KRISTÍN OG RÁN VERÐLAUNAÐAR
Í gær var tilkynnt hvaða verk hlutu Íslensku bókmenntaverðlaunin en þau komu í hlut tveggja kvenna, Kristínar Ómarsdóttur og Ránar Flygenring og óskar Skáld.is þeim innilega til hamingju.
Í flokki skáldverka hlaut Kristín Ómarsdóttir verðlaunin fyrir bók sína Móðurást: Draumþing en umsögn dómnefndar hljóðar svo:
„Móðurást: Draumþing, skálduð ævisaga langömmu Kristínar, er fallega stíluð saga liðinna kynslóða á ofanverðri nítjándu öld. Framsetningin er brotakennd og ljóðræn og sýnir nýstárlega nálgun við ritun sögulegrar skáldsögu. Höfundi tekst listilega að skapa sögusvið sem er í senn framandi og kunnuglegt, einangrað og opið og veita innsýn í brothætt sálarlíf unglingsstúlku sem stendur á þröskuldi fullorðinsára og nýrra kennda, bundin af öllum þeim væntingum og takmörkunum sem samfélag hennar býr henni. Jónsmessunóttin, sem rammar frásögnina inn, leggur yfir hana blæ töfra og annarleika sem samræmist einkar vel hálfsögðum sögum og því sem liggur á milli lína“.
Í flokki barna- og ungmennabóka hlaut Rán Flygenring verðlaunin fyrir bók sína Tjörnin og er umsögn dómnefndar eftirfarandi:
„Tjörnin er marglaga saga um undraveröld mitt í hversdegi barna sem finna uppþornaða tjörn í garðinum sínum, sem síðan fyllist lífi. Bókin hentar börnum á öllum aldri jafnt sem fullorðnum og er endalaus uppspretta samtala og nýrra uppgötvanna, alveg eins og sjálf tjörnin. Komið er inn á margvísleg viðfangsefni, svo sem vináttu, eignarrétt, stjórn, samvinnu og jafnvel auðlindanýtingu, en allt undir formerkjum ævintýrisins og leiksins. Ímyndunaraflið ræður för í fjörlegum myndum og vinna þær og textinn vel saman auk þess sem einstakur myndheimur Ránar bætir miklu við texta sögunnar. Tjörnin er fallegt og skemmtilegt verk sem lesandinn getur sökkt sér í og sagan dýpkar með hverjum lestri,“
Að auki hlaut Guðjón Friðriksson verðlaun, í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis, fyrir bók sína Börn í Reykjavík og Stefán Máni hlaut Blóðdropann fyrir bók sína Dauðinn einn var vitni.
Verðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og verðlaunahafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna hlutu einnig gripinn Blængur eftir myndlistarmanninn Matthías Rúnar Sigurðsson.