SÓN 2025 VÆNTANLEGT - HUGAR AÐ ÓLGU DAGSINS EN SINNIR LÍKA ELDRI LJÓÐLIST

SÓN, tímarit um ljóðlist og óðfræði er á leiðinni í prentun og verður kynnt á Bókamessu í Hörpu um helgina, þar sem óðfræðifélagið BOÐN, sem stendur að tímaritinu, verður með kynningarbás og áskriftarsöfunum - og eldri hefti verða til sölu.
SÓN er ársrit og birtir greinar á sviði ljóðlistar og skáldskaparfræða, ný ljóð og ritdóma.
Sónarskáldið í ár er Kristín Ómarsdóttir sem birtir sjö ný ljóð en auk þess eru ljóð eftir sex önnur íslensk skáld í tímaritinu í ár.
Magnað ádrepuljóð eftir Emily Gorcensky mun vafalaust vekja athygli, það fangar vel þá undarlegu tíma sem við lifum á.
SÓN 2025 hverfist að miklu leyti um samtímaljóðlist en varpar líka ljósi samtímans á eldri ljóðlist. Þannig sinnir tímaritið hlutverki sínu, hugar að liðnum tímum en líka ólgu dagsins.
Í þessu hefti er að finna ítarlega grein þar sem rýnt er í hlutskipti íslenskra ljóðskálda nú á dögum og hugað að þeim breytingum sem hafa átt sér stað í útgáfu ljóðabóka á Íslandi síðustu áratugina. Fjallað er sérstaklega viðamikla sjálfsútgáfu íslenskra ljóðskálda.
Greinin er góður upptaktur að þeim fjölda umsagna um ljóðabækur sem eru í þessu hefti og hafa aldrei verið fleiri. Fjallað er um 44 ljóðabækur, þar af 36 frumsamdar, sex ljóðaþýðingar og tvö ljóðasöfn.
Ein ritrýnd grein er í SÓN að þessu sinni og henni mætti lýsa sem fræðilegum hugleiðingum sem sprottnar eru af hendingunni „Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur“ í Sofðu, unga ástin mín en hún verður höfundum kveikja hugleiðinga sem tengjast jöklum, ekki síst hopun þeirra og loftslagsbreytingum.
Þá er í heftinu merkilegt fræðslukvæði í rímnabúningi frá nítjándu öld sem fjallar um getnað, meðgöngu, fæðingu og fæðingarhjálp.
Hægt er að gerast áskrifandi að SÓN hjá ritstjóra, Soffíu Auði Birgisdóttur (soffiab hjá hi.is).

