AÐ BRJÓTA TABÚ OG BREYTA SAMFÉLAGINU
Um skrif Elísabetar Jökulsdóttur
[…] mig hafði langað síðan ég lasÁstu Sigurðardóttur sextán ára gömulað sprengja upp heilann á konum.Brjóta tabú."
Þannig kemst Elísabet Jökulsdóttir að orði í fyrsta kafla minningasögunnar Saknaðarilms. Þessi yfirlýsing kemur í kjölfarið á því að móðir hennar kvartar yfir því hversu opinská Elísabet hafi verið í sjónvarpsviðtali kvöldið áður, þar sem hún hafði meðal annars rætt um kynfæri sín: „Hver er munurinn á að tala um píku eða lærlegg? spurði ég mömmu.“
Elísabet hefur svo sannarlega brotið tabú með bókum sínum en margar þeirra fjalla um málefni sem konur af kynslóð Elísabetar og móður hennar ræddu varla sín á milli, hvað þá á opinberum vettvangi. Hér er sérstaklega vísað til skrifa Elísabetar um líkama kvenna; í bókum á borð við Heilræði lásasmiðsins (2007), Enginn dans við Ufsaklett (2014) og Aprílsólarkulda (2020) má segja að hún stilli kvenlíkamanum upp í allri sinni nekt og varnarleysi og dragi fram hvernig líkaminn er vettvangurinn þar sem helstu átök sjálfsverunnar við sjálfa sig og aðra eiga sér stað. Líkt og Simone de Beauvoir fjallaði um í Hinu kyninu veit Elísabet að líkami kvenna hefur úrslitaáhrif á hlutskipti þeirra og getur tekið af þeim völdin. Hún skrifar um kveneðlið og kynverund kvenna og spáir í hvað sé fólgið í því að vera alvörukona. Slíkar hugleiðingar tengjast yfirleitt sambandinu við karlmenn. Skömm á kynfærum kvenna er samgróin okkar menningu og órjúfanlegur hluti kynferðisbælingar kvenna og það er sú skömm sem er að verki þegar móðir hennar ávítar hana fyrir að ræða opinskátt um píku og skapabarma í sjónvarpi. Þetta tengist líka kynfrelsi kvenna því hvergi verður tvöfalt siðgæði og kynjamismunun ljósari en í afstöðunni til kynfrelsis kvenna annars vegar og karla hins vegar. Í skrifum sínum um kvenlíkamann og skömmina sem honum tengist hefur Elísabet fjallað um hluti sem að miklu leyti hafa legið í þagnargildi allt fram á þessa öld þótt ýmsar kvenréttindahreyfingar hafi reynt að setja þá á dagskrá. Því má vel halda því fram að með þessum skrifum sprengi Elísabet upp heilann bæði á konum og körlum og þau mega teljast eitt mikilvægasta framlag hennar til íslenskra bókmennta.
En það er ekki bara skömmin sem nagar móður Elísabetar í upphafskafla Saknaðarilms. Í þessu fyrsta atriði bókarinnar er snilldarlegur stígandi. Eftir notalega stund yfir góðum mat berst samtalið að áðurnefndum sjónvarpsþætti. Fyrsta athugasemd móðurinnar tengist málvillu sem hún staðhæfir að Elísabet hafi gerst sek um í þættinum en strax á eftir fer hún að ræða um píkutalið en áður en það er útrætt vindur hún sér í það sem er í raun aðalatriðið, „af hverju sagðirðu að ég væri ekki rithöfundur?“ Elísabet veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið þegar móðir hennar rýkur grátandi á dyr, særð djúpu sári yfir þeirri höfnun sem hún upplifði við þessi orð dóttur sinnar.
Höfnun er í raun lykilorðið í skrifum Elísabetar Jökulsdóttur, skrif hennar um sjálfið, líkamann og kynverund kvenna hnitast öll um andstæðuna ást og höfnun. Þráin eftir ást og viðurkenningu er hið sterka afl sem knýr skrifin áfram og höfnunina eiga þær mæðgur sameiginlega og tengist hún föðurnum/eiginmanninum sem yfirgaf þær en þær dýrka hann og dá, leynt og ljóst. Í bókinni Um sálgreiningu talar Sigmund Freud um að fólk sem glími við sálræna erfiðleika þjáist í raun af endurminningum. Freud skilgreinir einkenni þeirra sem leifar og minningartákn tiltekinna atvika sem hafa valdið sálrænum áföllum. Hann bendir jafnframt á að sjúklingurinn sem þjáist af endurminningum hafi tilhneigingu til að ríghalda í hina löngu liðnu bitru reynslu, hann getur ekki losað sig frá fortíðinni og hennar vegna vanrækir hann allt það sem er raunverulegt og aðkallandi. Þessi fjötrun sálarlífsins við sálræn áföll er eitt mikilvægasta og raunar afdrifaríkasta sérkenni taugaveiklunar að mati Freuds. Elísabet gjörþekkir þetta sálræna munstur og í Heilræði lásasmiðsins skrifar hún: „Ég var svo heppin að eiga sorg sem stjórnaði lífi mínu“ og vísar hún þar til dauða og höfnunar föður síns. Þótt móðir hennar hafi ekki greint áhrif skilnaðarins á jafn opinskáan hátt og Elísabet er ljóst að höfnun er sífellt að verki í sambandi þeirra tveggja, eins og kemur svo skýrt fram í upphafi Saknaðarilms. Og reiðin brýst aftur og aftur út í samskiptum mæðgnanna: „Eftir að hún dó varð mér ljóst að hún hafði notað mig fyrir ruslafötu frá því að ég var á barnsaldri. Það er þér að kenna hvernig mér líður. Sjálf notaði ég hana sem ruslafötu á fullorðinsaldri. Henti í hana þögn og sársauka“, segir einnig í Saknaðarilmi.
Þær mæðgur hafa á ólíkan hátt tekist á við höfnunina og áföllin sem henni tengjast en í báðum tilvikum má tala um ferðalög. „Ég sagði að þú værir ferðamaður númer eitt, mamma“ er svarið sem Elísabet gefur móður sinni þegar hún spyr af hverju hún hafi sagt að hún væri ekki rithöfundur. Síðar í bókinni skrifar Elísabet: „Eftir dauða hennar leitaði ég að ástæðu án afláts, af hverju var hún alltaf á ferð og flugi, var hún að flýja eitthvað, bægja burt sorginni yfir pabba, var hún með ferðafíkn, eirðarlaus, viðþolslaus, friðlaus. En það var þetta; hún fékk áhuga á heiminum.“ Sjálf fór Elísabet í annars konar ferðalag, í gegnum skrifin sem verða sjálfshjálparleið hennar og meðferðarform og þau eru knúin áfram af djúpri þörf. Í blaðaviðtali sem tekið var fyrir tæpum áratug segir hún: „Ég veit ekki hvar ég væri stödd ef ég gæti ekki skrifað. Ég er eins og landkönnuður með landakort sem spyr sig hvar hann sé staddur og hvert hann sé að fara.“
Elísabet vísar endurtekið til þess að með skrifunum hafi hún skapað sér sinn eigin innri heim sem er nokkurs konar hliðarheimur við raunveruleikann og hún nefnir hann stundum „töfraheiminn“. Hún lýsir honum sem sínu eigin „heimsveldi“ sem „var sjónhverfingabústaður“. Sem táknmynd er töfraheimurinn mjög flókinn því hann má skilja hvort tveggja sem athvarf og fangelsi. Hann tengist erfiðri reynslu bernskunnar og undir lok Heilræðis lásasmiðsins segir: „[…] ég er hrædd við að fullorðnast og yfirgefa töfraheiminn því þarna úti er heimur sem ég hef ekki búið til.“ Töfraheimurinn er því skjól fyrir raunveruleikanum en eins og gefur að skilja er einnig fólgin hætta í því að loka raunveruleikann úti. Móðir hennar fer þveröfuga leið og heldur út í hinn raunverulega heim og skrifar um hann í verkum sínum; hún er ferðamaður og líka rithöfundur og vill að sjálfsögðu fá viðurkenningu á hvoru tveggja því þar liggur kjarni hennar eigin sjálfsmyndar, hennar „dýpsta vitund“ eins og Elísabet uppgötvar í átökunum yfir sjónvarpsviðtalinu.
Saknaðarilmur er verk um flókið samband mæðgna en þó fyrst og fremst verk um söknuð, eins og titilinn ber með sér. Og líkt og gerist í einu þekktasta minningaverki vestrænna bókmennta, Í leit að glötuðum tíma eftir Marcel Proust, er það lykt eða ilmur sem vekur upp minningarnar: „[…] já einsog ég væri lítill ljónshvolpur á ferð með móður sinni um slétturnar og frumskóginn. Hnusandi á eftir móðurinni. Þekkti hana á lyktinni.“ Í tilviki Elísabetar vakna minningar um átök og áföll en fyrst og fremst um söknuð og hlutskipti kvenna þar sem „forneskjan“ kemur við sögu: „En ég hugsa að jafnvel fortíðinni hafi ofboðið hversu fastar við vorum í hlutverkum, eða bara hversu fastar við vorum í fortíðinni.“ Í gegnum textann skín væntumþykja og ást sem ómögulegt var að tjá vegna forneskjunnar og óskrifaðra reglna um samskipti kvenna.
En mikilvægasta uppgötvun Elísabetar, sem hún gerir í gegnum skrifin, er að hún saknar bæði hins sæta og hins súra í samskiptunum. Hún saknar móðurinnar sem var heila viku að pakka niður í ferðatösku og kom heim úr hverri ferð með verndargripi handa dóttur sinni. En svo saknar hún líka „æðiskastanna, nornarinnar, þessarar hamslausu snarklikkuðu konu sem öskraði á mig, gargaði, reif í hárið á mér, braut stól í bræðiskasti, setti hnefann í borðið, hræddi mig, ógnaði mér, þaut upp eins og raketta, á háa c-ið og eitthvað út í geim […] að hafa átt móður sem var norn, hvílík forréttindi, nú þekkti ég æðisköst og grét sáran, ég veinaði af söknuði“. Mesta sorgin tengist þó þeirri staðreynd að þær mæðgur voru „tvær konur sem náðu aldrei sambandi […] þrátt fyrir að hún væri heimskona […] og alla sjálfsvinnuna sem ég hafði lagt á mig“. Og það rennur upp fyrir henni hvernig á þessu standi: „[…] ég skil það allt í einu þegar ég skrifa þessa bók, að til þess að við næðum sambandi hefði heilt samfélag þurft að breytast.“