SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir31. janúar 2023

SÓN - TÍMARIT FYRIR UNNENDUR LJÓÐLISTARINNAR

Rétt fyrir áramótin kom út tímaritið SÓN, tímarit um ljóðlist & óðfræði, sem gefið er út af Óðfræðifélaginu Boðn. Um er að ræða vandað rit, eina íslenska tímaritið sem er alfarið helgað ljóðlist og ættu þeir sem unna ljóðum endilega að gerast áskrifendur svo ritið lifi áfram og blómstri.

Í kynningu á SÓN segir:

 

Són, tímarit um ljóðlist og óðfræði, kemur út árlega og birtir ritrýndar rannsóknargreinar og yfirlitsgreinar um hvaðeina á sviði ljóðlistar, skáldskaparmála og bragfræði. Þetta köllum við einu nafni óðfræði. Auk þess birtir tímaritið ritstýrðar umræðugreinar og smágreinar á sama sviði, umfjöllun og ritdóma um ljóðabækur og fræðirit. Á milli greina eru frumbirt ljóð eða ljóðaþýðingar skálda sem leitað hefur verið til. Sérstakan heiðurssess skipar Sónarskáldið hverju sinni með fyrsta ljóð hvers heftis. Són birtir jöfnum höndum háttbundin ljóð og ljóð í frjálsu formi. Leiðbeiningar til þeirra sem hafa hug á að skrifa greinar er að finna á vefsíðu Óðfræðifélagsins Boðnar, bodn.is, en Boðn er útgáfufélag Sónar.

 

 

SÓN hefur komið út í tuttugu ár og mjög er vandað til útgáfunnar. Forsíðuna prýðir myndlistarverk, í þetta sinn eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Ritstjórar eru Árni Davíð Magnússon, Helga Birgisdóttir og Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík.

 

Sónarskáldið í þessu hefti er Þórdís Gísladóttir og nýtt ljóð eftir hana, „Engin undankomuleið“, opnar heftið. Ljóðið fjallar um það sem enginn fær flúið, dauðann. Eins og Þórdísar er von og vísa er þetta frumlegt ljóð með óvæntu sjónarhorni, alvarlegu, kómísku og grótesku í bland. Auk ljóðs Þórdísar eru birt ljóð eftir Ísak Regal, Ægi Þór Jähnke og Ester Hilmarsdóttur í þessu hefti og ein ljóðaþýðing eftir Atla Harðarson, á mögnuðu ljóði eftir enska skáldið Wilfred Owen.

 

Þrjár fræðigreinar birtast í SÓN að þessu sinni, allar eftir konur. Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir fjallar í ritrýndri grein um vinsældir, áhrif og erindi Vísnabókarinnar sem flest íslensk börn þekkja. Soffía Auður Birgisdóttir fjallar um ljóðabók Þóru Jónsdóttur, Línur í lófa, og rýnir í ljóðatvennur Þóru sem gefa innsýn inn í skáldskaparaðferð hennar, og Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir fjallar um kveðskap Einars Jónssonar frá Leirárgörðum og menningarstrauma við Leirá. Auk þess eru birt hér tvö erindi frá Boðnarþingi síðasta árs - en það eru málþing sem félagið stendur fyrir árlega - eftir Hauk Ingvarsson og Soffíu Bjarnadóttur.

SÓN leitast við að birta ritdóma um  nýjar ljóðabækur og að þessu sinni eru umsagnir um þrettán ljóðabækur sem komu út á nýliðnu ári:

 

Við lútum höfði fyrir því sem fellur, eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur.
Spádómur fúleggsins, eftir Birtu Ósmann Þórhallsdóttur.
Álfheimar, eftir Brynjar Jóhannsson.
Núningur, eftir Elínu Eddu.
Ísland pólerað, eftir Ewu Marcinek.
Meinvarp, eftir Hildi Bolladóttur.
Tíminn á leiðinni, eftir Steinunni Sigurðardóttur.
Öræfanna andar svífa, eftir fimm systkini frá Heiðarseli á Jökuldalsheiði.
Úti bíður skáldleg veröld, eftir Jakub Stachowiak.
Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir, eftir Jón Kalman Stefánsson.
Eintal við tungl, eftir Sigurð Örn Guðbjörnsson.
Lofttæmi, eftir Nínu Þorkelsdóttur.
ans ) Utan ( svig, eftir Ægir Þór Jähnke.

 

Skáld.is hvetur alla sem vilja veg ljóðlistarinnar sem mestan til þess að gerast áskrifendur af SÓN. Áskrift kostar 3990 krónur á ári og hana má panta með því að hafa samband við gjaldkera félagsins, Hauk Þorgeirsson (haukur.thorgeirsson@arnastofnun.is). Einnig er hægt að eignast eldri eintök af tímaritinu.

 

 

 

 

 

Tengt efni