KALDALJÓS VIGDÍSAR EIN AF ÁHRIFAMESTU SKÁLDVERKUM 'ÁTTUNNAR'
Júnímánuður er helgaður öllu því sem viðkemur níunda áratug liðinnar aldar ("áttunni") á Rás 2 í Ríkisútvarpinu. Þar er aðallega verið að spá í tónlist áratugarins en vefútgáfa RUV tekur þátt með því að velja áhrifamestu skáldverkin frá þessum tíma. Hér er bæði um innlend og erlend skáldverk að ræða.
Íslensku skáldverkin sem talin eru vera áhrifamest á þessum áratug eru Kaldaljós eftir Vigdísi Grímsdóttur og þríleikur Einars Kárasonar um fjölskyldu Karólínu spákonu, sem hófst með Þar sem djöflaeyjan rís.
Um Kaldaljós segir:
Vigdís Grímsdóttir vakti athygli með skáldsögunni Kaldaljós (1982) og skrifaði sig á blað með virtustu höfundum þjóðarinnar. Sá heimur sem Vigdís skapar í verkum sínum er jafnan harður og ögrandi, fullur af ójöfnuði. Oft og tíðum er umfjöllunarefnið óþægilegt og stuðandi þar sem kjarninn er samspil samfélags og einstaklings, listar og lífsins.
Grímur Hermundsson stundar myndlistarnám í Reykjavík. Hann er þjakaður af hörmungum sem hann mátti þola í æsku og fortíðardraugarnir koma í veg fyrir að hann geti tekist á við tilveruna. Þegar ástin knýr á dyr þarf hann að finna leiðir til að sættast við liðna tíð og horfa fram á veginn. Ljóðræn saga á mörkum raunsæis og furðu.
Erlendar skáldsögur eftir konur, sem nefndar eru, eru tvær: Hús andanna eftir Isabel Allende og Purpuraliturinn eftir Alice Walker. Þá eru einnig nefndar Söngvar Satans eftir Salman Rusdie og ýmsar hryllingssögur Stephens King.
Svona bókalistar eru skemmtilegur samkvæmisleikur og sýnist sitt hverjum. Valið á íslensku bókunum er ágætt en hefði þó verið enn betra ef listinn hefði verið lengri og fleiri íslensk verk nefnd. Þá er valið á erlendum skáldverkum einskorðað við verk skrifuð á ensku. Hvað varðar innlend skáldverk má minna að á níunda áratugnum kom út Tímaþjófur Steinunnar Sigurðardóttur, sem ætti svo sannarlega heima á þessum lista, og það sama gildir um Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur. Þá má nefna að á þessum áratug komu út þrjú skáldverk eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur og fleiri merk skáldverk mætti telja til. Það besta við svona úrvalslista er að þeir skapa umræður um valið og hvað fólki finnst helst vanta!