SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir31. desember 2024

Á HULDUMÁLI. Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur

Eva Rún Snorradóttir, Eldri konur, Benedikt 2024, 156 bls.

 

 

Titillinn á fyrstu skáldsögu Evu Rúnar Snorradóttur, Eldri konur, er bæði óvenjulegur og áhugaverður: Á baksíðu bókarinnar er gefin sú skýring að sögukona bókarinnar sé haldin fíkn í eldri konur, þær fylli hana krafti og lífi en fráhvörfin frá þessu fíkniefni leiði til þráhyggju og fái hana til að steypa sér í glötun. Bókin er byggð upp á fyrstu persónu frásögnum sögukonu og ytri tími frásagnanna spannar tímabilið 1999 til 2023, eða frá því að sögukona er 16 ára og þar til hún stendur á fertugu. Eina undantekningin frá þessu er frásögn frá árinu 1988, þegar sögukona er fimm ára leikskólabarn. Víða er þó flakkað fram og aftur í tíma svo lesandi fær ágæta mynd af lífi sögukonu, frá barnæsku til nútímans.

Bókin skiptist í þrjá meginhluta sem aftur skiptast í undirkafla sem hver um sig hefur að yfirskrift nafn – í einu tilviki tvö nöfn – þeirrar eldri konu sem frásögnin snýst um, sem og ártal eða tímabil. En þó er ekki rétt að segja að kaflinn snúist um þá eldri konu sem yfirskrift hans vísar til, því stundum eru aðrar konur fyrirferðameiri í frásögnunum, oft yngri kærustur sögukonunnar. En hver kafli varpar ljósi á þætti í lífi sögukonunnar sjálfrar og dýpkar myndina af þeim vanda sem hún á við að glíma.

Ekki víst að allt sé sem sýnist í frásögninni, lesandinn verður að hafa í huga að hér er á ferðinni sögumaður sem er óáreiðanlegur í margs konar skilningi. Til að komast að kjarna verksins kann að vera nauðsynlegt að lesa á móti textanum, eins og það er kallað í textagreiningu, og lesa á milli línanna. Hvað er raunverulega á ferðinni varðandi þráhyggju sögukonu fyrir eldri konum? Erum við einfaldlega að lesa frásagnir ungrar lesbískrar konu um misheppnuð sambönd við eldri konur sem hún hrífst af, líkt og margir eldri gagnkynhneigðir karlmenn laðast að yngri konum? Að mínu viti væri það grunnur lestur á bók Evu Rúnar. Kannski ættum við að spyrja okkar hvaða eldri kona er mikilvægust í lífi hverrar manneskju – og kæmi þá væntanlega móðirin upp í huga flestra. Móðir sögukonu kemur varla við sögu í Eldri konum, hún er reyndar að mestu leyti fjarverandi og að því leyti myndar hún áberandi eyðu sem rímar að einhverju leyti við þær „holur“ sem búa í sögukonu og hún vísar til á nokkrum stöðum.

En hver er þessi kona og hvers konar vanda á hún við að glíma? Við fáum smám saman upplýsingar um líf hennar. Hún hefur alist upp hjá móðursystur sinni, Hildi, sem er undir eftirliti Barnaverndar og alsendis fær um að sjá um barn, stundar áfengisneyslu af kappi, situr á tímabilum í fangelsi, flytur oft á milli staða og skiptir enn oftar um kærasta. Hún bannar sögukonu að kalla sig mömmu, eina nándin sem hún sýnir stúlkunni er þegar hún setur á hana andlitsfarða og síðar umgengst hún hana eins og hverja aðra djammvinkonu. En hún er „þó mun skárri en mamma“ hennar, heyrir barnið aðra fullorðna segja (86).

Vísbendingu um að móðirin skipti höfuðmáli í Eldri konum er reyndar að finna strax í upphafi bókarinnar, í tveimur brotum sem standa á undan meginfrásögninni og afhenda lesanda í raun lykla að því sem eftir kemur. Annað brotið er tilvitnun í ljóðlínur sem hljóma þannig:

 

Ég man þá vögguvísu er söngstu mér í sál,
hún býr í brjósti mínu sem heilagt huldumál
 

Þessar hendingar eru úr ljóði Jóhannesar úr Kötlum þar sem hann minnist móður sinnar, hlýju hennar, mýktar, styrks og leiðsagnar í lífinu. Það hefst svona: „Ó, mamma, elsku mamma, / nú hugsa ég heim til þín, / er næturmyrkrið nálgast / og dagsins ylur dvín.“ Ljóðið lýsir reynslu sem sögukona Eldri kvenna hefur farið á mis við með afdrifaríkum afleiðingum.

Seinna brotið sem fer á undan meginfrásögninni er frá sögukonu sjálfri komið og hefst á orðunum: „Ég hef alltaf verið rótlaus og vannærð“ og lýkur svo á lýsingunni á fíkn hennar í eldri konur. Það sem á eftir fylgir, í megintexta bókarinnar, eru lýsingar á misheppnuðum samböndum hennar við eldri og yngri konur, í tilviki þeirra eldri eru jafnvel um að ræða lýsingar sem eiga sér engan stað nema í hugarórum hennar sjálfrar. Þær má skilja sem örvæntingarfulla tjáningu á þrá eftir móður og því sem góðar mæður eru færar um að miðla til barna sinna. Frásögnin er kannski stundum á „huldumáli“, svo minnt sé á tilvitnunina í ljóð Jóhannesar úr Kötlum, jafnvel mætti tala um yfirfærslu í skilning freudískrar sálgreiningar, þar sem þrá eftir móður yfirfærist á aðrar eldri konur. Því miður er raunin sú að engin þeirra eldri kvenna sem sagt er frá í bókinni getur komið í stað móðurinnar og upprætt djúpstæða vanlíðan sögukonu eða sefað sorg hennar sem á rætur í rótleysi og skorti á næringu í frumbernsku og æsku nema um stundarsakir, enda eru hvorki þær né sögukonan sjálf meðvitaðar um hvað hér er á ferðinni. En það er höfundurinn Eva Rún Snorradóttir svo sannarlega og þess vegna afhendir hún lesandanum áðurnefnda lykla í upphafi bókarinnar, svo við getum kafað í djúpgerð textans og ráðið huldumál bókarinnar.

Eins og áður segir minnist sögukona afar sjaldan á móður sína. Hún kemur þó fyrir í stuttum textabrotum sem skotið er inn á milli meginkaflanna og mynda saman ákveðna heild. Þar lýsir sögukona því að hún situr á bar og inn gengur eldri kona. Í fyrsta brotinu segir:

 

Inn gengur eldri kona. Stundum einhver ákveðin sem ég er mikið að hugsa um. Oftast er þetta óþekkt kona, sambland af allskonar eldri konum. (40)

 

Í næstu lýsingu brestur sögukona í fantasíu um ástarfund með konunni inni á klósetti á barnum. Þar segir:

 

Bara á þessu augnabliki eru þetta ótal konur, lögreglukonur sem hafa haft afskipti af mér, ágengi félagsráðgjafinn, kennarar, nágrannakonur, mamma. (62)

 

Í þriðja sinn sem þessi sena er dregin upp, segir: „Það er móðir mín sem stendur í gættinni“ (118).  Undir lok bókarinnar erum við stödd með sögukonu inni á þessum bar í fjórða og síðasta sinn og þá sest móðirin við hlið hennar og: Um leið eiga sér stað einhverskonar orkuskipti, eins og þar segir. Í kjölfarið kemur þessi lýsing:

 

Það tekur að teygjast úr þér. Þú tútnar. Umbreytist. Verður hægt og rólega að blöðru. Þú ert bólgið dýr með bros sem stækkar og stækkar. Um stund er þetta ægilegt sjónarspil. Það er alls ekki pláss fyrir þig þarna. Þetta sérkennilega bros. Þú horfir á okkur, mig og félaga mína á barnum, að ofan, í andartak er eins og þú ætlir að flytja tækifærisræðu en svo sogastu út um stórt gat sem opnast eins og gátt á þaki barsins. Flýgur upp í himininn.

Við hin reynum að skýla okkur en það stoðar ekki, brottför þín hleypir dagsbirtu inn á barinn og mengar okkur af sólarljósinu. (155)

 

Þetta er afar óræð sena en kannski mætti túlka hana sem lýsingu á því hvernig þráin eftir móðurinni, sem er rót þráhyggju hennar eftir eldri konum, er að losa tökin á sögukonu. Það er þó alls ekki ljóst að svo sé en síðasta blaðsíða bókarinnar gefur ákveðin fyrirheit því þar er lýst samverustund sögukonu með níu ára gamalli dóttur sinni þar sem þær horfa upp í heiðan himinn á fuglager. Sögukona fyllist: „Von, vissu um góða staði. Tilboð, galdrar, fegurð“ (156).

Í Eldri konum er Eva Rún á svipuðum slóðum og í fyrri verkum sínum, hún er að lýsa hvernig vanlíðan, þráhyggja og óhamingja á rætur í gömlum sárum. Það gerði hún á eftirminnilegan hátt í sagnasveignum Óskilamunum sem kom út 2021, og sviðslistaverkinu Góða ferð inn í gömul sár sem sett var upp í Borgarleikhúsinu 2023. Eldri konur er áhugaverð bók sem má lesa oft og pæla lengi í.

 

Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á rás 1 ...

Tengt efni