upp sem hliðstæðum. Hún leggur áherslu á að þrátt fyrir veikindi, sársauka og þjáningu hafi Frida valið að vera sterk og láta ekkert á sig fá. Hún minnir Rósu jafnframt á að þegar þjáningin plagaði Fridu hvað mest hafi hún kosið að þurrka út þann tíma úr lífi sínu og því sagst vera tveimur árum yngri en hún var þegar hún var spurð um aldur sinn.20
 
Hegðun Fridu er gott dæmi um sjálfsblekkingu; hún vissi vel að hún var tveimur árum eldri en kaus að horfa framhjá því og reyndi að telja öðrum trú um lygina. Þar sem Rósa hefur fetað svipaðar slóðir og Frida hefur hún valið að takast á við sorgina og söknuðinn með viljastyrknum og halda lífinu áfram. Sársaukinn hefur þó haft áhrif á hana og því notar hún sumpart sömu aðferð og Frida gerði í listsköpun sinni. Á erfiðum tímum ímyndar hún sér sinn eiginn verndara eða vinkonu, Magdalenu móður sína, sem hún á í ímynduðum samræðum við og fær hughreystingu frá þegar hún þarf á að halda. Frida verður þar með einskonar ónefnd fyrirmynd Rósu; þó að sú síðarnefnda máli ekki þjáningu sína á striga, nýtir hún sköpunina til að bregðast við sársaukanum. Það gerir hún umfram allt með því að stappa í sig stálinu með ákveðnum fullyrðingum, það er að segja hún þjálfar sig í að hugsa jákvætt um aðstæður sínar og segir sjálfri sér endurtekið að það sé gæfa að hún búi hjá góðu fólki sem elskar hana en auk þess notar hún ímyndunaraflið til að skapa ímyndaðan vin sem hún getur leitað til og fengið skilning hjá. Sköpunin birtist líka í því að á meðan Rósa bíður frétta frá Lenna kýs hún að nýta tímann í að þjálfa sig í að lesa úr spilum Evu föðursystur sinnar í stað þess að „eyða“ tímanum úr lífi sínu eins og Frida forðum. Lestur spilanna verður með öðrum orðum aðferð til að reyna að sjá framtíðina fyrir.
 
 
Að lokum
 
Rósa vinnur að mestu úr sársaukanum í einrúmi. Hún hoppar inn í ímyndaðan óskaheim stöku sinnum til að vera í kompaníi með látinni móður sinni og nýtir auk þess græðandi hugsanir og umburðarlyndi til að takast á við erfiðan veruleika. Rósa er í frekar góðum og fremur eðlilegum samskiptum við fólkið í kringum sig og þótt hún fari í þykjustuleiki og beiti ímyndunaraflinu óspart til að smíða óskaheim og eiga í ímynduðum samskiptum við móður sína er einkaheimur hennar ekki eins afgerandi og hjá mörgum öðrum persónum Vigdísar; til dæmis Lenna syni Rósu sem sagt er frá í næstu bók þríleiksins, Hjarta, tungl og bláir fuglar.21 Sorgarferli Lenna vegna missis í bernsku varir mun lengur en móður hans og ólíkt henni eyðir hann nær öllum sínum stundum í óskaheimi með ímynduðum vini. Þótt mæðginin syrgi á misjafnan hátt er ljóst að báðum reynist ímyndunaraflið besta leiðin til að sættast við missinn og halda lífinu áfram – jafnvel þótt þykjustuleikurinn kunni að vara í tæplega tuttugu ár eins og á við um Lenna.
 
 
Heimildir
 
[1] Sjá Elizabeth Kübler-Ross og David Kessler, On Grief and Grieving, New York: Scribner, 2005, bls. 7.
[2] Vigdís Grímsdóttir, Frá ljósi til ljóss, Reykjavík: Iðunn, 2001, bls. 8. Eftirleiðis verður vísað til sögunnar með blaðsíðutali einu í sviga.
[3] Atle Dyregrov, Grief in Children: A Handbook for Adults, önnur útgáfa, London og Philadelphia: Jessica Kingsley Publishers, 2008, bls. 30.
[4] Sbr. sama heimild, bls. 30.
[5] Vigdís Grímsdóttir, Frá ljósi til ljóss, bls. 15.
[6] Atle Dyregrov, Grief in Children, bls. 29.
[7] Sbr. Steinunn Inga Óttarsdóttir, „Ástin, dauðinn og sannleikurinn“, Morgunblaðið 21. nóvember 2001, bls. B7.
[8] Susan Linn, The Case for Make Believe: Saving Play in a Commercialized World, New York: The New Press, 2009, bls. 5.
[9] Vigdís Grímsdóttir, Frá ljósi til ljóss, t.d. bls. 26.
[10] Giuseppe Di Pelligrino, o.fl., „Understanding motor events. A neurophysiological study“, Experimental brain research 91:1/1992, bls. 176–180.
[11] Antonio R. Damacio og Kaspar Mayer, „Behind the looking–glass“, Nature 454: 1/2009, bls. 167–168.
[12] Vigdís Grímsdóttir, Frá ljósi til ljóss, bls. 100–101.
[13] Magnús Blöndahl Sighvatsson, Hafrún Kristjánsdóttir, Engilbert Sigurðsson og Jón Friðrik Sigurðsson, „Gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar við lyndis- og kvíðaröskunum hjá fullorðnum“, Læknablaðið 97(11)/2011, bls. 613–619.
[14] Sjá t.d. Susan Sontag, Um sársauka annarra, þýð. Uggi Jónsson, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2006, bls. 131–141.
[15] David Biro, Listening to pain. Finding words, compassion, and relief, WW Norton og Company, 2010, bls. 173–174.
[16] Sama heimild, bls. 174.
[17] Sama heimild, bls. 157.
[18] Sbr. sama heimild, bls. 174–176.
[19] Vigdís Grímsdóttir, Frá ljósi til ljóss, bls. 46–47, 107–108.
[20] Sama heimild, bls. 105–106.
[21] Sjá frekari umfjöllun í bókinni Raunveruleiki hugans er ævintýri. Um valdar sögur Vigdísar Grímsdóttur, einkenni þeirra og viðtökur eftir Guðrúnu Steinþórsdóttur.

Tengt efni