SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir11. janúar 2026

ÁLEITINN BOÐSKAPUR UM VALD OG MENNSKU - Um ALFA eftir Lilju Sigurðardóttur

Um þessar mundir er áberandi að sögusvið skáldsagna sé í óræðri framtíð þar sem mennskunni hefur verið úthýst, villtur gróður sést ekki, dýrin eru útdauð en illræmt kerfi hefur tekið stjórnina í lífi fólks. Í fljótu bragði mætti nefna Merkingu eftir Fríðu Ísberg, DEUS eftir Sigríði Hagalín og Þú sem ert á jörðu eftir Nínu Ólafsdóttur auk skáldsagna t.d. Emils Hjörvars Petersen og Steinars Braga þar sem samfara hruni mennsku og siðmenningar hafa forrit og gagnagrunnar tekið yfir stjórn og eftirlit með mannfólkinu sem hlýðið og auðsveipt sættir sig við örlög sín. 

Nýjasta bók Lilju Sigurðardóttur, er vísindaskáldsagan ALFA (fyrra A á hvolfi), spennuþryllir sem gerist árið 2052 með stöku endurliti til 2027 - tilnefnd til Blóðdropans 2025!

ALFA er gervigreindarforrit og gagnagrunnur Ráðuneytisins sem hagar öllu á besta veg fyrir alla og er með höfuðstöðvar í Seðlabankahúsinu. Framakonan Mekkín hefur verið í hönnunar- og stjórnendateyminu í 25 ár og sonur hennar og Sabínu er Júlíus sem í byrjun sögu er að fermast, þ.e. fá nýja skilgreiningu og stöðu sem ungmenni í ALFA. Forritið velur þá framtíðarbraut með borgaralaunum fyrir hvern ungling og eftirvæntingin á heimilinu er mikil. Bróðir Sabínu, Birkir, varar litlu fjölskylduna við því að láta Júlíus fermast og afsala sér þar með frelsi sínu og sjálfstæði. Sjálfur býr Birkir utan kerfis, er hvorki með  ígrædda örflögu né armbandsúr sem þýðir útskúfun og allsleysi fyrir hann. Svo fer atburðarás sögunnar hratt af stað með morði og svikum og fljótlega blasir glötunin við krúttlegu veröldinni þeirra allra.

ALFA er þaulhugsuð, spennandi, frumleg og áhugaverð saga, með áleitnum boðskap um vald og mennsku. Framtíðin sem ALFA býður upp á er svaðaleg dystopía um alveldi þar sem lýðræðið er plat. Forritið smýgur alls staðar, s.s. inn í heilbrigðiskerfi, þjóðskrár, samgöngur, orkugjafa, öryggiskerfi, banka, ráðuneyti, snjalltæki og samfélagsmiðla, og með stanslausum áróðri fær það fólk til að treysta og gefa sig á vald forsjánni. Reglulega koma skilaboð frá ALFA:

„Vér viljum nefnilega ekki að þið trúið. Vér viljum að þið treystið. Trú var aðferð hins ráðvillta mannkyns sem ekki kunni fótum sínum forráð, klúðraði og eyðilagði og trúði svo í blindni á yfirnáttúrulega krafta til þess að bjarga sér úr vandanum. Eftir að trúarbrögð voru lögð af er heimurinn á betri vegferð. 

Þið þurfið ekki að trúa á oss. Þið þurfið bara að treysta oss. Treysta því að þær niðurstöður og ráðleggingar sem vér gefum séu gefnar með ykkar hagsmuni að leiðarljósi, að teknu tilliti til hagsmuna heildarinnar...“(15). 

Þau sem ekki fallast á forræðið búa á jaðrinum, hafa engin réttindi en hafa skímu af sjálfstæðri hugsun sem gefur örlitla von fyrir mannkyn. En þótt ALFA-kerfið sé allsráðandi, útsmogið og kalt er ekkert kerfi sterkara en veikasti kóðinn, sem vissulega er ógnvænleg tilhugsun. Það ríkir almenn bjartsýni í heiminum um að gervigreind eigi svör við öllu og muni leysa öll vandamál en hægt er að nýta sér það til að ná valdi yfir fólki og auðlindum. Græðgi og spilling eru samar við sig, hvort sem valdhafinn er valdasjúkur einræðisherra eða gervigreind með gæskuna að yfirskini. 

 

 

Tengt efni