SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir19. desember 2023

SÓN, TÍMARIT UM LJÓÐLIST OG ÓÐFRÆÐI KOMIÐ ÚT

Ársritið SÓN, sem er alfarið helgað ljóðlist allra alda er nýkomið út. Tímaritið birtir áður óbirt ljóð og ljóðaþýðingar, ritrýndir fræðigreinar, óritrýndar greinar sem kallast óðflugur og umræðugreinar, og fleira og fleira. Á hverju ári er íslenskt ljóðskáld í heiðurssæti og SÓNARSKÁLDIÐ í ár er Linda Vilhjálmsdóttir, þrjú ný ljóð eftir hana eru birt í SÓN að þessu sinni.

Af öðru efni í þessu hefti má meðal annars nefna minningargrein Gyrðis Elíassonar um Ísak Harðarson og viðtal Þorvaldar S. Helgasonar við upphafsmenn SÓNAR, Kristján Eiríksson og Þórð Helgason, sem tekið var í tilefni þess að tímaritið á tuttugu ára afmæli í ár.

SÓN birtir einnig ritdóma um nýlegar ljóðabækur og eru 18 ritdómar í heftinu að þessu sinni um ljóðabækur eftir Anton Helga Jónsson, Beini Bergsson (þýð. Guðrún Brjánsdóttir), Birnu Stefánsdóttur, Elías Knörr, Gyrði Elíasson, Hönnu Óladóttur, Hörpu Rún Kristjánsdóttur, Kristján Hrafn Guðmundsson, Magnús Jochum Pálsson, Melkorku Ólafsdóttur og Hlíf Unu Bárudóttur, Njörð P. Njarðvík, Ólaf Svein Jóhannesson, Óskar Árna Óskarsson, Ragnheiði Lárusdóttur, Sigrúnu Björnsdóttur, Steinunni Ásmundsdóttur og Sunnu Dís Másdóttur.

Kápumynd SÓNAR er eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur og er myndin úr Pöddu-myndaseríu Elísabetar sem var sýnd á Bókasafni Hveragerðis fyrr á árinu. Paddan á forsíðunni minnir á bjöllu Kafka og umbreytingarafl skáldskaparins.

Ritstjóri SÓNAR er Soffía Auður Birgisdóttir og þeir sem vilja gerast áskrifendur af þessu vandaða og fróðlega ársriti geta haft samband við hana (soffiab hjá hi.is), áskrift kostar 4500 kr. á ári. Á bak við SÓN stendur félagið BOÐN sem auk þess að gefa út tímaritið stendur að málþingum um ljóðlist og óðfræði.

 

Tengt efni