SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir17. september 2025

SÓLSKINSHESTUR - GUÐRÚN STEINÞÓRSDÓTTIR FJALLAR UM MAMMFRESKJUR OG GOTNESKA HEFÐ

Persónusköpun Steinunnar Sigurðardóttur hefur í rúma hálfa öld markað djúp spor í íslenskar bókmenntir. Kvenhetjur hennar, hvort sem um er að ræða skáldskap eða sannsögur, endurspegla víddir íslensks samfélags, menningar og sjálfsmyndar.
 
Á málþingi sem haldið var í Eddu 15. september sl, var fjallað um hinar innbyrðis ólíku kvenhetjur í verkum Steinunnar, frá Öldu í Tímaþjófnum og Samöntu í Ástinni fiskanna til Heiðu bónda og Vigdísar forseta.
 
Meöal frummælenda var Guðrún Steinþórsdóttir sem gaf góðfúslegt leyfi fyrir að fyrirlestur hennar yrði birtur hér:

 

Sólskinshestur er ein af mínum uppáhalds bókum en hana hef ég lesið árlega frá því að hún kom út og sum árin oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og alltaf er ég jafn hrifin af þessu stórkostlega meistaraverki. Í sögunni sýnir Steinunn ekki einungis einstök tök á máli og stíl heldur einnig hversu djúpa innsýn hún hefur í mannlegt eðli. Í bókinni fjallar hún á áhrifaríkan hátt um vanrækslu barna – málefni sem lítið hafði áður verið fjallað um í íslenskum bókmenntum og var lengi vel falið samfélagsmein. Þótt viðfangsefnið sé alvarlegt er húmorinn aldrei langt undan og kemur í veg fyrir að sagan sé harmur einn.

Bókin segir frá lífi Lillu frá barnæsku og þangað til hún deyr rúmlega fertug.  Reynsla hennar er sár en verst hefur vanrækslan í æsku leikið hana. Á nýstárlegan hátt nýtir Steinunn ýmis minni gotnesku hefðarinnar til að varpa ljósi á fortíð persónunnar. Gotneskar sögur einkennast af ókennilegu andrúmslofti, ógn og hryllingi. Þær fjalla oft um áföll og afleiðingar þeirra um leið og þær afhjúpa ýmis mein samfélagsins. Í sögunum eru hlutverk barna iðulega táknræn enda er sakleysi þeirra gjarnan nýtt til að draga fram óhugnað sögunnar. Börnin verða því boðberar málefna sem samfélagið hefur átt erfitt með að viðurkenna. Í tilviki Sólskinshests er það staða vanræktra barna í íslensku samfélagi á seinni hluta tuttugustu aldar og í upphafi þeirrar 21.

Heimilið ætti að vera öruggur staður en í gotneskum sögum er það ekki alltaf raunin eins og kemur skýrt fram í Sólskinshesti. Þar bregðast foreldrarnir, Haraldur og Ragnhildur, afkvæmum sínum, Lillu og Mumma, með því að vanrækja þarfir þeirra. Þau gefa systkinunum ekki nöfn og eftir að húshjálpin Magda er látin fara talar enginn við börnin eða sér til þess að þau séu mett og almennilega klædd. Bernskan er þannig hrifsuð frá Lillu því hún sér sig knúna til að taka við starfi Mögdu, þá sjö ára gömul, og sjá um heimilið og bróður sinn. Vanrækslan á systkinunum er ekki vel sýnileg utan veggja heimilisins en til að undirstrika áhrif hennar er sífellt verið að tengja börnin, foreldra þeirra og fjölskylduhúsið við dauðann, reimleika og ókennilegar aðstæður.

Foreldrarnir eru læknar og því upplýstar manneskjur sem eykur óhugnað sögunnar. Af tveimur óhæfum uppalendum stendur Haraldur sig betur en Ragnhildur því hann sér til þess að börnin fái einhvern aðgang að mat og veitir þeim stundum athygli. Ragnhildur minnir hins vegar á mammfreskjur úr hrollvekjum sem láta sig hvorki varða hvernig afkvæmunum líður né bregðast við þörfum þeirra. Algengt er að illska slíkra mæðra tákni það sem samfélagið óttast hverju sinni. Andvaraleysi Ragnhildar er yfirgengilegt en freistandi er að túlka það sem líkingu fyrir hvernig íslenskt samfélag sameinaðist lengi vel um að þegja yfir illri meðferð á börnum. Ragnhildur hlýtur reyndar að vera ein frumlegasta persóna Steinunnar því hún er skoðanarík sjálfstæðiskona, herstöðvarandstæðingur og spíritisti, vonlaus móðir en frábær barnalæknir, með mikla samlíðan í garð annarra barna en sinna eigin – sem sagt brilljant blanda!

Systkinin Lilla og Mummi, föl og horuð, minna sem börn á drauga. Leikirnir þeirra,  Læknisdraugaleikurinn, Dauðaleikurinn og Ósýnilegi leikurinn, eru óhugnanlegir og vitna um vanlíðan en sýna þó hvernig börnin nota ímyndunaraflið og húmor til að takast á við nöturlegan veruleika og skapa nýjan heim þar sem þau eru stjórnendur eigin lífs en ekki þolendur.

Dauðinn setur mark sitt á allt heimilislífið. Foreldrarnir syrgja opinskátt æskuástir sínar auk þess sem Ragnhildur stendur reglulega fyrir miðilsfundum, einkum þegar hún hefur misst barn sem hefur verið sjúklingur hennar. Á slíkum samkomum hrína oft látnu börnin og halda vöku fyrir Lillu. Í reimleikasögum er draugagangur gjarnan líking fyrir missi, erfiðar minningar eða leyndarmál hússins og þar með er dregin athygli að því sem þaggað er niður; í einkalífinu eða samfélaginu. Gól dánu barnanna má því túlka sem ákall um að samfélagið hlúi almennt betur að börnum áður en það verður of seint.  

Á fullorðinsárum kvelur draugagangurinn Lillu áfram eins og eftirfarandi ummæli vitna um: „Þeir eru farnir að breiða úr sér, þessir daufu skuggar, og þrengja að mér í ámátlegum dansi, sumir með fléttur, og þykjast hafa tilverurétt. Ég bíð bara eftir að þeir taki á sig eiturskarpar útlínur og kyrki mig helst með samstilltu átaki og mörghundruð puttum.“ (10) Gotneska myndmálið endurspeglar reimleikana í huga Lillu; hvernig áleitnar bernskuminningar leita á hana og vekja hjá henni vanlíðan. Í lífi númer tvö á æskuheimilinu ræðst hún í framkvæmdir á húsinu sem grotnað hefur niður og safnað myglu í herbergjunum. Ástandið á húsinu rímar við líðan persónunnar og því verður endurbyggingin táknræn fyrir átök við fortíðina.

Áhrif erfiðrar bernsku koma ekki aðeins fram í vanlíðan Lillu heldur marka þau einnig ástarsambönd hennar, annars vegar við æskuástina og hins vegar við eiginmanninn fyrrverandi. Hvorugum getur hún gefið sig til fulls og deilt með reynslu sinni meðan á samböndunum stendur. Samkvæmt Lillu felst ástin í því að sjá og kunna á litina í manneskjunni sem viðkomandi elskar. Það kunni kærastinn og því er það táknrænt að einu skiptin sem hún klæðist litum er þegar þau eru saman. Hún kann þó ekki á skæra liti ástarinnar og endar á að hafna henni – hættir með kærastanum og klæðist í kjölfarið helst drapplituðum fötum og litar aldrei skolleitt hárið. Útlitslýsingin sýnir hvernig ástin er fjarverandi í lífi Lillu. Undir sögulok er persónan þó tilbúin að deila reynslu sinni með æskuástinni en sú fegurð ástarsögunnar sem byggð hefur verið upp – að elskendurnir nái saman að nýju – er harkalega rifin niður og hryllingurinn tekur völd því Lilla lætur lífið í bílslysi rétt ókomin í sumarbústað kærastans.

Að mínu mati er Sólskinshestur ein mikilvægasta skáldsaga Steinunnar. Hún minnir okkur á nauðsyn þess að vernda börn, sýnir hversu mikil áhrif vanræksla í æsku getur haft á líf einstaklings og varpar ljósi á hve vandlega falið samfélagsmeinið er. Síðan bókin kom út hefur almenn þekking á áhrifum áfalla í bernsku á líf og geðheilsu fólks aukist til muna en enn benda nýlegar rannsóknir til þess að vanræksla barna sé falið vandamál í íslensku samfélagi. Sólskinshestur átti svo sannarlega brýnt erindi við íslenskt samfélag 2005 en ekki síður í dag 20 árum seinna.

 

 

Tengt efni