SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir18. apríl 2025

SKYNUG SKEPNAN: BRIMURÐ EFTIR DRAUMEYJU ARADÓTTUR

Draumey Aradóttir, Brimurð, Sæmundur 2025, 77 bls.

 

Brimurð er þriðja ljóðabók Draumeyjar Aradóttur sem hefur „urð“ í titli sínum, hinar eru Varurð (2022) og Einurð (2024). Fleira tengir þessar þrjár bækur, þær eru áþekkar í útliti, í sama umbroti, af svipaðri lengd og eru fallega hannaðar af Aðalsteini Svani Sigfússyni. Í þeim öllum eru líka að finna myndir sem kallast á við ljóðtextann og hver ein og þeirra hverfist um ákveðið efni. Í Varurð yrkir höfundur um sálrænt ferðalag og endurfæðingu og í Einurð um getnað, fæðingu og líf einstaklings sem er á einhverfurófi.

Í Brimurð fjallar ljóðskáldið um fallegt og náið samband sitt við hundinn Álf en þó sérstaklega um dauða hundsins og sáran missinn. Það sem er er sérstakt við þessi ljóð að þau eru lögð hundinum í munn, Álfur er ljóðmælandi í öllum ljóðunum.

Þótt aðferðin sé sérstök er hún þó ekki ný af nálinni, til er fjöldi bókmenntatexta þar sem sjónarhornið er bundið við dýr þótt slíkt sé fremur sjaldséð í íslenskum samtímabókmenntum. Þó má minna á frábært sagnasafn Sigfúsar Bjartmarssonar, Vargatal (1998), þar sem höfundur reynir að setja saman veröldina eins og hún gæti litið út frá augum dýranna en aðferð hans er mjög ólík aðferð Draumeyjar því hann forðast manngervingu dýranna.

Eitt skemmtilegasta dæmið sem ég þekki um álíka beitingu sjónarhorns er skáldsagan Flush (1933) eftir Virginiu Woolf þar sem sjónarhornið er að mestu bundið við hundinn Flush sem breska skáldkonan Elizabeth Barret Browning átti og elskaði. Í gegnum augu hundsins teiknast upp mynd af lífi skáldkonunnar og sambandi hennar við ráðríkan föður sinn og skáldið Robert Browning sem síðar varð eiginmaður hennar. Frásögnin er þó ekki lögð hundinum í munn, líkt og í Brimurð, en það er engu að síður í gegnum augu hundsins sem veruleiki frásagnarinnar verður til og almennt er verkið talið birta gagnrýnið viðhorf til borgarlífs og firringu mannsins frá náttúrunni.

Í samhengi íslenskra bókmennta má velta fyrir sér hvort „dýraljóðum“ og „dýrasögum“ eigi eftir að fjölga í náinni framtíð í kjölfar vaxandi meðvitundar almennings um slæma meðferð mannsins á dýrum, sér í lagi eftir áratuga reynslu af viðbjóðslegum verksmiðjuiðnaði þar sem dýr eru fóðruð til manneldis við slæmar aðstæður. Á undanförnum árum hefur andóf gegn slíkri meðferð á dýrum farið vaxandi og má í því sambandi minna á að dýrasagan var til á Íslandi sem sérstök bókmenntategund á nítjándu öld í kjölfar vakningar manna um velferð dýra og andspyrnu gegn illri meðferð á þeim. Þar lék tímaritið Dýravinurinn (1885-1916) stórt hlutverk. Gunnar Theodór Eggertsson, sem skrifaði doktorsritgerð um bókmenntaleg dýr, hefur einnig bent á að dýrasögunni vaxi fiskur um hrygg með kenningum Darwins sem ruddu sér til rúms á seinni hluta nítjándu aldar.

En það er vandi að skrifa út frá sjónarhorni dýra því manneskjan hefur takmarkaða vitneskju um hvað dýr hugsa og hvernig tilfinningalífi þeirra er háttað. Það er því nær alltaf gripið til mannhverfra viðmiða þegar túlka á sjónarhorn dýra og þannig er það einnig í Brimurð. Það er reyndar fullvissa margra að einmitt í tilviki hunda eigi maðurinn greiðari aðgang að upplifun dýrsins en gildir um önnur dýr vegna náinnar sambúðar okkar við hunda í gegnum áratugina, samband sem er í mörgum tilvikum gefandi og tilfinningaríkt. Draumey lýsir – í gegnum hundinn Álf – sambandi sem byggist á djúpi trausti og ást, bókin er öðrum þræði lýsing á tilfinningaríku ástarsambandi.

Ljóðabókin skiptist í fimm hluta: I BRIM, II BROT, III FÖLL, IV URÐ og V MINNINGARORÐ. Síðasti hlutinn hefur að geyma stuttan eftirmála þar sem Draumey minnist Álfs á knappan og tilfinningasaman hátt og leggur áherslu á hvað hann, „sem var besti vinur minn, hlustandi og kennari til þrettán dýrðlegra og ógleymanlegra ára“, hafi kennt sér mikið.

Í fyrsta hlutanum eru fimmtán ljóð sem öll gerast í fjörugöngu ljóðmælanda með eiganda sínum og strax verður ljóst að hundurinn er kominn að fótum fram; „Hrollurinn læsir klónum í þrútinn kviðinn / másandi reika ég af stað / upp í fjöruna // lúinn svo ósköp lúinn […]). Hann veit sjálfur að endalokin nálgast og hefur sætt sig við það, eins og lýst er í fimmta ljóðinu:

 

ég játa mig sigraðan
lygni augunum aftur í eðlilægri auðmýkt
gagnvart framrás náttúrunnar
sífellt þrengri lífshringnum
 
það fellur að
fellur út

 

Síðasta hendingin, „það fellur að / fellur út“ er endurtekin nokkrum sinnum í þessum hluta og kemur einnig fyrir í síðari hlutum bókarinnar og myndar því nokkurs konar leiðarstef sem vísar jafnt til haföldunnar, brimsins og þess lífs sem er við að fjara út.

Í öðrum hluta, BROTUM, er brugðið upp nokkrum myndum af samverustundum Álfs og eigandans; ljóðin tólf sem mynda þennan hluta sýna stundir úr lífi þeirra saman allt frá fyrstu stundu. Þarna eru mörg falleg og skemmtileg ljóð sem tjá tilfinningar konu og hunds. Þó sjónarhornið sé óneitanlega mannlegt framar öðru er þó ýjað að mismunandi eðli, eins og til að mynda í ljóðinu  „SITT ER HVAГ:

 

Það byrjaði sem þytur í æðum
vart greinanlegur í fyrstu en þéttist óðum
líkast regnbliku á himni
 
byrjaði sem hvísl en stigmagnaðist
eins og aðrar sinfóníur náttúrunnar
uns þó hljóðuðu á mig í samstilltum kór
heyrnin, þefskynið og eðlisthvötin að senn brysti á
með ofanfalli og eldi
 
ég varaði þig við
en það var sama hvað ég bofsaði, gelti eða gjammaði
þú varst ekki að lesa sömu nótur og ég
 
ráðþrota laut ég höfði og skreið undir runna
öll dýr himins og jarðar löngu komin í skjól
öll nema þú
 
lyftir höfðinu agndofa upp úr rósabeðinu
þegar logandi himinninn upphóf þrumsönginn
og hraglandinn lúskraði á okkur
 
sitt er hvað
hundstrýni eða mannsnef

 

Þriðji hlutinn, FÖLL, lýsir síðustu stundum Álfs og hefst á leiðarstefi bókarinnar: „Lífið hefur sín sjávarföll / / það fellur að, fjarar út / fellur að, fjarar út“. Enn sem áður er sjónarhornið hundsins sem finnur endalokin nálgast og sættir sig við gang náttúrunnar en eigandi hundsins á erfiðara með að takast á við missinn. Hér eru fimmtán ljóð og eru mörg þeirra þrungin tilfinningum sem tjá ást og söknuð.

Upphaf fjórða hlutar, URÐAR, hnykkir enn á leiðarstefinu:

 

Allt á það sín ólíku skeið
aðfallið og útfallið
 
sína háfjöru og lágfjöru
sitt ris og hnig
 
það fellur að, fellur út
fellur að, fellur út

 

Álfur talar nú úr eilífiðinni til konunnar sem syrgir. Ljóst er að andi hundsins fylgir henni hvert fótmál eftir sem áður og ljóðin gefa áfram góða innsýn inn í hvernig sambandi þeirra var háttað.

Vera kann að þeir lesendur sem ekki hafa átt í ástríku sambandi við dýr eigi erfitt með að tengja við ljóð Brimurðar, en í raun og veru standa ljóðin hvert og eitt fyrir sínu – hvort sem lesandinn ímyndar sér ljóðmælandann sem hund eða manneskju. Fyrir dýravini og hundaeiganda getur Brimurð áreiðanlega verið mikilvæg bók og gefið þeim möguleika á að minnast liðinna dýra sinna og gefandi samskipta. Óhætt er að segja að rómantísk tilfinningasemi einkenni ljóð Draumeyjar í Brimurð og að því leyti sverja ljóðin sig í ætt við íslensk dýraljóð - og sögur - frá fyrri tímum. Mannhverfar lýsingar á dýrum eru reyndar raktar aftur til rómantísku stefnunnar í bókmenntum á fyrri hluta nítjándu aldar og og má til að mynda sjá í ljóðum breskra skálda á borð við Wordsworth,  Coleridge og Shelley, svo nokkrir séu nefndir.

 

Ljóðabækur Draumeyjar eru allar úthugsaðar í byggingu og ljóðmáli, hún hefur góð tök á ljóðlistinni eins og ljóð Brimurðar sýna vel. Það verður spennandi að sjá hvort „dýraljóðum“ og „dýrasögum“ eigi eftir að fjölga á bókmenntasviðinu á næstunni í kjölfar vaxandi náttúru- og umhverfisvitundar og þeirrar staðreyndar sem æ fleiri eru að átta sig á; að það er ekkert til sem heitir „skynlaus“ skepna og dýravelferðarmál eru meðal mikilvægustu málefnum samtíðarinnar.

 

 
Hér má lesa meira um bókmenntaleg dýr:
 
Gunnar Theódór Eggertsson, „Jarpur, Blakkur, Skjóni, Stjarna og Hjálma. Sýnileg og ósýnileg dýr í íslenskum dýrasögum.“ Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, 1. hefti 2020: https://ritid.hi.is/index.php/ritid/article/view/94/80
Gunnar Theódór Eggertsson, „Raunsæisdýr og náttúruvísindaskáldskapur. Dýrasagan í eftirmálum darwinismans.“ Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, 1. hefti 2016: https://timarit.is/page/6988615#page/n135/mode/2up
Soffía Auður Birgisdóttir, „Hin skemmtilega dýrafræði Þórbergs Þórðarsonar.“ Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, 1. hefti 2020: https://ritid.hi.is/index.php/ritid/article/view/95/81

 

 

Tengt efni