SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. nóvember 2025

FJARVERAN OG AFSKIPTALEYSIÐ - Um Útreiðartúrinn

Nýjasta bók Rögnu Sigurðardóttur, Útreiðartúrinn, er „áhrifarík samtímasaga með djúpar rætur í fortíðinni“ eins og segir á bókarkápu. Þar segir frá Sævari, Helgu konu hans og 14 ára einkasyninum Pétri sem eru nýflutt á Álftanes. Kvöld eitt kemur sonurinn heim í lögreglufylgd en svo virðist sem þrír strákar hafi ráðist á hann og Sindra vin hans að tilefnislausu. Þegar frá líður birtist myndband á netinu af árásinni og þá fer Sævar að gruna að Pétur hafi ekki sagt satt um atburðinn. Þegar Pétur síðan pínir Sindra til að borða rótsterkt chili til að birta sem grín á tiktok, fara að renna tvær grímur á Sævar. Getur verið að Pétur hans sé „bully“ og ofbeldismaður?

Glósur, gón og káf

Frásögnin hefst á dularfullu andláti í útreiðartúr ungs fólks á Álftanesi í júní 1881. Erfitt reynist að henda reiður á hvort það var slys eða ekki. Einn er síðan grunaður um morð en sluksað var við rannsóknina. Sá grunaði, Eyjólfur, er langalangafi Sævars. Þetta var þaggað niður í fjölskyldunni og Sævari finnst mannorðshnekkir að vera kominn af morðingja (98). Hann ætlar samt að segja Pétri söguna í þeirri von um að hún veki áhuga hans og tengi þá feðga saman. En þetta er of fjarlægt og snertir hann ekki: „Kúl saga“ segir Pétur (37). Svo tekur Sævar til við að rannsaka málin sjálfur, bæði gamla morðmálið og árásina.

Í þessum þætti sögunnar er dregin er upp mynd af samfélagi þar sem stéttaskipting er mikil og vinnufólk hefur um fátt að velja. Sagan er sögð út frá sjónarhorni Guðnýjar, formóður Sævars, sem freistar þess að komast frá vinnukonulífinu í dalnum og skapa sér framtíð á Álftanesi með téðum Eyjólfi. Skiljanlega vill hún komast burt; hlutskipti vinnukonunnar, sem ofan á húsverkin felst í að þjóna vinnumönnunum á bænum sem í skjóli forréttinda sinna fara sínu fram:

„Frá því hún mundi eftir sér höfðu þeir hreytt í hana ónotun, ýtt við henni, skammað hana, skipað henni fyrir, hæðst að henni og hlegið framan í hana um leið og þeir gerðu ráð fyrir sífelldri þjónustu. Þegar hún stálpaðist og það fór að móta fyrir brjóstunum undir treyjunni störðu þeir opinskátt og slefandi. Þeir þreifuðu á rassinum á henni þar sem hún stóð við pott með sjóðandi vatni og gat sig hvergi hreyft. Þeir földu þetta ekki, hvorki glósurnar, gónið né káfið. Því skyldu þeir gera það?“ (139).

Eyjólfur er öðruvísi en aðrir vinnumenn, hann er vænn og myndarlegur. En það eru brestir í honum, hann virðist vera hálfgerð rola, uppburðarlítill og drykkfelldur. Þegar þau koma á Álftanes reynast aðstæður öðruvísi en til stóð.

Saga útreiðarfólksins er byggð á raunverulegu sakamáli, svonefndu Kristmannsmáli. Útreiðarfólkið var hneppt í varðhald og yfirheyrt en svo reyndist merkilega lítill áhugi yfirvalda á að upplýsa málið. Málið lognaðist svo útaf en orðrómurinn lifði. Í bókarlok er málið hins vegar loksins upplýst!

Landslag og kynslóðabil

Landslagið á Álftanesi leikur stórt hlutverk í þeim sögum sem fram vindur í bókinni, enda er gróið holtið óbreytt frá fornu fari, „þúfurnar áþekkar og mosagróið hraungrýtið sömuleiðis. Grjótið var samt, lyngið og mosinn á holtinu. Sjávarlyktin sú sama.“ (35). Landslagið er bæði  leikmynd og táknmynd fyrir tíma og tilfinningar. Kynslóðabilið er ekki bara á milli langalangafans og Sævars, það er síst minna á milli Sævar og Péturs:

„Gargandi mávar tóku dýfur fyrir ofan okkur, hestar stóðu á beit í móanum fyrir neðan holtið, sólin merlaði á sjónum allt í kring. Innra með mér toguðust á sólskinið og skuggarnir í hrauninu, vitneskja um söguna sem leiðsögumaðurinn átti eftir að segja okkur uppi á holtinu, fjarlægðin sem ég fann fyrir milli okkar Péturs. Ég saknaði stráksins míns og mig langaði að ná til hans … Ég fylgdist með Pétri feta sig óöruggur yfir þúfur og áttaði mig á að hann var ekki vanur því. Hvernig gat verið að hann kynni ekki að ganga í þúfum?... (33)“.

Glæpir eru víða

Sævar er heimavinnandi og nostrar við bókaskreytingar á vinnustofunni sinni. Hann nær engu sambandi við son sinn sem hann margoft langar að faðma og sýna umhyggju og vinsemd en hikar alltaf og heldur aftur af sér. Pétur er að breytast úr barni í fullorðinn og Sævar nær ekki utan um þær andlegu og líkamlegu breytingar sem verða á honum. Hann finnur fyrir sektarkennd yfir að hafa skipulagt að flytja með Pétur á viðkvæmum aldri úr hverfinu sem litla fjölskyldan  hafði búið í síðan hann fæddist.

Stutt er í sjálfsásökun, reiði og skömm hjá Sævari. Hann á erfitt með sig vegna yfirgangs og gaslýsingar sem hann varð fyrir sem gutti, af hendi Togga sem hann leit á sem sinn besta vin. Sá þráður er rakinn til sumardvalvar í sveitinni hjá ömmu og afa á Álftanesi þar sem Sævar kynntist Togga fyrst í kringum 1980. Þá koma til sögunnar kynni Sævars af rannsóknarblaðamanninum Bergi sem skyndilega var ekki lengur velkominn í heimsókn eftir að hann skrifaði grein um morðmálið frá 1881 og reif þar með upp gömul sár.

Glæpirnir eru víða; Bergur hafði sem blaðamaður hagnast á þiggja mútur fyrir að hilma yfir skattsvikum og eignaðist þannig lóð á Álftanesi. Hann dró fjölskylduna sína nauðuga með sér þangað (sjá  magnaða senu á bls. 206-209), rétt eins og Sævar telur sig hafa gert. Bergur var fjarhuga faðir sem ráðskaðist með fjölskyldu sína en hlustaði aldrei. Sævar veltir fyrir sér hvort hann sjálfur sé sama manngerð: „Viltu hlusta á mig?“ sagði Helga stundum við mig og það hafði svo oft pirrað mig. „Ég er að hlusta,“ sagði ég þá, en kannski var ég ekki að því. Af hverju væri hún annars að biðja mig sérstaklega um það? (209).

Samband þeirra hjóna Sævars og Helgu virðist einkennast af fálæti og afskiptaleysi sem hlýtur að varpast yfir á Pétur.

„Helga fann að eitthvað var að  en hún gerði líklega ráð fyrir að það væri vinnan, að ég væri í tímapressu og mér gengi ekki nógu vel en þá átti ég til að verða þögull og afundinn. Við höfum okkar rútínu eftir meira en tveggja áratuga hjónaband. Henni hefur lærst með tímanum að láta mig í friði þegar þannig stendur á. ... Og ef mér finnst Helga vera fjarlæg eða ég finn að eitthvað hvílir á henni sem hún ræðir ekki við mig treysti ég henni til að leysa úr því og hleyp auka hring til að ná betra jafnvægi. Við þurfum ekki lengur að ræða alla hluti“ (125).

Helga stendur í skugga og er eingöngu sýnd með augum Sævars. Undir lok sögunnar er hún orðin ein taugahrúga, með bauga undir augunum og þráhyggjukennda hegðun.

Pétur er trúverðugur unglingur sem spilar ofbeldisfulla tölvuleiki einn og afskiptalaus í herberginu sínu, svarar með hnussi eða eins atkvæðisorðum og er með hausinn á kafi í samfélagsmiðlum. Hann bæði horfir á ofbeldismyndbönd og býr þau til og finnst það ekkert tiltökumál. 

Allar þessar sögur, persónur og svið speglast á margs konar hátt og draga fram bresti, skömm og sektarkennd sem kynslóðirnar burðast með. Sindri og Sævar eru t.d. hliðstæður því þeir upplifa báðir að besti vinurinn bregst þeim og þeir skammast sín fyrir að hafa lent í ofbeldi. Sævar skammast sín svo mikið fyrir það sem Pétur gerði að hann forðast að hitta fólk (263) og fjarlægist fjölskyldu sína. Eyjólfur á sér ekki viðreisnar von eftir atburðinn í útreiðartúrnum og skömmin hrekur hann burt frá konu og barni.  Guðný skammast sín fyrir að hafa ekki klárað útreiðartúrinn og grípur því til lygi í yfirheyrslunum. Toggi og Pétur beita báðir vini sína ofbeldi.

Grunnt á grimmdinni

Á bókakápunni er grimmdarleg sena og það er grunnt á grimmdinni, án aðhalds og marka getur hún flætt yfir bakka sína. Hvað verður um Pétur? Mun hann einhvern tímann sjá mun á réttu og röngu, mun hann alltaf þræta fyrir misgjörðir? Stendur litla fjölskyldan þetta af sér eða sundrast?  Sævar þekkir hvorki son sinn né sjálfan sig, hann skilur ekki hvaðan reiðin kemur sem grípur hann stundum. Hann elskar Pétur og stendur frammi fyrir því að velja hvort eigi að hilma yfir með honum eða draga hann til ábyrgðar.  Og sektarkenndin nagar hann.

„Ef ég hefði bara verið betri pabbi. Hvað ef ég hefði fylgst betur með, tekið breytingarnar alvarlega, sýnt nýju vinunum hans meiri áhuga? Hefði verið strangari, haft stjórn á hverju Pétur hafði aðgang að í símanum sínum, stjórnað hverja hann hitti, hvar og hvenær.“ (258).

Hugurinn hvarflar til metsölubókarinnar Kvöldverðurinn eftir hollenskan höfund, Herman Koch, sem kom hingað á bókmenntahátíð 2013. Í þeirri bók fremja 15 ára bræðrasynir ódæði og siðferðislegar spurningar vakna varðandi afstöðu foreldranna þegar piltarnir þekkjast á upptöku úr öryggismyndavél.  Sagan endurtekur sig og ofbeldið í heiminum margfaldast. 

Útreiðartúrinn glímir á hugvekjandi hátt við sömu sígildu spurningar, með djúpstæðri tengingu við land og sögu, sekt og skömm. Persónur sögunnar í nútímanum reyna að  fóta sig í grimmum heimi alveg eins og forfeðurnir, þar sem gildin eru fljótandi, sannleikurinn og siðferðið líka. Áður fyrr var það samfélagsgerðin sem gróf undan jafnræði, staðfestu og heilindum, núna er það fjarveran og afskiptaleysið.

 

 

 

 

Tengt efni