SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir14. desember 2022

KÆRLEIKURINN ÞVERAR TÍMA OG RÚM

Eyrún Ósk Jónsdóttir. Stórsæ stjarnfræðileg fyrirbæri - og önnur málefni hjartans. Reykjavík: Bjartur 2022, 106 bls.

Við komumst ekki hjá því
að einn daginn vöknum við öll
við að veröld okkar hrynur
heimur okkar splundrast  (46)

 

Þessar ljóðlínur er að finna í nýrri ljóðabók Eyrúnar Óskar Jónsdóttur sem ber óvenjulegan og skemmtilegan titil: Stórsæ stjarnfræðileg fyrirbæri - og önnur málefni hjartans. Í bókinni yrkir Eyrún Ósk um slíkt veraldarhrun og splundrum heima í lífi einstaklingsins og tengir á frumlegan hátt við fyrirbæri á himnum.

Eins og fyrri ljóðabækur Eyrúnar Óskar er nýja bókin þykk og efnismikil, hún skiptist í þrjá hluta sem bera yfirskriftirnar Tími, m og Kærleikur.

Í fyrsta hlutanum yrkir Eyrún Ósk um föðurmissi og tekst vel að tjá djúpa sorg og söknuð. Þetta persónulega veraldarhrun er tjáð í gegnum ljúfar minningar og fléttað saman við stjarnfræðileg fyrirbæri á snjallan hátt:

 

Nú keyri ég framhjá götunni
þar sem æskuheimili mitt stendur
þar sem við bjuggum lengst af
 
heyri tifandi óminn frá
Litla birni og Karlsvagninum
á brakandi köldum næturhimninum
 
og ég skil ekki
að ég geti ekki bara
beygt upp götuna
lagt fyrir utan húsið
stokkið upp tröppurnar
og hrópað „hæ pabbi“
 
því sömu stjörnur skína á himni
[...]                                             (10)
 
 
Fráfall föðurins gefur ljóðmælanda tilefni til að minnast annarra sem gengnir eru og frábært er ljóðið sem lýsir því hvernig skáldið hugsar sér hið fullkomna augnblik þar sem hún væri stödd í tíma og rúmi með þeim sem hún elskar. En þetta augnablik er ekki til, en má þó höndla í ljóði:
 
 
Ef aðeins ég gæti
ferðast aftur í tímann
fundið hið fullkomna augnablik
 
faðmað þig að mér
og afa og ömmu úr Vogunum líka
 
en ekki of langt
 
ekki áður en barnið fæddist 
ekki áður en ég hitti ástina mína
 
finna augnablikið
þegar flestir þeirra 
sem ég elska
eru staddir á sama tímapunktinum
 
en meira að segja í draumum mínum
þar sem tímaferðalög eru möguleg
er hið fullkomna augnablik ekki til 
 
Þeir sem ég elska 
voru aldrei staddir
á sama tímapunktinum
 
langamma með mjúka faðminn
langafar mínir tveir, annar svo blíðlyndur
hinn örlítið sérlundaður en skemmtilegur
amma og afi úr Grindavík sem lifðu ævintýralegu lífi
bjuggu hálft árið í Afríku
og sögðu sögur við hvert tækifæri
hláturmild vinkona mín
sem féll frá langt fyrir aldur fram
 
öll horfin á braut
áður en sonur minn fæddist
áður en litlar frænkur komu í heiminn
 
meira að segja mínir villtustu draumar
lúta lögmálum tímans  (27-28)
 
 

Í öðrum hluta ljóðabókarinnar Rúm er meðal annars ort um endalok ástarsambands og ljóðmælandinn undrast hina miklu hitasveiflu sem getur orðið í slíku sambandi og tengir við plánetuna Merkúríus:

 
Hitasveifla
dags og nætur
á Merkúríus
er um 570 gráður
 
sólarmegin er hitinn óbærilegur
skuggamegin fimbulkuldi
 
hvernig má það vera
að sömu augu
og horfðu á mig
með slíkri ást og blíðu
og brunnu af löngun
stara nú í gegnum mig
héluð og köld
harkan áþreifanleg (50)
 
 
Í öðru ljóði minnist ljóðmælandi þess að Merkúr er guð þjófa:
 
 
stal hjarta mínu
tók í hönd mína
bauð mér í ferðalag
til stjarnanna
 
en svo stal hann fleiru
tímanum
sjálfsörygginu
sjálfinu
 
bað konu blíðlega um að lækka í sér
og vera minna hún sjálf [...]  (49)
 
 
Eyrún Ósk leikur sér listilega að því að vefa umbrot í ástarsambandi saman við stjörnur og önnur fyrirbæri á himni, hún  skynjar „Teikn á himni // eitthvað órætt í uppsiglingu // leifturblik / ljósrák sem æðir áfram / yfir augnhimnuna // halastjarnan hverfur við augasteininn // ég held niðri í mér andanum / bíð í ofvæni / eftir hinu óhjákvæmilega“ (55). Ljóðmælandinn uppgötvar að hún hefur „fylgt sporbaug einhvers annars“ (56) og skyndilega sér hún allt í nýju ljósi:
 
Tunglsýki: þegar kona geggjst undir fullu tungli
 
ærð af tunglskini
sér skyndilega
það sem var
beint fyrir framan hana
allan tímann
 
tilfinningakulda
virðingarleysi
fýlustjórnun  [...]  (59)
 
Í þriðja hluta bókarinnar, Kærleikur, minnir ljóðmælandinn okkur á að „kærleikurinn þverar / tíma og rúm“ (85) og þennan hluta má lesa sem óð til ástarsambanda í öllum sínum hversdagsleika: „þessi djúpa / altæka ást / sem ólgar og brennur // og býr í orðum eins og / góða nótt / hvernig svafstu? / hvað eigum við að hafa í matinn ástin mín?“ (91). Og skemmtileg er þessi ástarjátning:
 
 
Það er enginn
sem ég myndi frekar vilja
vera í sóttkví með
en þú
 
ég elska þig
á fordæmalausan hátt  (92)
 
 
Ljóðmælandi hefur fundið ástina á ný, jafnvel sjálfan draumaprinsinn þótt hann sé hvorki á hvítum hesti né í björgunarleiðangri:
 
Þú ert draumaprinsinn
á hvítu Toyotunni
nema þú ert ekki kominn
til að bjarga mér
þú ert kominn til að berjast við hlið mér
í þér hef ég fundið jafningja,
hversu dýrmætt!  (97)
 
Í Stórsæum stjarnfræðilegum fyrirbærum - og öðrum málefnum hjartans má skynja sterkan kærleiksboðskap, líkt og í fleiri bókum Eyrúnar Óskar. Einnig er heildarhyggja áberandi, við erum hluti náttúrunnar og hringrás hennar er óendanleg: „eitthvað er / úr því fæðist annað / það lifir, það deyr / verður að engu / úr öskunni rís eitthvað nýtt" (45). Þessi hugsun kemur víða fram í bókinni og líf mannsins er í sífellu mátað við fyrirbæri himingeimsins: „sólkerfi fæðist / það lifir / það deyr / tvístrast / endurraðast" (45) Eins og áður sagði er þetta efnisrík ljóðabók sem hægt er að lesa aftur og aftur og það gildir um allar ljóðabækur Eyrúnar Óskar sem þaulhugsar byggingu hverrar bókar og grundvallar hverja þeirra á ákveðinni hugmynd sem hún spinnur svo ljóðin í kringum.
 
 
 
 

 

Tengt efni