SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn14. janúar 2025

SORGARGETNAÐUR. Um EINURÐ eftir Draumeyju Aradóttur

Draumey Aradóttir. Einurð. Sæmundur 2024.

 

Ljóðabókin Einurð er tileinkuð einhverfum: „Bókina tileinka ég öllum börnum og öllum fullorðnum á einhverfurófi. Lifi fjölbreytileiki mannflórunnar!“ Ljóðin í bókinni þarf að lesa með þetta í huga en einnig er mikilvægt að hugsa um hvernig skáldinu Draumeyju er lýst innan á kápunni: „Sköpunargleðin er henni í senn hamingja og ferðalag um innri víddir. Henni eru hugleikin tengsl hugar, tilfinninga og sálar... “  Með öðrum orðum, henni eru andlega mál hugleikin og í ljóðunum birtist trú á handanheima. Það má einnig benda á að nafn síðustu ljóðabókar skáldsins kallast á við Einurð en það er Varurð sem merkir skynjun. Þar tókst hún meðal annars á við „innri víddir“ í áhugaverðum ljóðum um ótta og afleiðingar ofbeldis.

Einurð er að sumu leyti torræð ljóðabók þó að hún sé einnig nokkuð skýr frásögn; ljóðabálkur sem segir sögu ljóðmælandans í fyrstu persónu, frá getnaði til fullorðinsára. Það verður snemma ljóst að Draumey tengir aðstæðurnar þegar ljóðmælandi/sögumaður er getinn við þá staðreynd að hann er einhverfur. Fyrsta ljóðið „Einn til vitnis“ er afar fallegt:

 

 

             Þú gast ekki vitað
 
             hvernig sorgarsaltir líkamarnir
             kveiktu gneistann þetta kvöld
             þessa nótt
 
             þið gátuð hvorugt vitað það
 
             en ég var þar
             einn
             til vitnis

 

Eftir því sem lesið er lengra kemst lesandi að því að þarna talar fóstrið í móðurkviði við móður sína, og vissulega föður líka, og að móðirin verður fyrir gríðarlegri sorg; áfalli sem gefið er sterklega í skyn að hafi þau áhrif á fóstrið að barnið er með einhverfu. Undirrituð þekkir mjög vel til einhverfu og það verður að segja það hér að það hefur hvergi komið neitt fram um að einhverfa stafi af áföllum mæðra sem ganga með börnin. Hér verður þó ekki gert veður út af því heldur reynt að fjalla um bókina eins og hún er.

Kápa bókarinnar er með fallegu málverki Írisar Ólafsdóttur af strönd og á henni liggur einn kuðungur sem reynist vera nákuðungur. Það sýnir vel undirliggjandi tóninn í bókinni; lífshættuna, sorgina og einsemdina. Við sjáum líka teikningar af kuðungi sem fer stækkandi auk þess sem hann kemur nokkrum sinnum fyrir í ljóðum sem tákn um einveru og um að draga sig inn í skel sína. Þegar fóstrið nálgast þann þroska að þurfa að fæðast dregur það sig saman eins og kemur fram í þessu ljóði:

 

            Hvert sinn sem þjarmað er að mér
             dreg ég mig saman í felulitan kuðung
             dreg mig undan
             hverf

 

Draumey hefur mjög gaman af því að leika sér með margræða merkingu orða, setja þau í nýtt samhengi og búa til nýyrði. Titillinn Einurð ber því sannarlega vitni, en hún leikur sér með skyldleika orðsins við einhverfu auk þess að sýna hve ljóðmælandi bókarinnar er einarðlegur, hefur einurð til að halda sig sem lengst í leginu, til að vera sem mest einn í sínu og má þá hugsa sér einsemd. En mergurinn málsins og meginstefið er andstæða einmanaleika, persónan vill vera ein, hún nýtur einverunnar. Það er augljóst að Draumey þekkir til einhverfu því að í nokkuð löngu lokaljóðinu „Þannig hverfist ég“ setur hún sig inn í hugarheim þess einhverfa:

 

... þannig hverfist ég
og mun alla tíð gera
 
til einveru
en ekki samskipta
 
til karakteranna í leikhúsinu mínu
en ekki áhorfendanna
 
til teiknimyndanna minna
en ekki hugsanlegra lesenda þeirra
 
því í minni veröld
eru þeir ekki til eða í besta falli
óþarfir
...

 

Allt lokaljóðið er eitt besta ljóð bókarinnar. Það er langt og jafnframt skemmtilega ítarleg lýsing á einni birtingarmynd einhverfu af mörgum, lýsing á því sem sést og því sem ekki sést hið innra, yfirborði og kjarna eins og segir í eftirfarandi ljóðlínum sem eru tvíteknar í bókinni:

 

             Það er kjarni og það er yfirborð
             Það er rót og það er birtingarmynd

 

Þess má geta að lokaljóðið fékk fyrstu verðlaun á Júlíönuhátíðinni í Stykkishólmi 2023.

Auk þeirra ljóða sem beinlínis fjalla um einhverfuna á einn eða annan hátt eru mörg mjög vel samin og falleg ljóð í bókinni sem gætu vel staðið ein og sér. Í ljóðinu „Kvika“ ávarpar fóstrið móður sína sem tekst á við hina miklu sorg og reynir að gera henni ljóst að eitthvað er að gerast inni í henni:

 

            Ljós kviknar
 
             í nakinni huggun
             um harmhvíta nótt
 
             hugsanir þínar þokukennd mósaíkbrot
             sem molna þegar þú reynir
             að raða þeim saman
             blindsvört fúgan
             hnífur í blæðandi
             kvikunni

 

Sorgin stafar af dauðsfalli einhvers karlmanns sem hefur verið nákominn móðurinni. Við fáum aldrei að vita hver það var sem dó af slysförum langt fyrir aldur fram; hvort hann var elskhugi og faðir barnsins, bróðir, vinur eða frændi. Það er ágætt að lesa bókina nokkrum sinnum til að reyna að leysa þá þraut, en auðvitað ekki síst til þess að njóta hins margræða skáldskapar. Að lokum er hér ljóðið „Gjafir“ en sennilega hefur aldrei áður verið lýst jafn fagurlega þeim tilfinningum sem flæða um móður þegar hún uppgötvar að hún gengur með barn:

 

            Í jólagjöf færðu silfrað men
             með stórum hvítum steini
             tindrandi í himinbláu, norðurljósagrænu
             og jarðbleiku
 
             mánasteini
 
             en bæði himinn og jörð
             og öll norðurljós heims
             leysast upp í þúsund stjarna regn
             þegar þú vaknar loks til vitundar
             um bólsetu mína
 
             himinn og jörð
             og jafnvel sorgin
             um hríð

 

 

                                                                                              Hrund Ólafsdóttir

Ritdómurinn birtist í SÓN, tímariti um ljóðlist og óðfræði 2024

 

Tengt efni