VERÐLAUNAÁRIÐ 1992 - ÞÖRF OKKAR FYRIR SÖGU OG FRÁSÖGN
Fríða Á. Sigurðardóttir hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1992 fyrír skáldsöguna Meðan nóttin líður. Bókin er þreföld verðlaunabók þvi Fríða hlaut bæði íslensku bókmenntaverðlaunin og menningarverðlaun Dagblaðsins árið áður. Sagan fjallar um sögu kvenna, kvenleg gildi, samstöðu og sundrung. Frásögnin hverfist um Nínu sem raðar saman brotum úr sögu formæðranna meðan hún situr við dánarbeð móður sinnar.
Í greinargerð um val verðlaunadómnefndar segir m.a.:
„Bókin er ögrandi, nýskapandi og býr um leið yfir ljóðrænni fegurð. í verkinu er horfið aftur til fortíðar í leit að lífsgildum sem eiga erindi til samtíma okkar. Bókin gerist að hluta til í stórbrotinni náttúru Hornstranda og náttúrulýsingar eru hluti af töfrum textans. Í verkinu er ekki reynt að skapa þá blekkingu að við getum skilið til fullnustu veruleika formæðra okkar og forfeðra. Textinn setur spurningarmerki við hefðbundna söguskoðun, hefðbundna frásögn og venjubundna málnotkun. Fríða Á. Sigurðardóttir lýsir í ljóðrænum texta þessarar bókar þörf okkar fyrir sögu og frásögn um leið og bókin lýsir hve erfltt það er að komast að eingildum sannleika um líf og list.“
Átta Íslendingar hafa hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, þar af tvær konur:
Ólafur Jóhann Sigurðsson, Snorri Hjartarson, Thor Vilhjálmsson, Fríða Á. Sigurðardóttir, Einar Már Guðmundsson, Gyrðir Elíasson, Sjón og Auður Ava. Einungis tveimur norrænum skáldkonum hafði hlotnast þessi heiður á undan Fríðu, Sara Lidman árið 1980 og Herbjörg Wassmo 1987.
Árið 1992 var merkisár í sögu íslenskrar þjóðar. Þá hlutu fjórir íslenskir rithöfundar norræn bókmenntaverðlaun, þar af þrjár konur. Fyrst hlaut Fríða bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Næst hlaut Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir leikskáldaverðlaun Norðurlanda fyrir Ég er meistarinn og Guðrún Helgadóttir fékk norrænu barnabókaverðlaunin fyrir Undan illgresinu. Fjórði verðlaunahöfundurinn var Thor Vilhjálmsson, sem hlaut verðlaun sænsku Akademíunnar fyfir framlag til norrænna bókmennta.
Steinunn Jóhannesdóttir náði tali af þeim Fríðu, Guðrúnu og Hrafnhildi fyrir tímaritið 19. júní 1993 (sjá hér). Rut Hallgrímsdóttir tók ljósmyndir af skáldkonunum við þetta tækifæri. M.a. koma prjónuð handklæði og ritvél við sögu í samtalinu. Hér eru lokaorð viðtalsins:
Að opna glufu
Sp: En þó það sé svona erfitt fyrir ykkur að skrifa og rithöfundar beri heldur lítið úr býtum dagsdaglega þá sitjið þið samt við. Þú segir á einum stað í bók þinni, Fríða, eitthvað á þá leið að listin sé löngunin til að opna glufu. Er það þetta sem þið finnið ykkur knúnar til að gera? Opna glufu?
Guðrún: Er nokkuð hægt að segja það betur!
Sp: Eruð þið að reyna að opna glufu inn í mannshjartað? Söguna?
Fríða: Listin opnar leiðina að djúpum tilfinningum. Hún leiðir til annarrar sýnar.
Hrafnhildur: Það er eitthvert óþol. Maður er ekki sáttur við að vera þar sem maður er. Verður að búa sér til annan stað.
Það er orðið áliðið dags og búmannsklukkan á veggnum tifar og slær. Þær halda áfram að fílósófera um listina og ritstörfin á meðan þær klæða sig í yfirhafnirnar og búa sig undir að fara aftur út í kuldann. Þær hlæja og kveðjast með innileik. Bráðum verða þær aftur sestar fyrir framan autt blað.
Hér má sjá lista yfir skáldverk Fríðu. Einnig þýddi hún nokkrar bækur, m.a. Í góðu hjónabandi eftir Doris Lessing. Fríða var systir Jakobínu Sigurðardóttur.

- 2006 Í húsi Júlíu
- 2000 Sumarblús
- 1998 Maríuglugginn
- 1994 Í luktum heimi
- 1990 Meðan nóttin líður
- 1986 Eins og hafið
- 1984 Hugleiðingar um stöðnun
- 1984 Við gluggann
- 1981 Sólin og skugginn
- 1980 Þetta er ekkert alvarlegt
Soffía Auður skrifaði gagnmerka yfirlitsgrein (2001) um verk Fríðu, „Brölt manneskjunnar í veröldinni.“



