SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir20. janúar 2026

RÆÐA GUÐRÚNAR HANNESDÓTTUR

Ræða Guðrúnar Hannesdóttur sem hún hélt er hún tók á móti viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins:

 

Ágæta samkoma ! Ég vil þakka af hjartans grunni fyrir þessa viðurkenningu og þann heiður að fá að vera með ykkur í dag.

Eins og segir í góðri bók þá verður augað aldrei mett af að sjá né eyrað mett af að heyra  -  og ekki skortir okkur Íslendinga hæfileikafólk á öllum sviðum því til sönnunnar. Og helsta akkeri og dýrmætasti vettvangur miðlunar á verkum þeirra er og hefur lengi verið Ríkisútvarpið. Það get ég vottað sem tryggur hlustandi frá blautu barnsbeini eins og sagt er.

Í stað þess að fara að rekja samleið okkar Ríkisútvarpsins langar mig að draga ykkur að gamni örsnöggt með mér enn lengra aftur í tímann og spá í það ótrúlega langa kyrrstöðutímabil og samfellu sem ríkti á sviði menningarmiðlunar í landinu -í um það bil níu aldir eða svo! –Langar sem sé að nefna til sögunnar þátt hinnar lífseigu sagnaskemmtunar eða kvöldvöku í lífi þjóðarinnar.

Hún var snar þáttur í þjóðlífinu allt frá tólftu öld til okkar tíma og er eitt sérstæðasta fyrirbæri íslenskrar menningarsögu. Og einstök meðal þjóða.

Kvöldvakan var furðulegt afkvæmi neikvæðra þátta, óblíðrar veðráttu, vinnuhörku, þrengsla, og ljósleysis. Úr þessum atriðum varð til nokkurs konar viðvarandi menningardagskrá -eða daglegur leikþáttur fyrir einn upplesara, eina ljóstýru, óskipta athygli, samræður og umhugsun viðstaddra.

Kvöldvakan var líka svar við ákalli hins hungraða eyra sem áður var nefnt. Þörfin fyrir skemmtun og fræðslu, sögur og kvæði, kallaði á meiri söguskrif og kveðskap og úr þeirri víxlverkun varð til hin víðfræga sagnaritun Íslendinga eins og Hermann Pálsson hefur bent á.

Og vegna áheyrendanna, segir Hermann - og vitnar í sagnaskemmtunina, voru Íslendingasögurnar skrifaðar á mannvænu, nákvæmu og samræmdu máli. Þannig leiddi eitt af öðru. Menn skrifuðu, söfnuðu og fengu lánað allt sem kló á festi og það öldum saman.

Til viðbótar varð lestur úr biblíunni og sálmasöngur að traustum trúarlegum grunni og mun ekki hafa veitt af því.

Ég nefni þetta því mér er nær að halda að þetta fyrirbæri kvöldvakan hafi átt sinn þátt í seiglu, menningarforvitni og skrifáráttu landans fram á okkar dag.

Það er ekki svo fjarri lagi sem umhugsunarefni, því það liggur við að megi segja að kvöldvakan hafi tórt í sveitum landsins allt fram að stofnun útvarpsins árið 1930 og að dagskrá útvarpsins hafi síðan bergmálað marga helstu þætti hennar.

Það verður seint sagt um okkur nútímaíslendinga að við lifum í kyrrstöðuþjóðfélagi og því síður við kröpp kjör, þó enn geti viðrað illa og stundum liggi illa á fólki. Þó hinir níu áratugir Ríkisútvarpsins hafi þotið hjá hraðar en aldirnar níu, höfum við einnig þann tíma búið við nokkuð „heildstæða menningardagskrá“, og breytingar á henni til skamms tíma verið smávægilegar.

Á langri sögu útvarpsins hafa eðlilega orðið dagskrársveiflur, sumum nokkuð þungbærar eins og kerlingunni sem sagði : „Á nú að taka frá manni einu ánægjuna í lífinu?“ þegar hætt var að útvarpa jarðarförum. En yfirbragðið er annað, léttar skríkjur og jafnvel hlátrasköll leyfileg í dagskránni, nokkuð sem var óhugsandi á minni tíð.

Það ber að þakka svo margt. Fjölbreyttari dagskrárgerð og fjörugan ljóslifandi tónlistarflutning. Nærfærna þætti um kjör og aðstæður nútímafólks-sem vitna um nauðsyn hugrekkis og yfirvegunar - rétt eins og frásagnir Íslendingasagnanna af fjölmörgum konum og körlum í hörðum heimi drógu fram forðum.

Hefðbundin hátíðarávörp forseta og fyrirmanna eins og útvarpsstjóra ramma inn og skerpa sýn á tilveruna nú sem fyrr.

Ég segi nú samt fyrir mína hönd að líklega hefði innblásturinn orðið annar ef kona hefði einhvern tíma gegnt starfi útvarpsstjóra. En þess verður varla langt að bíða.

Ég vona að ríkisútvarpinu auðnist að auka lífsfögnuð  og þrótt manna og viðhalda honum í allra þágu sem fyrr. Oft var þörf.

Ég þakka aftur innilega fyrir mig.

 

Hér má svo nálgast viðtal Melkorku Ólafsdóttur við Guðrúnu af þessu tilefni. 

Myndin af Guðrúnu er fengin af vef RÚV

Tengt efni