SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir27. mars 2023

GUÐRÚNARKVIÐA Á SVIÐ

31. mars frumsýnir Gaflaraleikhúsið í Hafnarfirði einleikinn Guðrúnarkviðu eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur en ljóðsaga með sama nafni kom út á bók árið 2020 og hlaut mjög góða dóma. Eyrún Ósk skrifaði einleikinn á undan bókinni og náði að sýna verkið einu sinni áður en covid-faraldurinn brast á og öllu var skellt í lás. Nú er einleikurinn aftur tilbúinn til sýninga og þeir sem þekkja bókina eru án efa spenntir að sjá sýningu á þessu frumlega verki.

 

Í kynningu Gaflaraleikhússins segir:

Verkið fjallar um konu sem vaknar í kistu í eigin jarðaför en kann ómögulega við að trufla athöfnina. Þetta er frumlegt og áleitið gamanverk sem fjallar um meðvirkni og algerlega drepfyndið.

 

Í ritdómi hér á Skáld.is um Guðrúnarkviðu sagði meðal annars:

Guðrúnarkviða er bók sem vinnur vel úr frumlegri hugmynd. Verkið er efnismikið og er enn ein rósin í hnappagat Eyrúnar Óskar sem áður hefur sent frá sér athyglisverðar ljóðabækur.

 

Það er höfundur verksins, Eyrún Ósk, sem fer með öll hlutverk í sýningunni en Eyrún á að baki langan feril sem rithöfundur, leikari og leikstjóri, eins og fram kemur í færslu um hana í Skáldatalinu. Upprunalegu sýningunni leikstýrði Hildur Kristín Thorstensen nú er hún í barneignarfríi svo verkið er núna sett upp aftur með aðstoð Bjarkar Jakobsdóttur.

Um sýninguna sagði Eyrún Ósk, í viðtali við Skáld.is:

 

Verkið fjallar um meðvirkni. Leikritið fjallar um Guðrúnu sem hefur alla tíð verið áhorfandi að lífi sínu en í dag er hún einnig áhorfandi að dauða sínum. Hún rankar við sér í líkkistu í eigin jarðarför en kann ekki við að trufla hana. Sagan gerist því í raun öll í jarðarförinni inni í líkkistunni. Þetta er svona kolsvartur, tragískur gamanleikur.

Í verkinu erum við að skoða meðvirkni ofan í kjölinn. Það var mjög skemmtileg áskorun að vinna með þetta viðfangsefni enda þekki ég meðvirkni ágætlega á eigin skinni og tengi vel við þetta að vilja helst ekki vera með vesen og ekki vera fyrir. Það er sagt að meðvirkni drepi en í þessu tilfelli er það bókstaflegt því Guðrúnu finnst eiginlega skárra að láta grafa sig lifandi heldur en að vera með vesen og stoppa jarðarförina..

Aðal leikmyndin er líkkista og mörgum þótt undarlegt að ég sé búin að geyma líkkistu heima hjá mér í nú að verða þrjú ár. Það sem maður gerir ekki fyrir listina.

 

Miða á sýninguna, sem er klukkustundarlöng, má nálgast á Tix.is en tvær sýningar eru fyrirhugaðar, 31. mars og 1. apríl. Þær kunna þó að verða fleiri ef aðsókn er góð.

 

 

 

 

 

 

 

 

Tengt efni