AFMÆLI, AFMÆLI!
Í gær fagnaði Þórunn Jarla Valdimarsdóttir 69 ára afmæli sínu og í dag er Steinunn Sigurðardóttir 73 ára. Þessar tvær stórskáldkonur eru því báðar fæddar í merki MEYJUNNAR.
Meyjur eru sagðar duglegar og hagnýtar, þær hafa mikla andlega orku og eru fljótar að hugsa. Allt eru þetta eiginleikar sem hljóta að nýtast vel til ritstarfa, enda hafa þær Þórunn og Steinunn ekki legið á liði sínu á ritvellinum og eru meðal bestu og afkastamestu höfundum Íslands.
Þórunn hefur hrærst jafnhliða í fræðimennsku og skáldskaparskrifum og oft leikið sér á mörkum þessa tveggja. Á ritaskrá hennar eru 26 bækur, þar af þrjár ljóðabækur og tíu skáldsögur (ein skrifuð með Megasi). Fræðirit og ævisögur hennar eru tólf talsins en stundum blandar Þórunn þessu tvennu saman á frjósaman og skemmtilega máta. Nýjasta verk Þórunnar var safn hugleiðinga sem ber titilinn Lítil bók um stóra hluti en um þessar mundir vinnur hún að sjálfsævisögu sinni.
Steinunn Sigurðardóttir hefur sent frá sér ellefu frumsamdar ljóðabækur og eitt ljóðasafn, þrettán skáldsögur, tvö smásagnasöfn, tvær ævisögur og barnabók. Og þá eru ótalin leikverk fyrir sjónvarp og útvarp. Síðast verk hennar var ljóðabókin Tíminn á leiðinni og verður spennandi að sjá hvar hún ber niður næst.
Marga ritdóma um verk Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur og Steinunnar Sigurðardóttur má lesa á Skáld.is og hér fyrir neðan eru tenglar á nokkra þeirra.
Skáld.is óskar Þórunni Jörlu og Steinunni hjartanlega til hamingju með afmælið og vonar að þær eigi báðar eftir að halda lengi áfram að auðga íslenskar bókmenntir.