MANNESKJA VILDI ÉG EKKI VERA
Steinunn Sigurðardóttir. Að ljóði muntu verða. Reykjavík: Bjartur 2018
Af ljóði munt þú verða kemur á óvart. Í þessari tíundu ljóðabók Steinunnar Sigurðardóttur kveður við nýjan tón; persónulegri, sárari og jafnvel hvassari en áður. Tökum til dæmis ljóðið „Tjútt“:
Við erum ekki verkamenn í víngarði drottins
við erum skemmdarverkamenn
eins og á veslings víngarðinum má sjá.Við erum ekki góðverkamenn í lífi og dauða
við erum ósjálfráðir spillikettir.Með óvart aðferðum læðum við eitri í taugakerfi viðkvæmra
svo úr verður lömun.Með óvart aðferðum gerum við börnin okkar að
skaðræðisgrip eða aumingja
og vorkennum sjálfum okkur fyrir vikið.Við erum ekki góðar manneskjur sem kallað er og göfugar
því síður
en þar erum við þó í góðum félagsskap.Og áður en var kemur Gvendur stormandi með nikkuna.
Alltaf má tjútta við sína líka, í aflóga víngarðinum.
Steinunn hefur oft áður ort um misnotkun og eyðileggingu á náttúrunni en sjaldan með eins hvössum tóni og hér þar sem hún kjarnar vandann og bendir á hættulegt andvaraleysið. Með því að tengja umgengni okkar við móður jörð – „aflóga víngarðinn“ – síðan við kærulaust barnauppeldi dýpkar hún en hrollvekjuna. Tjúttið í lokin hlýtur að vekja hugrenningartengsl við hrunadans.
Þótt ég ítreki „nýjan tón“ er ekki þar með sagt að lesendur Steinunnar hafi ekki skynjað sáran persónulegan tón áður í ljóðum hennar, minna má á „Óstöðvandi gufuskipið Sorg“ sem kom siglandi til ljóðmælanda í síðustu bók Af ljóði ertu kominn (2016). En hér virðist þó hafa skerpst enn frekar á tilfinningu persónulegs sársauka og sorgar, sem og uggs fyrir eyðileggingju náttúrunnar og framtíð jarðar. Á undan hinum sex hlutum sem bókin er samsett af er tónninn sleginn: „Syngdu mér Golan, sætlega, sætlega um Skuggann,“ og ljóðveran spyr hver sé Skugginn hennar: „Er það Ástin mín, hún sem einu sinni var [...] / Er það Barnið mitt horfna? [...] / Er það Sorgin mín, fylgikonan fáráða? / Eða Elskhuginn athyglissjúki, tíminn?“
Manneskja vildi ég ekki vera
„Upp upp mín sál og allt mitt geð“ orti Hallgrímur Pétursson í upphafi fyrsta passíusálms og Steinunn vekur upp grun um persónulega píslarsögu í fyrsta hluta ljóðabókarinnar sem ber yfirskriftina: „Upp upp mín uppgjöf.“ Þessi hluti hefst á mögnuðum ljóðabálki um vandræðin við að vera manneskja, hvort sem það er nýfædda barnið „ókarað / þrumu lostið í móðurkviðshnipri“ eða gamall maður: „Brauðfættur voteygur skræks við einmennings ófögnuð“. Það er vandræðalegt að vera kona, vera karl, vera móðir, vera ekki móðir, vera faðir eða barn sem þegir og þjáist. Niðurstaðan er þessi:
Manneskja vildi ég ekki vera. Flissandi í laumi frá vöggu
til grafar.Verður að hafa það.
Þessi hluti bókarinnar samanstendur af fjórum mögnuðum ljóðum sem lýsa yfirvofandi dauða, höfnun, sorg og uppgjöf. Sorgin er varanlegur „Meðleigjandi“ sem hefur takmarkalaust úthald og er „furðulega uppáþrengjandi“. Höfnunin er af ýmiss konar tagi en verst er sú sem mun „stíga truntuleg yfir þröskuldinn // og sparka þér úr bælinu // út yfir brúnina á snarhöllum heiminum.“
Í lokaljóði hlutans er ort um það sem á dauðann vísan – sem er allt – gróðurinn, kettirnir, vinirnir – „og enginn kemur í vinarins stað“. Deyjandi náttúra kemur aftur við sögu, enda málefni sem hefur legið (og liggur enn) þungt á þessum höfundi:
Deyr jökullinn sjálfur
fyrir augunum á mérog ekkert kemur í hans stað
hvíta birtan alveg úr heiminum horfin.
Höktandi upprisa
Annar hluti bókarinn ber yfirskriftina „Upp upp mín upprisa“ og lesandi varpar öndinni léttar eftir högg fyrsta hlutans en upprisan er þó ekki það fagnaðarefni sem búast mætti við því þótt Skálafell rísi enn „upp úr Hellisheiði“ og „krókus / upp úr vetrarmold“ þá mætum við langþreyttri manneskju sem „stingur við og höktir upp á hæðina „við sauðtryggan birkistaf, hvað sem það kostar“. Ljóðmælandi reynir þó að hughreysta lesandann með því að flestar „helvískar“ áhyggjurnar séu „tilefnislausar [...] vegna þess að ÁhyggjuEfnið rætist ekki“. Áðurnefnt „Tjútt“ er það síðasta af sjö ljóðum þessa hluta.
og ófarir
Í þriðja hluta er ort um ýmis konar „Farir“, helst þó „Ófarir“ eins og er titill fyrsta ljóðsins:
Eftir Kvíðboganum í april
hlykkjast skröltormurinn Ófarir.Í júní
Kvíðboginn hækkandi fer.Lengjast Ófarir.
Ljóð þessa hluta bera titlana „Ófarir“, „Regnfarir eitt“, „Regnfarir tvö“ og „Sjófarir“ og í því síðastnefnda er minnst á barn sem ljóðveran hefur dvalið með á strönd þar sem þau höfðu „unað og leikið / og svamlað og sungið“. En ljóðveran „steytti á skörðóttri dagsbrún“ og hennar leka fley „nær engri eyju / ekki skeri, ekki flæðiskeri“.
Söknuður eftir barni birtist víðar í bókinni, það virðist týnt að eilífu eins og lýst er í ljóðinu „Heiðmerkur sólbað“:
Í sólbaði með blessaða barninu
á mosadyngju í hraunbolla
elskaða sól
elskaða barnundir stóru sólinni.
hvað varð af barninu?
hvað varð af sólinni stóru og litlu?
hvað varð af mér undir einni og sömu sól?
Segðu sögu mína
Ofan nefnt ljóð er úr þriðja hluta sem hefur yfirskriftina „Skáld konur í sólinni“ og þar hugsar ljóðmælandi í einu ljóðanna til sænsku skáldkonunnar Edith Södergran og í öðru til kanadísku skáldkonunnar Gabrielle Roy. Síðasta ljóð þessa hluta „Ein kona í garðinum“ (hugsað til Gabrielle Roy. Garðurinn á heimsenda)“ er áhrifrík lýsing á konu sem bograr í blómabeði þar sem blómstra „sverðliljur eldliljur [...] litir úr regnbogum. Uppúr / rykgráum óendanleika jarðarinnar / undir stórkarlalegum himni þar sem skýjaflöktið myndar / hverfult skjól / fyrir brothættu litina í garðinum.“ Svo virðist sem þessi kona eigi erindi við ljóðmælanda:
[...]
Að þú munir verða við ósk sem er okkar allra:
Segðu sögu mína.
Ég, líka ég, er til. Hef verið
Freistandi er að tengja þetta ljóð við kvenlega skáldskaparhefð þar sem marglitar plöntur berjast við að blómstra („undir stórkarlalegum himni“) og þörfina á að segja (líka) sögur kvenna.
Litbrigði hversdagsins
Í fimmta og næstsíðasta hluta bókarinnar, sem hefur yfirskriftina „Hvers dags ljóð“, verður tónninn kunnuglegri og við erum minnt á hversu léttleikandi og sprúðlandi ljóð Steinunnar geta verið. Enda ber eitt ljóðanna titilinn „Létti leikurinn“ þar sem ort er um morgunkaffið sem er „lukkað“, tannþráðarburstun sem er „snurðulaus“ og „Talsvert flæði í ræðu og riti“. Lesandi kannast við „gömlu“ Steinunni í ljóðinu „Sól með sínu lagi“:
Sólin er yfrið skraulegur skrauthnöttur
og buslukolla.Uppúr haffletinum stígur hún sína himnesku leið
snögg upp á lagiðhristir sig eins og hver annar hundblautur hundur mundi gera
á jörðinni.Svo fæðist hún hvern morgun, blaut og blaut bak við eyrum,
er a þorna fram yfir hádegin.
Hangir svo bara og geispar yfir okkur –
yfir jarðarbörnum borgrandi á akrinum. Yfir hnussandi hundana.
Síðdegis fær þessi eldgamla skrautbusla nóg af hangsi
og gengur í barndóminnpuðrandi lágt lætur hún laufléttar öldurnar vagga sér í háttastað
úr því sem sýnis vera skínandi annríki dagsins.
En sársaukinn er þó enn til staðar og ljóðið „Dok“ er tilbrigði við þemað að tíminn græði öll sár:
Ef þú dokar nógu lengi
kemur sólin aftur inn í herbergið, inn um norðurgluggann
núna.Ef þú elskar nógu lengi
kemur ástin þín, eina og tvenna, til þín, þriðja sinni.Ef þú grætur nógu lengi
fyrnist harmur.Ef þú lifir nógu lengi
kemur smáskurn á opna sárið.Ef þú manst nógu lengi og vel
kemur snjódrífa að þekja myrkrið á minningajörð.
Hlutskipti mannsins
Steinunn Sigurðardóttir er margverðlaunað skáld. Hún hefur meðal annars hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin, Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar og Viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Það þarf því varla að hafa mörg orð um gæði skáldskapar Steinunnar Sigurðardóttur. Í síðustu þremur ljóðabókum sínum, Ástarljóð af landi (2007), Af ljóði ertu komin (2016) og Að ljóði munt þú verða (2018) hefur hún þó náð að rista dýpra en oft áður og það eru forréttindi að eiga slíkt skáld sem af örlæti gefur svo mikið af sjálfri sér og opnar okkur nýja sýn á hið vandræðalega og sára hlutskipti mannsins á viðsjárlegum tímum.
(Ábending til útgefanda: Á ritaskrá á upplýsingasíðu tveggja síðustu ljóðabóka Steinunnar er villa, Hugástir kom út 1999 en ekki 2004).