BARA HEPPIÐ FÓLK HELDUR AÐ ÞAÐ SÉ TIL FRJÁLS VILJI - Um Tól
Knýjandi umfjöllunarefni margra skáldsagnahöfunda um þessar mundir eru leit að ást og lífsfyllingu, glíman við fíkn sem á endanum leiðir til geðveiki eða dauða, og tengslaleysi eða firring í merkingunni að vera ótengdur/fjarri sjálfum sér, öðru fólki, td foreldrum og eigin afkvæmum og samfélaginu. Nýleg skáldverk um þetta eru td Lungu sem hreppti bókmenntaverðlaunin 2022, Breytt ástand, Kákasusgerillinn og Tól.
Fólk er margslungið
Tól er níunda bókin sem Kristín Eiríksdóttir sendir frá sér (með glæsilegri bókarkápu!) og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og íslensku bókmenntaverðlaunanna 2022.
Kristín hefur fantagóð tök á skáldskaparlistinni, leikur sér. að frásagnarhætti og sögumannsrödd svo unun er að sjá og njóta. Óáreiðanleiki og andhetjur eru meðal hennar sérgreina, hún fæst við spurningar um sannleika og lygi, lýsir sársaukanum mikla sem þjakar svo marga, mistökunum og molnaðri sjálfsmyndinni af djúpu innsæi. Hún skapar samkennd með persónum og dregur upp áhrifamiklar myndir af ofbeldi í ástarsamböndum og fjölskyldum.
Umgjörð sögunnar út í gegn er sviðsett samtal, þegar kvikmyndagerðarkonan Villa Dúadóttir situr fyrir svörum aðgangsharðs spyrils eftir frumsýningu bíómyndar sinnar. Myndin fjallar um hinn ógæfusama Dimitri sem var kunningi hennar í gamla daga en fetaði grýtta braut glæpa og vímuefna. Inn á milli er upprifjun á bernsku Villu (og fleiri), sambandi hennar við „fyrrv.“ og flóknum tengslum hennar við foreldra og son. Samband /skilnaður foreldra hennar er í bakgrunni og skýrist smátt og smátt í heildarmynd sem varpar ljósi á marga breyskleika Villu. Hún er fíkill, án stefnu eða fyrirheits og tekur enga ábyrgð, hvorki á sjálfri sér, syni sínum né bíómyndinni sem hún leggur allt í án þess að stíga skrefið til fulls. Fólk er margslungið en fíknin lýsir sér alltaf eins, eins og Villa orðar það sjálf (140). Dimitri á aldrei neinn sjens.
Sláandi þögul nærvera
Spurningum er beint til hennar þar sem hún situr skjálfandi á beinunum á sviðinu. Hefur hún í raun heimild til að segja sögu Dimitris sem er látinn þegar myndin er frumsýnd, er hún að rómantísera hörmulegt lífshlaup hans sér til ávinnings? Draga allt fram um hann nema verstu skuggahliðarnar, meðan nærvera hennar sjálfrar í myndinni er sláandi þögul. Einnig er spurningu velt upp um hvað er sýnt í heimildamyndinni og hvað ekki. Villa er sjálf óáreiðanlegur sögumaður í myndinni um Dimitri og það má spyrja sig: er annað hægt? Hún er líka spurð um hvalveiðar þar sem hún situr fyrir svörum í fullum sal af áhorfendum en Dimitri var háseti á hvalveiðibát (viðkvæmum ráðið frá að lesa lýsingar á veiðiaðferðunum). Villa bregst við þessum spurningum af veikum mætti, hún er dofin og niðurbæld, tilfinningalaus og alltaf sannfærð um að hún sé einskis virði og ómöguleg.
Kannski var ég ekkert sérstaklega góð í að lesa í umhverfið. Eilífar ágiskanir mínar reyndust sjaldnast réttar og ef þær voru það brást ég samt vitlaust við. Stundum fannst mér ég gera fátt annað en að ritskoða rangar ákvarðanir eða orðaval í samskiptum eftir á, og þetta þreytti mig ósegjanlega. Alltaf annað slagið greip mig eins konar panikk, þar sem ég ákvað að reyna að segja og gera sem allra minnst, verða eins og grár steinn, hreyfingarlaus í óveðri, blautur og kaldur án þess að vita af því (47).
„Ætlarðu ekki að spyrja mig?“
Fleiri persónur koma til sögunnar og brot úr fortíð þeirra raðast einnig saman í heild. Áföll eða atburðir úr uppvexti sem hafa brennt sig inn í barnshugann koma upp á yfirborðið. Andvaraleysi, vanræksla og grimmd gagnvart börnum eru átakanleg í sögunni. Mömmur skilja ekkert og pabbar koma og fara, börn eru sett í pössun hér og þar, pabbahelgar falla niður, deilt er um forræði, börn finna til sektar vegna meiri ástar á öðru foreldrinu, Dimitri er stórlega vanræktur í uppvextinum og Villa virðist ekkert geta gefið syni sínum, er harkaleg við hann, finnur ekki til með honum þegar hann meiðir sig og yfirgefur hann. Í augum hans er flöktandi skelfing (272). Villa sjálf var oft svikin og afskipt sem barn. Hún reyndi allt til að fá athygli, drekka áfengi 12 ára gömul, brenna sig með logandi sígarettu og svelta sig. Þögnin er ærandi þegar hún rifjar upp heimsókn til skólahjúkrunarfræðingsins sem hreinsar sárin orðalaust: "Ætlarðu ekki að spyrja mig" var ég næstum búin að segja. Ætlar enginn að spyrja mig?" (303).
Tragík, uppljómanir og gullmolar
Mikilvæg pæling í skáldsögunni felst í því hvaða sögur eru sagðar og hvernig. Hver er tilgangurinn með senu sem sýnir Dimitrí kaupa ís handa vinkonum sínum með riddaralegumt tilburðum? Er það sönn mynd af honum? Og líka er pæling um hverra saga er sögð; Amalía og Fönn eru keimlíkar persónur sem eru eins og leikmunir í sögunni og speglast í andhetjunni Villu; fíklar sem eru öðrum háðar og hafa orðið fyrir ofbeldi og nauðgun og glímt við átröskun. Þegar þær segja sögu sína segir löggan: „Fullar hórur geta kennt sjálfum sér um“ (142). Og tragískar aukapersónur sitja í minninu að lestri loknum; t.d. Bára, kærasta barnsföður Villu, „ofsalega geðug manneskja...“ sem á snilldarútgöngumars í sögunni og móðir Dimitris sem dvaldi á hæli í Múrmansk.
Það eru uppljómanir og gullmolar á hverri blaðsíðu í Tóli/Tólum; tengingar, myndbrot og lýsingar sem sífellt ýta við lesanda og varpa skýrara ljósi á persónur og örlög þeirra og ekki síður á samfélag sem einkennist af ójöfnuði. „Bara heppið fólk heldur að það sé til frjáls vilji,“ sagði Dimitri. En eftir allt ofbeldið og dauðann, baslið og bölið, er von. Vonin er í ástinni.