SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir27. desember 2023

DJ BAMBI eftir Auði Övu Ólafsdóttur

Auður Ava Ólafsdóttir. DJ Bambi. Benedikt 2023, 183 bls.

 

 
Ég bið ekki um mikið.
Einungis líkama sem líkist mér.
Það er allt og sumt. (9)

 

Þannig hljóða upphafsorð sögukonu í skáldsögunni DJ Bamba eftir Auði Övu Ólafsdóttur. „Ég bið ekki um mikið“ er setning við rekumst á oftar í bókinni, kannski mætti tala um lágstemmt leiðarstef. „Ég bið ekki um mikið. Ef ég mætti vakna sem kona og sofna sem sú kona sem ég er, í líkama sem ég er sátt við, þá hefði ég yfir litlu að kvarta“, segir hún hundrað blaðsíðum síðar (109). Þótt sögukona segist ekki biðja um mikið er bón hennar er síður en svo léttvæg því um lífið sjálft er að tefla. Þegar frásögnin hefst er hún að íhuga ganga í sjóinn. Þau örlög hennar að hafa fæðst í karlkyns líkama eru henni illbærileg og þótt hún sé, á þeim tíma sem frásögnin nær yfir, í „ferli“ til að leiðrétta þetta þá gengur það svo hægt, kerfið er svo tregt og seinvirkt, að sjálfsmorðið er freistandi útleið til að aflétta þunganum, sársaukanum og sorginni. En það er þó eitt sem kemur í veg fyrir að hún taki skrefið: 

 

Ég hef ákveðið að deyja ekki í dag.

Það eina sem kemur í veg fyrir að ég láti ölduna vagga mér í svefn er tilhugsunin um að það verði ekki kvenmannslíkami í kistunni. Ég ætla ekki að deyja fyrr en búið er að leiðrétta stærsta misskilning lífs míns, þau skelfilegu mistök Skaparans að láta mig fæðast sem dreng. (13-14)

 

Reyndar hefur reynst henni erfitt að finna hentugan stað til að ganga í sjóinn þar sem bestu fjörurnar hafa verið yfirteknar af sjósundsfólki, aðallega konum. Í fjörunni eru einnig máfar sem trufla ásetning hennar en þeim hefur „fjölgað mikið undanfarið, ekki aðeins við fjöruborðið heldur í hverfinu öllu“ (10).

Sú sem segir frá gegnir nokkrum nöfnum og má túlka það sem táknrænt fyrir að sjálfsmynd hennar er í mótun. Hún var skírð Vilhjálmur (en skrifar nafnið aldrei út, notar bara upphafsstafinn V.) en hefði hún fæðst í stelpulíkama átti að skíra hana Guðríði eftir ömmu sinni. Það er nafnið sem hún vill bera en stórfjölskyldan leggst gegn því og reyndar talar engin úr þeim hópi við hana lengur því þau hafa snúið við henni baki. Öll nema tvíburabróðir hennar, Trausti, sem ber nafn með rentu og styður hana þótt hann hafi ekki um það mörg orð og falleg er lýsingin á sambandi þeirra. Trausti kallar systur sína Bamba, en það nafn notaði hún þegar hún starfaði DJ eða plötusnúður á sínum yngri árum. Sjálf hefur hún tekið upp nafnið Logn, sem er „bráðabirgðanafn“ þar til „stórfjölskyldan gefur sig“ (27). Hún heldur upp á orðið logn í ýmsum samsetningum, eins og blankalogn og rjómalogn en segir líka:

 

Ég ákvað sömuleiðis að heita Logn af því tíminn nemur staðar í logni sem þýðir að það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að tækifæri og möguleikar séu ekki lengur til staðar, að það þokist stöðugt nær brúninni, nær merkingarleysinu, nær tóminu, að það styttist í eigin persónulegu heimsslit. (27)

 

Þótt ljóst sé að barnið sem nefnt var V. hafi allt frá barnæsku verið á skjön við það hlutverk sem því var úthlutað við fæðingu líða áratugir áður en Logn gengst við sannleikanum um sjálfa sig og hefur ferlið til að breyta sér í sig. Enda skilur barnið ekki hvað er á ferðinni, veit bara að því líður illa en veit ekki af hverju. Höfundur miðlar sársauka barnsins, unglingsins og síðar fullorðna kvænta mannsins á varfærinn hátt. Frásögnin er á yfirborðinu látlaus en undirtextinn djúpur. Logn segir sjaldnast sjálf frá áreitni og ofbeldi; fordómum samfélagsins er miðlað í gegnum aðra, eins og t.a.m. þegar systir hennar króar hana af í erfidrykkju móður þeirra:  „og hélt því fram að það væri mér að kenna að hún hefði ekki búið við öryggi í æsku, heldur verið ítrekað rifin upp með rótum. Af því að mamma hefði flutt og við verið látin skipta um skóla í hvert skipti sem einhver var vondur við mig af því að ég var öðruvísi, eins og hún komst að orði“ (23). Um skelfinguna sem fylgir umbreytingu unglingsáranna er Logn opinskárri: hún getur ekki samsamað sig bekkjarbræðrunum og þeirra háttalagi en „langaði til að tilheyra stelpunum […] sem fengu himneskan kvenmannslíkama með brjóst í fermingargjöf“ (56). Meðan hún bíður eftir að þær samþykki sig er hún „sátt við að vera kölluð stelpustrákur“ og að setið sé fyrir henni „á leið heim úr skóla“ (56).

En þrýstingur umhverfisins er of mikill svo hún tekur meðvitaða ákvörðun um að reyna að falla að því hlutverki sem samfélagið vill að hún gegni. „Ég átti mér leyndarmál sem ég gat ekki deilt með neinum, sem enginn mátti vita, ég þreifaði eftir kennileitum en fann engin, það voru engar fyrirmyndir sem ég gat horft til, bara furðufuglar, karlmenn í kvenmannsfötum sem gert var grín að“ (111).

Frábær er lýsingin á því þegar hún fer með hópi karlmanna í fótboltaferð til Manchester og undirbýr sig með því að læra allt um fótbolta frá grunni, eins og „að það væru ellefu í hvoru liði og íþróttin gengi út á að koma bolta í mark andstæðingsins“ (62). Hún lærir allt um enska boltann, líkt og fyrir próf: „Ég varð sérfræðingur í því að vera karlmaður. Eins og kona að leika karlmann í einu af leikritum Shakespeare. Mér tókst að sannfæra þá. Ég var einn af þeim“ (63).

Logn kemur ekki út sem trans fyrr en hún er 55 ára gömul og á sögutímanum er hún 61 árs. Þegar hún er spurð hvers vegna hún kom svo seint út svarar hún:

 

  Ég vildi ekki eyðileggja fjölskylduna.
  Held ég.
  Minnir mig.
  Ég var ekki viss.
  Ég átti mér draum.
  Það reyndist risavaxið verkefni.
  Svo ég frestaði því.
  Þegar maður eignast barn frestar maður hlutum.
  Þá er allt til bráðabirgða.
  Þá tekur kona einn dag í einu.
  Þá gerir maður ekki áform fyrir sjálfa sig.
  Þá tjaldar hún til einnar nætur í einu. (111)

 

Sú sem spyr Logn af hverju hún kom svona seint út sem trans er blaðakona og rithöfundur sem vill taka við hana viðtal, sem hún fullyrðir í byrjun að eigi ekki að fjalla um það að vera trans heldur um það hversu óvæginn tíminn geti verið í lífi hverrar manneskju. Þessi áætlun rithöfundarins breytist þó fljótlega, hún segir viðtalið ekki ná utan um það sem hún vill fá fram og hún vill fá að skrifa bók um Logn. Og enn fullyrðir hún að ekki eigi að fjalla um trans-málefni og segir reyndar beint: „Ef bókin væru um það að vera trans þyrftir þú að skrifa hana sjálf. Það þarf trans konu til að skrifa bók um trans konu. Helst þyrfti trans útgefanda og trans þýðanda. Einn í hverju landi“ (106). Það er alveg áreiðanlega engin tilviljun að rithöfundurinn í DJ Bamba ber nafnið Auður T. og má sjá sem sjálfvísun höfundar. Auður Ava dregur hér upp á yfirborðið umræðu sem bar mikið á til að mynda þegar skáldsaga Eiríks Arnar Norðdahls, Hans Blær, kom út og snerist um það hvort hvort við getum tjáð okkur um reynslu hóps sem við tilheyrum ekki sjálf. (Um þá umræðu hef ég skrifað ítarlega í ritdómi um Hans Blæ, sjá vef TMM: Tímanna tákn? – TMM Forlagið ). Auður T. er að sjálfsögðu ekki hreinskilin og Logn skilur ekki sjálf hvernig rithöfundurinn getur lokkað sig til að tala um hluti sem hún í raun vill ekki tala um. Einnig finnst henni sem Auður T. hlusti stundum ekki á sig, vilji allt eins tala um sjálfa sig og hafi kannski í raun meiri áhuga á líkamanum en tímanum. Umræðan um hver hafi leyfi til að tjá sig um málefni transfólks og hver ekki, virðist ekki hafa komið upp í sambandi við DJ Bamba – alla vega er slík umræða ekki áberandi í fjölmiðlum. Ástæðan kann að vera sú að Auður Ava Ólafsdóttir fer mjög vel með málefnið og transpersóna bókarinnar er mjög viðkunnanleg og á líklega auðvelt með að vekja samkennd lesandans – ólíkt hinum ýkta og ógeðfellda Hans Blævi í skáldverki Eiríks Arnar.

Hér í upphafi nefndi ég máfagerið sem er stöðugt á sveimi í frásögninni. Ef orð sögukonu um að hún „biðji ekki um mikið“ hljóma sem lágstemmt leiðarstef frásagnarinnar, má segja að máfagerið myndi andstæðuna, hávært og frekjulegt stef. Húsvörður blokkarinnar sem Logn býr í útskýrir fyrir henni „að máfum væri skipt í tvo hópa, litla máfa eins og hettumáf og stóra máfa eins og svartbak, hvítmáf og sílamáf og sagði að það væru fyrst og fremst sílamáfar og hettumáfar sem hefðu valdið íbúunum margs kyns ónæði með gargi sínu og stöðugum flugæfingum við blokkina […] Ef einhver reyndi að abbast upp á þá eða færi inn á það sem þeir teldu sitt yfirráðasvæði nytu þeir hópverndar, sem kom heim og saman við sögur af aukinni árásargirni þeirra (15). Máfarnir þrífast m.a. á úrgangi mannsins, útskýrir húsvörðurinn líka. Strax á þriðju síðu bókarinnar má lesa:

Svo virðist sem máfarnir séu að verða sífellt árásargjarnari og láti sér ekki lengur nægja ruslatunnur í leit að æti, heldur hiki ekki við að steypa sér niður og ráðast á fólk þegar það kemur heim með innkaupapoka úr kjörbúðinni í götunni sem selur allt með tuttugu prósent álagningu. Raunar má segja að Facebooksíða íbúa blokkarinnar sé undirlögð reynslusögum af ágengum máfum sem drita út um allt, eru með læti, auk þess sem garg þeirra truflar svefnfrið íbúa á nóttunni. Einn íbúanna líkti garginu við svangt ungabarn sem grætur annar við útburðarvæl. Það eru þó fleiri en íbúar nyrstu höfuðborgar í heimi sem eiga í stríði við fuglana því það er ekki langt síðan ég rakst á frétt á netinu um innrás þúsund máfa í Róm. Einn þeirra mun hafa ráðist á friðardúfu sem Frans páfi ætlaði að sleppa á Péturstorgi og náði að reita af henni stélfjaðrirnar svo henni fataðist flugið en komst á endanum löskuð undan. (11)

Það er varla langsótt túlkun að máfagerið sé táknmynd höfundar fyrir það bakslag sem við höfum orðið vitni að í baráttu hinsegin fólks fyrir tilverurétt sínum, þar sem þeir sem harðast ganga fram iðka sitt garg á samfélagsmiðlum. Það garg er sífellt að vera háværara í kaþólskum löndum í Evrópu og líklega engin tilviljun að Auður talar um árás á friðardúfuna á Péturstorgi. Og sjálf segir Logn að á leiði sínu alveg standa hvít marmaradúfa (28).

 

Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á rá 1, 19. desember 2023

Tengt efni