SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir21. nóvember 2024

ÁSTIN OG EFINN

Kristín Marja Baldursdóttir, Ég færi þér fjöll, Bjartur 2024, 219 bls.

 

Upphafssvið nýju skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur er biðsalur á flugvelli. Þar hittir lesandinn fyrir spænskan karlmann sem er á leið til Íslands og íslenska konu sem er á leið til Spánar. Þau Manuel og Sigyn eru bæði um fertugt og eftir því sem frásögninni vindur fram kemur í ljós að bæði hafa þau undanfarna tvo áratugi dvalið í nokkurs konar biðsal lífsins, verið óhamingjusöm og lifað ófullnægðu lífi en standa nú á ákveðnum tímamótum. Á flugvellinum liggja leiðir þeirra saman, án þess þó að þau átti sig á því. Hún gengur „hratt fram hjá veitingastaðnum […] þar sem hann hafði tyllt sér niður með kaffibolla. Hann hafði reyndar séð aftan á hana, bara séð ljóst taglið brot úr sekúndu, en það var eitthvað við hana, kannski göngulagið, sem sat í honum“ (7). Í huga hennar birtist aðeins síðar „mynd af útlínum manns sem hafði setið á veitingahúsi sem hún gekk framhjá fyrir stundu, hún hafði ekki séð framan í hann […] en það var eitthvað kunnuglegt við hann“ (8).

Áður en langt líður á frásögnina kemur í ljós að þau Manuel og Sigyn þekkjast en hafa ekki sést í um það bil tvo áratugi. Þau höfðu kynnst ung á Spáni, átt í ástarsambandi og ætlað sér framtíð saman. Fyrir misskilning og afskiptasemi annarra verður ekkert úr þeim fyrirætlunum og hin hamingjusama framtíð sem þau sáu fyrir sér rennur þeim úr greipum. Þessi hnútur á söguþræðinum gæti verið beint upp úr hvaða rauðu ástarsögu sem er og reyndar er framhaldið þannig á köflum að lesandinn veltir því fyrir sér hvort Kristín Marja sé dottin ofan í einfalda ástarsöguklisju. Svo er þó ekki, enda varla við því að búast frá þessum höfundi. Þó hér sé sögð saga af elskendum sem ná ekki saman vegna misskilnings og illviljaðan atbeina annarra þá nær höfundur að snúa nægilega upp á slíkan ástarsöguþráð til að gera frásögnina áhugaverða.

Eins og lýst var áðan þá dregur höfundur upp hliðstæðu í fyrsta kafla bókarinnar, þegar aðalpersónurnar farast á mis á flugvellinum, en það stílbragð verður svo ráðandi í næstu köflum bókarinnar í samspili við andstæður og er afar hugvitssamlega gert. Bæði eru þau Manuel og Sigyn á leið í airbnb-íbúð sem þau hafa tekið á leigu í stuttan tíma, hann í Reykjavík, hún í Valencia, en markmið þeirra eru ólík. Sigyn hyggst finna sér vinnu og læra spænsku, reyna að gera eitthvað úr lífi sínu eftir misheppnaðar sambúðir og lítinn árangur á öðrum sviðum. Hún er tiltölulega nýsloppin úr ofbeldissambandi en stendur uppi slypp og snauð og þungt er yfir henni. Manuel á hins vegar glæstan feril að baki sem fjárfestir þótt honum hafi einnig orðið illa á í messunni á þeim vettvangi. Og ekki hefur honum vegnað vel í einkalífinu fremur en Sigyn. Hann hefur reyndar gefist alveg upp, glímir við djúpt þunglyndi og sér ekki að hann geti átt sér framtíð. Ísland er í hans huga endastöð, þar ætlar hann að deyja.

Andstæðurnar sem dregnar eru upp í fyrsta hluta bókarinnar varða að mestu leyti landslag og veðurfar á Íslandi og á Spáni. Það er vetur og á Íslandi er snjór og ófærð sem veldur ýmsum vandkvæðum í fyrirætlunum Manuels en á Spáni er milt veður, sól og blíða þótt kalt sé í húsum um nætur. Sjónarhorn frásagnarinnar færist til skiptis á milli landanna og um leið á milli aðalpersónanna tveggja.

Skemmtilegt dæmi um hugvitssemi Kristínar Marju þegar hún leikur sér með andstæður og hliðstæður eru lýsingar á því þegar Manuel gengur upp á brattan hamar við lítið þorp úti á landi og leggst þar niður í mjúkan snjó í laut þar sem hann hyggst sofna svefninum langa. Sigyn fer hins vegar á tónleika í glæsilegri byggingu sem reynist vera hæsta ópera heims, það er að segja byggingin sjálf sem er fjórtán hæðir. Sigyn er haldin bæði innilokunarkennd og lofthræðslu og líður hroðalega inni í óperunni, fannst „sem hún sæti á háum hamri og gæti hvenær sem er hrapað niður“ (62). Bæði komast þau reyndar lifandi niður af sínum hömrum, Manuel vegna truflunar frá ferðamönnum sem eru í skoðunarferð með leiðsögumanni sem lýsir hamrabeltinu fyrir þeim sem álfahöll, sem gæti allt eins verið lýsing á hinu glæsilega óperuhúsi sem Sigyn heimsækir.

En hliðstæðurnar birtast líka í persónugalleríi sögunnar. Fjölskyldur þeirra beggja koma við sögu, Manuel kynnist fólki Sigynjar og hún foreldrum hans og systur. Þar á meðal eru margir skrautlegir karakterar. Smám saman kemur í ljós að framvinda mála hjá þeim Sigyn og Manuel ræðst ekki aðeins af helberum tilviljunum en ekki verður farið nánar út í þær krókóttu slóðir söguþráðarins hér.

Að því kemur að Manuel og Sigyn hittast aftur og blásið er í gamlar glæður ástarinnar. Í ástarsögu af afþreyingartagi væri stutt í sögulokin þegar hér er komið, elskendurnir búnir að finna hvort annað aftur, gamlar og heitar tilfinningar hafa verið endurræstar og bara eftir að ákveða brúðkaupsdaginn og setja punkt aftan við frásögnina. En svo einföld sögulok væru hreint ekki í anda Kristínar Marju Baldursdóttur sem hnýtir alls konar flækjur á söguþráðinn í síðustu köflum bókarinnar. Þar takast þau Manuel og Sigyn á í orðum og gjörðum, þau elskast og þau efast. Reikningsdæmi framtíðarinnar er flókið og erfitt að fá útkomuna til að stemma, hugsar Manuel, sem er menntaður stærðfræðingur: „Erfiðara var fyrir heilann að kljást við flókin tilfinningadæmi, engar tölur, engin tákn til að skrifa niður og vinna með, allt ósýnilegt, tilfinningar voru ósýnilegar en stjórnuðum samt heiminum“ (213).

Hér verður að sjálfsögðu ekkert gefið upp um sögulokin, bara sagt að þau eru ágætlega útfærð og veita lesanda gott svigrúm fyrir vangaveltur og túlkanir. Ég mæli með að bókin sé lesin tvisvar því þá nýtur lesandi betur handbragðs höfundar og fær góða innsýn inn í aðferðir við að flétta saman marga þræði. Það er í því handbragði sem aðalstyrkur frásagnarinnar felst.

Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á rás 1, 19. nóvember 2024.

Tengt efni