SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir19. nóvember 2023

MEN. VORKVÖLD Í REYKJAVÍK eftir Sigrúnu Pálsdóttur

Sigrún Pálsdóttir: MEN. Vorkvöld í Reykjavík. JPV útgáfa 2023, 145 bls.

 

Eitt af aðalsmerkjum Sigrúnar Pálsdóttir sem skáldsagnahöfundar er hversu gott vald hún hefur á að skapa hraða, fjörlega og oft ívið háðska frásögn ásamt því að bjóða upp plott sem kemur lesanda sífellt á óvart. Annað má nefna og það er hvernig persónum Sigrúnar hættir til að koma sér í neyðarlegar aðstæður sem getur reynist flókið að losa sig úr aftur. Þessi einkenni eru öll til staðar í skáldsögunni MEN sem hefur undirtitilinn Vorkvöld í Reykjavík. Titilinn vísar í fangamark Mjallar Elínborgar Njálsdóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, sem leikur lykilhlutverk í sögunni, undirtitilinn vísar til atviks sem varð henni að falli.

Í fyrri skáldsögum Sigrúnar er hlutskipti kvenna í brennidepli og aðalpersónur frásagnanna eru konur. Í MEN víkur höfundur frá þessari venju. Þótt bókartitillinn vísi til konu, og ýmislegt sem varðar stöðu kvenna fléttist inn í frásögnina, þá er aðalpersónan karlmaður, flautuleikarinn Baldvin Einarsson, sem í sögubyrjun starfar sem menningarblaðamaður á hinu rótgróna Blaði og lætur sig dreyma um að marka: „Ný viðmið í menningarblaðamennsku á Íslandi“ (bls. 9). Ef til vill á sá draumur hans að benda lesanda á út blásna sjálfsmynd Baldvins sem kannski er ekki mikil innistæða fyrir þótt ljóst sé að hann sé afburða flautuleikari.

Í fyrstu hafði Baldvin verið tregur til að ráða sig til starfa hjá Blaðinu þar sem pólitískar skoðanir hans samræmdust ekki þeim sem blaðið talaði fyrir og: „Eitrað eignarhaldið og úldin ritstjórnarstefna setti hann í vanda“ (bls. 11). Hann hefur þó látið til leiðast vegna blankheita og væntanlegrar fjölgunar í fjölskyldunni. Baldvin dreymir um að komast að hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur reyndar einu sinni þreytt inntökupróf hjá sveitinni en féll á því prófi vegna ofmetnaðar þegar hann valdi að spila, „tónverk sem útheimtir tækni og lestur á nótnaskrift út fyrir mörk hins mögulega“ (bls. 26). Verkið hafði hann valið „til að marka sér sérstöðu meðal hinna umsækjendanna, sýna færni sína“ en „tónarnir létu ekki beinlínis vel í eyrum“ og dómnefndin valdi annan flautuleikara.

Í fyrsta kafla bókarinnar er eftirfarandi setning:

 

Baldvin gekk út í rakt og skuggalegt vorið. Hann fór hjá Stjórnarráðshúsinu, horfði þaðan í norður, á risastórt svart ský sem virtist stefna eins og helstirni í átt að nýju glæsibyggingunum niðri við höfnina“ (bls. 17).

 

Eins og mörgum kann að renna í grun má þarna sjá forboða ógnvænlegra atburða sem munu eiga sér stað á þessu sögusviði. Sú heljarreið á upphaf sitt í verkefni sem Baldvini er falið af ritstjóra Blaðsins og honum finnst vægast sagt óþægilegt og telur reyndar alls ekki vera á sínu sviði sem menningarblaðamanns. Fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, fyrrnefnd Mjöll Elínborg Njálsdóttir, kölluð Men, er að verða áttræð, blaðið ætlar að birta við hana veglegt viðtal og felur Baldvini nauðugum verkið.

Men á vafasama pólitíska fortíð og feril sem endaði með skandal og öldu mótmæla og undanfarna tvo áratugi hefur hún verið í felum. Men komst til metorða í flokknum á furðu skjótan hátt, án þess að ljóst væri hvað hún hefði til brunns að bera, en hún var hins vegar vel tengd inn í heim viðskipa og fjármála og vellauðug. Men hafði verið hægri hönd eiginmanns síns, svo vitnað sé beint í söguna: „í umfangsmiklum og afar farsælum viðskiptum sem uxu og blómguðust uppi á heiði og úti á nesjum, í takt við vaxandi spennu austurs og vestur“ (bls. 28). Fjölskyldan auðgast einnig á gróðavænlegum kaupum á ríkiseignum og hefur í gegnum auðmagn sitt sterk ítök í flokknum. Í Men hefur flokkurinn „fundið sína næstu konu. Enda ekki vanþörf á þegar þær streymdu nú allar inn á þing undir eigin merkjum og annarra flokka“, eins og segir á bls. 29. Á yngri árum hafði Men átt sé þann draum að leggja fyrir sig söng enda bjó hún yfir sterkri rödd sem var vissulega kostur þegar hún var komin í ræðustól á alþingi, eða eins og segir í bókinni:

 

Konan gat vissulega talað hátt og skýrt en var engu að síður týnd í pólitíkinni; heimur handan eigin reksturs og bókhalds var eitthvað sem hún hafi eiginlega aldrei leitt hugann að. Hún lét því hæfilega lítið fyrir sér fara enda ekki ætlast til annars af henni en að hún rétti upp hönd þegar það átti við.

En svo gerðist hið óvænta. Við skyndilegt fráfall utanríkisráðherra Íslands kom upp flókin staða sem endaði á því að þessi raddsterki en atkvæðalitli þingmaður var skipuð í embættið. Ákvörðunin kom flestum í opna skjöldu – ekki síst henni sjálfri – en auðvitað höfðu ýmsir á henni skýringar, og allar voru þær löðrandi í sögusögnum og samsæriskenningum um spillingu og jafnvel ólöglegt athæfi sem náðu hámarki þegar gjörðir þær sem að lokum urðu henni að falli höfðu verið afhjúpaðar. (bls. 29-30)

 

Baldvini er því nokkur vandi á höndum þegar hann fer til fundar við Men sem býr í stórri og íburðarmikilli útsýnisíbúð í einni af glæsibyggingunum niðri við Reykjavíkurhöfn og byrjar á að bjóða honum, sem ekki borðar kjöt, rúgbrauð með hráu nautakjöti, piparrót, kapers, söxuðum rauðbeðum og hrárri eggjarauðu og bjór. Sjálf á hún við áfengisvandamál að stríða og hefur átt lengi – enda átti áfengi sinn þátt í þeim skandal sem ýtti henni af sjónarsviðinu tveimur áratugum fyrr. Baldvin getur ekki fengið sig til að afþakka smurbrauðið sem Men hefur útbúið sjálf og er það einn hlekkurinn í þeirri keðju vandræða sem hann er lentur í á fundi þeirra tveggja og leiðir hann í miklar og lífshættulegar aðstæður sem ekki verða útskýrðar nánar hér svo ekki verði spillt þeirri spennu sem lesandinn á í vændum.

Frásagnarháttur Sigrúnar í MEN er margradda; sjónarhornið flakkar á milli ólíkra persóna en er ekki aðeins bundið við aðalpersónuna. Auk Baldvins sjálfs fær lesandinn sjónarhorn margra fleiri persóna, svo sem fólks úr fjölskyldu Baldvins, úr vinahópi hans, sjónarhorn vinkvenna móður hans, meðlima úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og fleiri sem við sögu koma. Í gegnum þessar ólíku raddir þéttist frásögnin og fjölbreytilegra ljósi er varpað á aðalleikendurnar á sögusviðinu; Baldvin og Men um leið og íronía höfundar nær flugi í lýsingum t.d. á hittingi vina Baldvins á öldurhúsi.

Skandallinn sem varð hinum fyrri utanríkisráðherra að falli tengist afdrifaríkri „ákvörðun hennar að leiða þjóð sína út í stríð“  og Baldvin uppgötvar að það voru „ekki fyrst og fremst viðskiptahagsmunir Mjallar Elínborgar eða áhyggjur af íslensku efnahagslífi, ef kæmi til brotthvarfs bandaríska hersins héðan af landi, sem á endanum réðu hinni afdrifaríku ákvörðun […] heldur varnarleysi hennar gagnvart þeirri hneisu sem hún gerði sér með breyskleika sínum og hegðun. Og þörfin fyrir að sefa þá skömm“, eins og segir á bls. 103. Í boði í sendiráði Íslands í Washington árið 2001 verður ráðherrann sér til skammar og koma bæði áfengi og einsöngur við sögu. Men hefur upp rödd sína og syngur fyrir bandaríska ráðamenn kvæði Sigurðar Þórarinssonar við lag Everts Taube, Vorkvöld í Reykjavík, og er eftir þá uppákomu í veikri stöðu við samningaborðið, eins og kemur í ljós fáum árum síðar. Baldvin verður margs vísari þegar hann kemst í dagbækur ráðherrans sem faldar eru í skúmaskoti í glæsiíbúð hennar.

 

Ljóst má vera að margt sem gerist í skáldsögu Sigrúnar Pálsdóttur hefur sterka skírskotun til sögulegra atburða sem ættu að vera Íslendingum í fersku minni en höfundur hefur líka endaskipti á ýmsu, svo sem því að skipta um kyn á ýmsum aðalleikurum í hinni raunverulegu atburðarás. En ekki ætla ég mér að fara lengra út í samanburð skáldskapar og veruleika að sinni enda hefur Sigrún valið sé tilvitnun í Stilkisberja-Finn eftir Mark Twain sem einkunnarorð skáldsögunnar, sem ég snara þannig: „Hver sá sem reynir að grafast fyrir um forsendur þessarar frásagnar verður sóttur til saka; hver sá sem reynir að finna í henni siðferðilegan boðskap verður útlægur gjör.“

 

Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á rás 1, 13. nóvember 2023.

 

Tengt efni