ÁRSRITIÐ SÓN KOMIÐ ÚT
SÓN, tímarit um ljóðlist og óðfræði er komið út, stútfullt af áhugaverðu efni. SÓN kemur út einu sinni á ári og inniheldur ný ljóð og ljóðaþýðingar, greinar um samtímaljóðlist og eldri ljóðlist og ítarlega ritdóma um nýlegar ljóðabækur og óðfræðirit.
Mynd á kápu er eftir Þórunni Valdimarsdóttur, en hún hélt nýverið sýningu á sínum skemmtilegu og litríku teikningum.
Sónarskáldið í ár er Gyrðir Elíasson og birtir hann hér fjögur ný ljóð.
Önnur ljóðskáld sem eiga ljóð í þessu hefti eru Guðrún Hannesdóttir, Kristrún Guðmundsdóttir, Hylur Hörður, Ísak Regal, Arndís Þórarinsdóttir, Gunnar Randversson og Stefán Snævarr. Auk þess eru birtar nýjar þýðingar á ljóðum eftir þýska skáldið Heinrich Detering (þýðandi Jón Bjarni Atlason) og rómverska fornskáldið Katúllus (þýðandi Ægir Þór Jähnke).
Ritrýndar greinar eru tvær. Önnur eftir Auði Aðalsteinsdóttur, sem fjallar um ljóðabækur Hauks Ingvarssonar, Vistarverur og Menn sem elska menn með aðferðum vistrýni, og hin eftir Katelin Marit Parsons, sem fjallar um Vestur-Íslendinginn Tóbías Tóbíasson og gamanrímu hans Fjórmenningaför, sem einnig er birt í heftinu.
Umræðugreinar eru þrjár: Þórður Helgason kynnir bragarháttinn triolettu og fjallar um landnám hans í íslenskri ljóðahefð; Unnur Bjarnadóttir kynnir japönsku bragarhættina hækur og tönkur og Þorgeir Sigurðsson fjallar um miðaldasálminn Veni Creator Spiritus og íslenska gerð hans sem er elsta íslenska sálmaþýðingin og eina dróttkvæði ljóðaþýðingin til forna.
Af Boðnarþingi er birt eitt erindi; Hvað þýðir að þýða ljóð eftir Ægir Þór Jähnke.
Þá er í heftinu mikill fjöldi ítarlegra ritdóma um nýlegar ljóðabækur og þrjú óðfræðirit.
Ritstjóri SÓNAR er Soffía Auður Birgisdóttir og má hafa samband við hana (soffiab@hi.is) til þess að gerast áskrifandi að tímaritinu. Allir sem vilja veg ljóðsins sem mestan ættu að gerast áskrifendur og renna þannig styrkari stoðum undir útgáfu þessa einstæða íslenska tímarits!