OG ÉG ÞJÓNAÐI HUGMYND MINNI UM FULLKOMLEIKA LISTAR MINNAR MEÐ HÖNDINA Á KAFI Í RUSLI
Um Stúlkuna í skóginum eftir Vigdísi Grímsdóttur
(Greinin birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 1993.)
Í skáldsögunni Ég heiti Ísbjörg. Ég er ljón sem kom út 1989 kannar Vigdís Grímsdóttir innviði hugtaka á borð við sekt og sakleysi, réttlæti og ábyrgð, orsök og afleiðingu, gott og illt. Sú könnun var beitt og óvægin og reyndist ganga nærri mörgum lesendum sögunnar. Þær spurningar sem leynast á milli lína í bókinni um Ísbjörgu eru flestar siðfræðilegs eðlis settar í félagslegt samhengi, með öðrum orðum, af texta Vigdísar hljóta meðal annars að spretta hugleiðingar um ábyrgð okkar á náunganum; um ábyrgð samfélagsins á einstaklingnum; um forsendur réttlætishugmynda okkar og um uppbyggingu réttarkerfisins. Í skáldsögunni Stúlkan í skóginum sem kom út í fyrra heldur Vigdís Grímsdóttir áfram sinni siðfræðilegu íhugun, en nú snýr hún spjótunum inn, beinir þeim að sjálfri sér — að listamanninum. Þetta gerir hún á hugrakkan og heiðarlegan hátt með beinni sjálfsvísun í textanum. Þær spurningar sem hér svífa yfir síðum varða ábyrgð listamannsins, spyrja um rétt hans og skyldu gagnvart gáfu sinni og viðfangi. Einnig er spurt um gildismat og stöðu listarinnar í samfélagi okkar.
Hér á eftir ætla ég að leiða nokkuð saman þessar tvær síðustu skáldsögur Vigdísar þótt umfjöllun minni sé fyrst og fremst ætlað að vera ritdómur um Stúlkuna í skóginum. Það kann að vera meinloka hjá mér að þessar tvær sögur séu nokkurs konar samloka, en þannig kýs ég að lesa þær. Í þessum tveimur sögum er Vigdís að kanna tvær hliðar á sama peningi ef svo má að orði komast. Jafnframt útfærir hún nánar í Stúlkunni í skóginum hugmyndir sem finna má í Ég heiti Ísbjörg. Ég er ljón en eru þar í bakgrunni. Reyndar má rekja ákveðnar hugmyndir og ákveðin einkenni á þessum sögum Vigdísar lengra aftur í enn eldri verk hennar; þau eru höfundareinkenni, nokkurs konar áritun þessa höfundar sem sannar með hverju nýju verki sína einstöku gáfu.
Ég heiti Guðrún
Stúlkan í skóginum segir sögu af miðaldra utangarðskonu, Guðrúnu Magnúsdóttur, sem býr ein í kjallaraherbergi á Bræðraborgarstígnum. Guðrún hefur á unga aldri afmyndast líkamlega af völdum torkennilegs sjúkdóms, er ófær til vinnu og hefur dregið sig út úr samfélagi við aðra. Hún lifir fábreyttu, einangruðu en vanaföstu lífi að því er virðist í sátt við hlutskipti sitt. En þótt hversdagslíf Guðrúnar sé fábreytt og líkaminn afskræmdur er hugarheimur hennar og það líf sem þar leynist engu líkt. Innra líf Guðrúnar er ríkulegt og gjöfult; í hugskoti hennar býr heill táknheimur sem hún getur horfið til þegar hún svo kýs. Umgjörð þessa heims er skógur, gróðursæll og fagur. Í skóginum búa tilfinningar Guðrúnar „hver um sig tré, nært af mold og lofti" (bls. 8), þar eru vötn, lækir og fossar og þar búa rauðir fuglar hugsana Guðrún[1]ar og Fuglastúlkan vinkona hennar og annað sjálf (alter ego). Skógurinn er hugarfylgsni sem Guðrún getur flúið til í vandræðum sínum eða leitað til sér til hugarhægðar og dægrastyttingar. Tök Vigdísar á viðfangsefninu koma berlega í ljós í samfléttan hennar á þessum tveimur heimum, hinum ytri og hinum innri, og þar nýtur hinn ljóðræni stíll hennar sín hvað best.
Á hverjum degi smyr Guðrún sér nesti og leggur í langa göngutúra um borgina með það fyrir augum meðal annars að sinna áhugamáli sínu, bókasöfnuninni. Guðrún safnar bókum og verður sér úti um þær í ruslatunnum borgarinnar. Bækurnar elskar Guðrún fölskvalaust og úr hverri og einni lærir hún utanbókar nokkrar línur sem oft vitja hennar síðar þegar aðstæður eða hugsanir og tilfinningar hennar kalla þær fram. Guðrún man fundardag og fundarstað bóka sinna en titla og nöfn höfunda man hún ekki.
Þegar sagan hefst hafa gerst þau undur í lífi Guðrúnar að hún hefur þegið kaffiboð hjá bláókunnri konu, Hildi Sigurðardóttur, sem býr á Brávallagötunni. Snemma í sögunni situr Guðrún í eldhúsi Hildar og verður litið á gólfið:
Ég horfði á gólfflísarnar og sá svarta pöddu með þykkan rauðleitan búk og ótal granna fálmara skríða yfir flís og út á aðra, nálgast hornið við vaskinn hægt og örugglega en þá lyfti gestgjafi minn hægra fæti, steig feti aftar og paddan varð ljósbrúnn blettur á hvítu gólfinu. Ég leit á hana og sá að hún hafði ekki tekið eftir því sem gerðist. (bls. 31-32)
Þessi málsgrein kallast á við upphafsmálsgrein bókarinnar þar sem Guðrún lýsir sjálfri sér sem grárri þúst í þessu hvíta eldhúsi og sér líkama sinn speglast í gólfflísunum. Hér, eins og víða annars staðar í fyrstu köflum sögunnar, má sjá forboða þess sem koma skal. En ef Hildur kremur pödduna undir fæti sínum óvart og ómeðvitað þá er því þveröfugt farið með samskipti hennar við Guðrúnu; á meðvitaðan skipulagðan hátt „kremur“ Hildur Guðrúnu „undir fæti sér“ og svífst þar einskis.
Hildur er listakona. Hún býr til brúður sem eru einstakar í sinni röð, búnar til eftir mannlegum fyrirmyndum og útbúnar tækjum sem gefur hverri og einni ákveðna hreyfingu eða „líf“. Hildur hefur sett sér það takmark að skapa meistaraverk, hina fullkomnu brúðu, brúðu með mannshjarta sem slær knúið tækjum. Þetta takmark virðist vera sprottið upp af særðri metnaðargirnd listakonunnar sem fékk ekki nógu góða dóma fyrir sína fyrstu sýningu. Tilgangur hennar virðist vera fyrst og fremst að svala hégómagirnd sjálfrar sín, fá hrós gagnrýnenda og „verðskuldaða fullnægju“ (bls. 243). Það eina sem Hildi vanhagar um er fórnarlamb, lifandi manneskja sem getur látið listakonunni í té hjarta sitt í þágu listarinnar. Og hér kemur utangarðskonan Guðrún í „góðar þarfir“.
Ég er ljón
Guðrún Magnúsdóttir er fædd 15. ágúst 1945. Kaffiboðið á sér stað þann 16. ágúst 1991 og er Guðrún því þegar frásögnin hefst nýorðin 46 ára. Hún er ljón — eins og Ísbjörg. Nafn Ísbjargar og stjörnumerkið mynda saman táknmynd kulda, hörku og styrks sem eru ráðandi eiginleikar í ytra lífi hennar og áunninni skapgerð. Fljótt á litið kann að virðast að hin ófrýnilega miðaldra Guðrún eigi fátt sameiginlegt með hinni ungu fallegu Ísbjörgu. En þegar nánar er að gáð má leiða marga þætti þessara tveggja persóna saman. Nafn Guðrúnar merkir leyndardóm Guðs og hjá henni birtist styrkur ljónsins í geðprýði, auðmýkt og sátt við lífið og það hlutskipti sem það hefur fært henni. Guðrún og Ísbjörg eru báðar utangarðs í samfélaginu, hvor á sinn hátt. Þær eru báðar bæklaðar. Önnur andlega vegna óheilbrigðs uppeldis og aðstæðna hin líkamlega vegna sjúkdóms. Báðar eru þær einangraðar og sú einangrun leiðir til þess að þær flýja á náðir drauma sinna eða, eins og einnig mætti orða það, sjálf þeirra klofnar. Vigdís Grímsdóttir velur svipaða leið til að gefa þetta til kynna í báðum sögum; munurinn er sá að það sem er í bakgrunni í Ég heiti Ísbjörg. Eg er ljón hefur verið fært í forgrunn í Stúlkan í skóginum og gefur sögunni nafn.
Stúlka í skógi og stúlka á strönd
Eins og ég minntist á hér að framan er skógurinn og sú veröld sem hann hýsir hugarheimur Guðrúnar. Engu að síður er hann jafnrétthár hinum ytri heimi, raunheiminum, í frásógninni. Vigdís Grímsdóttir gengur hér lengra en í flestum öðrum verkum sínum í að þurrka út mörk draums og veruleika. Þessi mörk hafa alltaf verið óljós í bókum Vigdísar en í Stúlkunni í skóginum hafa þau verið endanlega fjarlægð. Skógurinn er órjúfanlegur hluti af tilveru Guðrúnar og stúlkan í skóginum er alltaf til staðar. Stúlkan í skóginum er Fuglastúlkan vinkona Guðrúnar og hluti af henni sjálfri. Guðrún setur oft upp samtöl á milli Fuglastúlkunnar og sjálfrar sín og notar 1. persónu, fleirtölu: „Við urðum 46 ára í gær“ (bls. 129). Þannig er Fuglastúlkan ætíð nálæg, ólíkt stúlkunni á ströndinni sem er bældur hluti af sjálfi Ísbjargar.
Við afdrifarík hvörf í lífi Ísbjargar og þegar illskan sem Ísbjörg hefur tileinkað sér og ásett sér að rækta er að sliga hana birtist henni stúlka á strönd. þetta gerist fyrst þegar Ísbjörg er 8 ára og stendur yfir líki föður síns sem hefur skorið sig á púls. Þá „hófst saga sem síðar átti eftir að heltaka“ Ísbjörgu, eins og segir í bókinni, upphaf nýs lífs. Stúlkan birtist Ísbjörgu næst þegar hún er ellefu ára og hefur orðið fyrir sinni fyrstu nöturlegu kynlífsreynslu, því næst þegar hún hefur misþyrmt Vilhjálmi frænda sínum til að leiða hann í allan sannleikann um skuggahliðar lífsins og þá skynjar Ísbjörg fyrst að stúlkan á ströndinni er hún sjálf:
. . . hlátur sæsorfnu stúlkunnar hljómar í mínum eigin barka. Þeytist upp í hálsinn. Skýst um í munnholinu. Hringsnýst þar uns hann stingur sér aftur á kaf ofan í mig. Ég finn að ég er einsog hún. Ég er einsog þessi stúlka. Ég er ekki aðeins Isbjörg heldur líka einsog stúlka á strönd á fjarlægri eyju. (bls. 179)
Eftir það getur Ísbjörg kallað til sín sæsorfnu stúlkuna þegar hún þarf á henni að halda. Það gerir hún þegar hún hefur selt líkama sinn í fyrsta sinn og einnig þegar „viðskiptavinur“ hennar þröngvar upp á hana ástarjátningu. Ströndin er athvarf Ísbjargar sem hún leitar til þegar veruleikinn verður óþolandi. Stúlkan hún sjálf eða sá hluti sjálfs hennar sem geymir það góða og óspillta:
Hún er gleði mín. Mín einkablekking sem kemur til mín og lagar allt í lífinu sem hefur farið aflaga. Það er von mín sem býr í stúlkunni. Styrk von sem svæfir myrkrið. Óttann (bls. 208).
Í lok bókarinnar ákallar Ísbjörg stúlkuna á ströndinni sem kemur til hennar og tekur í hönd hennar og leiðir hana með sér burt úr grimmum veruleikanum til strandar sinnar þar sem þær renna saman. Þannig hverfur Ísbjörg inn í eigin draum líkt og Grímur í Kaldaljósi, fyrstu skáld[1]sögu Vigdísar, hverfur í bókarlok inn í eigið listaverk á vit framliðinnar fjölskyldu sinnar og líkt og Guðrún, stúlkan í skóginum, hverfur að lokum alfarin til skógar síns .. . — eða hvað? Síðasta málsgrein Stúlkunnar í skóginum kallast á við þá fyrstu og lokar þar með hring[1]erlinu, sem er að verða eitt af höfundareinkennum Vigdísar Grímsdóttur. Hér hafa þó þær breytingar orðið að textinn í bókarlok, sem er sá sami og bókin hefst á, er skáletraður. Þetta er merkingarbært þar sem í sögunni eru aðeins skáletraðar tilvitnanir í aðra eða þær línur sem Guðrún lærir utan að úr bókunum sem hún finnur í ruslinu. Lokalínur sögunnar eru þannig:
Og ég vissi ekki þá hvort þetta var allt saman draumur en mér fannst allt í einu einsog ég sæti á rúminu heima hjá mér og væri nýkomin úr gönguferð. Og ég var að lesa og fuglarnir mínir sátu á sænginni, höfði mínu og öxlum og sungu orðin með mér. — Viltu kaffi, spurði hún. — Já, svaraði ég. Ég horfði á líkama minn speglast í gljáandi gólfflísunum. Spegilmynd gestgjafa míns sá ég ekki . . . Ég mundi ekki hvenær ég hafði fundið þessa bók en það gerði ekkert til, það kæmi til mín seinna. (bls. 259)
Um leið og lesandi Stúlkunnar í skóginum lýkur lestri bókarinnar er gefið í skyn að Guðrún sé að byrja að lesa sömu bók. Þannig endar Vigdís Grímsdóttir enn einu sinni skáldsögu áfullkomlega tvíræðan hátt og skilur lesanda eftir ringlaðan. Hvað gerðist í þessari sögu? Myrti Hildur Guðrúnu í þágu listar sinnar? Eða er öll sagan heilaspuni Guðrúnar? Hver er Hildur? Hefur Vigdís Grímsdóttir leyfi til að fara svona með lesendur sína?
Að varðveita líf bóka
Í fjórða kafla Stúlkunnar í skóginum (sem ber það mótsagnakennda nafn „Ég var ekki persóna í bó“") er að finna athyglisvert bréf sem Guðrún skrifar í huganum til Hildar.
Mér fannst einsog þú þyrftir að vita hvernig málum mínum væri háttað. Ferðalag mitt var farið þín vegna. Ég lagði af stað án þess að velta því fyrir mér hvers vegna ég gerði það eða hugsa um hvert för minni væri raunverulega heitið. Ég lagði bara af stað til þín þótt ég þekkti þig ekki og þrátt fyrir að ég vissi ekki hvaða erindi þú ættir við mig. Ég hlýddi bara kalli þínu. Ég vissi hvar þú bjóst en ég var ekki búin að gera mér í hugarlund hvernig fylgsni þitt var. Og ég þekkti ekki háttu þína. Ég var hin ókunnuga og þig hafði ég aldrei séð áður. Samt lagði ég af stað til þín berfætt með hvíta fætur. Og það var þín vegna sem ég leit í spegilinn og skildi ekki hvers vegna ég var svona ólík sjálfri mér. Ég hrökk við vegna þess að ég hafði aldrei séð mig með þínum augum og ég vissi líka að það var ekki hægt. Ég hafði þegið boð þitt og notið sopanna en þegar ég kaus að fara komst ég hvergi. (bls. 32)
Þetta bréf er hægt að lesa á táknrænan hátt sem lýsingu á sambandi lesenda og texta/höfundar. Á einu sviði fjallar Stúlkan í skóginum um tilgang bókmennta í víðasta skilningi, um samband lesanda og texta, um samband lesanda og skálds. í vissum skilningi erum við gestir í boði hjá listamanni þegar við lesum verk hans. Listamaðurinn býður okkur í hús sitt og vekur okkur gleði, nauta, ótta og þjáningu líkt og fór hjá Guðrúnu í kaffiboðinu hjá Hildi. Á öðru sviði er þessi skáldsaga óður til bókmenntanna. Í skógi Guðrúnar eru mörg græn tré en þar er líka eitt tré sem ber af öðrum og það tré er gyllt:
Í gylltu tré vakti tilfinning míns helgasta dags, sú sem gerði mig gæfukonu. Það var tilfinningin fyrir tilgangi lífs míns, tré hennar konungur meðal konunga, fegurst alls sem var (bls. 68). Tilgangur lífs Guðrúnar er „að varðveita líf bókanna.“ (bls. 77)
— Og hér á þessari síðu hef ég tekið saman bestu spurningarnar og svörin úr viðtölunum fjórum og búið til eitt langt viðtal. Á þennan hátt hef ég sjálf endurunnið og lagt minn eigin kraft í viðtölin við sjálfa mig. Og í endurunna viðtalinu er allt sem skiptir máli um mig í réttri tímaröð. (bls. 193)
Allt sem skiptir máli um Hildi er að finna í fjölmiðlaviðtölum. Á meðan listamaðurinn brosir sjálfumglaður á síðum fjölmiðlanna er listinni fleygt í ruslið. Nafnleysið á „tilvitnunum“ í bók Vigdísar er líka hugsanlega gildra fyrir lesendur og ritdómara sem reyna að bera kennsl á línurnar, finna höfundinn. Út úr þessari framsetningu má lesa þá skoðun að það séu bókmenntirnar (listin) sem skipta máli en ekki rithöfundurinn (listamaðurinn). Það er óneitanlega sjónarmið sem stangast á við ríkjandi viðhorf í íslenskri menningarumfjöllun þar sem kastljósið beinist meira að höfundum en verkum þeirra.
Ef Vigdís Grímsdóttir er í þessari skáldsögu sinni að benda okkur á brotalamir í gildismati okkar og umgengni við listina, þá er hún ekki síður að benda listamönnum á að týna ekki sál sinni í eftirsókn eftir vindi; að gleyma ekki tilgangi listarinnar sem hlýtur að vera í ætt við að nálgast kjarna tilverunnar án þess að missa sjónar af hinum mannlega þætti. Vigdís varar listamanninn (sjálfa sig) við að fara ekki offari, taka sér ekki (al)vald skaparans — að viðurkenna takmörk sín. Sá sem seilist of hátt má eiga á hættu að falla lágt. Hildur svífst einskis í þágu listarinnar, hún notar manneskjur og hyggur á morð, hún þjónar hugmynd sinni um fullkomleika listar sinnar með höndina á kafi í rusli eins og segir í sögunni (bls. 245).
Frjósamur texti
Að mínu mati er Stúlkan í skóginum besta bók Vigdísar Grímsdóttur hingað til. Þetta er mikilvæg bók, frumleg, skemmtileg og áhrifarík. Texti Vigdísar er fallegur, ljóðrænn og margræður. Þessi texti er frjósamur í þeim skilningi að hann býður upp á ótal túlkunarmöguleika og það sem ég hef rætt hér er aðeins brot af þeim hugleiðingum sem kvikna við lesturinn. Ég hef ekki rætt um hvernig Vigdís leikur sér að hugmyndum tvíhyggju og andstæðusýnar í persónulýsingum Guðrúnar og Hildar. Ég hef ekki rætt um notkun hennar á margvíslegum táknum í textanum þar sem augu og fuglar eru (enn sem fyrr) helstu tákn sem hún notar. Ég hef ekki rætt þann túlkunarmöguleika að Hildur sé einungis hluti af Guðrúnu og hennar hugarheimi. Ég hef ekki rætt til fullnustu þá þræði sem tengja þessa sögu og söguna um Ísbjörgu. En einhvers staðar verður ritdómur að enda — og vettvangur bókmenntaumræðu er víða.