MANNKYNSSAGAN Í FORMI SAMTÍMASKÁLDSAGNA
Um Yfir Ebrófljótið og önnur skáldverk Álfrúnar Gunnlaugsdóttur
(Greinin birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2002)
Allt frá því að Álfrún Gunnlaugsdóttir sendi frá sér sína fyrstu bók, smásagnasafnið Af manna völdum (1982), hefur verið ljóst að hér er á ferðinni höfundur sem ekki fer troðnar slóðir, hvorki hvað varðar söguefni, sögusvið né frásagnartækni. Sögusvið hinna níu sagna bókarinnar eru Ísland, Frakkland, Túnis, Sviss og Spánn. Sögumenn eru ýmist börn, konur eða karlar. Efnið spannar allt frá ást og vináttu til ótta og svika. Í einni sögunni stendur þetta: „Á öllum frásögnum er skipulag; ákveðin tengsl milli persóna og viss samræming í atburðarás. Þessu er öðruvísi farið í lífinu. Minningarnar eru gloppóttar, sjaldan nema smábrot, skyndimyndir á stangli“ (Af mannavöldum, 1982, bls. 109). Kannski er að finna í þessari klausu skýringu á frásagnaraðferð Álfrúnar. Í öllum skáldverkum sínum virðist hún hafna skipulegri frásagnaraðferð og samræmingu í atburðarás. Texta hennar mætti fremur líkja við brot og gloppóttar smámyndir á stangli sem þó smátt og smátt mynda saman þá heildarmynd sem eftir situr í huga lesandans þegar hann hefur flett síðustu blaðsíðunni. Ef til vill er Álfrún að reyna að líkja eftir lífinu með því að brjóta gegn lögmálum klassískrar byggingar sögu, sem kveða á um upphaf, miðju og endi (þ.e.a.s. í þessari röð!). En í nýjasta verki sínu, Yfir Ebrófljótið sem kom út fyrir síðustu jól, nálgast Álfrún hinn hefðbundna epíska frásagnarhátt þó meira en í fyrri sögunum.
Yfir Ebrófljótið er skáldsaga sem gerist að mestu leyti í spænsku borgarastyrjöldinni á fjórða áratug tuttugustu aldarinnar. Þetta sögusvið sem er vissulega framandi í heimi íslenskra skáldsagna þarf kannski ekki að koma á óvart þegar Álfrún Gunnlaugsdóttir á í hlut; Spánn hefur oft komið við sögu áður í verkum hennar – enda bjó hún þar um árabil og stundaði nám. En þó er ekki hægt annað en dást að þeirri dirfsku hennar að lýsa þessum fjarlæga veruleika og ljóst er að miklar rannsóknir liggja að baki skriftunum. Mikið hefur verið skrifað um þetta stríð á Spáni og ótal (erlend) bókmenntaverk og kvikmyndir hafa reynt að lýsa veruleika þess. Á Íslandi kom út bókin Undir fána lýðveldisins. Endurminningar frá Spánarstyrjöldinni eftir Hallgrím Hallgrímsson árið 1941, en Hallgrímur var einn þriggja Íslendinga sem gerðust sjálfboðaliðar í svonefndum Alþjóðasveitum sem voru skipaðar mönnum frá flestum heimshornum (hinir voru Aðalsteinn Þorsteinsson og Björn Guðmundsson). Álfrún byggir verk sitt að hluta á reynslu Hallgríms sem hann lýsir í bók sinni og hún tileinkar skáldsöguna þessum þremur íslensku sjálfboðaliðum. Ef til vill vakir fyrir henni öðrum þræði að reisa þeim minnisvarða um leið og hún segir okkur mannkynssögu í formi samtímaskáldsögu.1
Borgarastyrjöldin á Spáni 1936-1939 er oft nefnt „gleymda stríðið“ þó óhætt sé að fullyrða að hún hafi verið upptaktur að síðari heimstyrjöldinni. Undir forustu Francós með fulltyngi Mússólinis og Hitlers tókst fasistum að brjóta á bak lýðræðisöflin í einu fátækasta landi Evrópu og koma á einræði og harðstjórn með afleiðingum sem áttu eftir að snerta nær alla heimsbyggðina í formi seinni heimsstyrjaldarinnar. Lengst af skiptu ríkisstjórnir Evrópulanda sér ekkert af þróun mála á Spáni, stuðningur kom aðeins frá Stalín sem síðar átti þó eftir að söðla um og gera bandalag við fasistana. En þótt ríkisstjórnirnar aðhefðust ekkert til hjálpar almenningi á Spáni snerti barátta lýðræðisaflanna við almenningi víða um lönd og sjálfboðaliðar fylktust lýðræðishernum til aðstoðar hvaðanæva að. Hinir erlendu sjálfboðaliðar sem mynduðu Alþjóðasveitirnar skiptu tugum þúsunda og komu frá um 50 mismunandi þjóðlöndum. Þúsundir þeirra týndu lífi í þessu vonlitla stríði en fleiri sneru aftur til sinna heimkynna reynslunni ríkari og líklega flestir sviptir þeim hugsjónum sem voru forsenda ferðar þeirra og baráttu og veganesti þeirra í upphafi. Þegar Alþjóðasveitirnar voru formlega kvaddar á Spáni var þeim heitið að þegar „sár stríðsins væru gróin á Spáni skyldu mæður segja börnum sínum frá erlendu sjálfboðaliðunum í Alþjóðasveitunum sem barist hefðu við hlið feðra þeirra“ (410) og þetta loforð hefur Álfrún Gunnlaugsdóttir nú gert að sínu með því að segja okkur á áhrifamikinn hátt, í skáldverki, sögu eins Íslendings sem fór knúinn af hugsjónaeldi að berjast í framandi stríði og sneri aftur sár á líkama og sál, rúinn trúnni á betri heim og réttlæti.
Afneitun og upprifjun
Haraldur, sögumaður verksins, er í senn skálduð persóna og táknmynd allra meðlima Alþjóðasveitanna. Þótt byggt sé á áður nefndum endurminningum íslensks Spánarfara er hér fyrst og fremst um skáldsögu að ræða. Líkt og í Gerplu Halldórs Laxness er frásögn Álfrúnar í senn ítarleg og miskunnarlaus lýsing á hörmungum stríðsreksturs um leið og hún er mögnuð ádeila á fyrirbærið stríð. Hvorug þessara skáldsagna draga nokkuð undan í lýsingum sínum á þeim óhjákvæmilega hryllingi sem stríðsrekstri fylgir og um leið eru þetta bækur sem hafa friðarboðskap fram að færa, án þess þó að honum sé nokkurn tíma þröngvað upp á lesandann.
Þegar frásögn Haraldar hefst er hann gamall maður, kominn að fótum fram en þrjóskast þó við að búa einn, einkasyninum til sárrar hrellingar. Eiginkonan, Hedda, er farin frá honum og sannleikann varðandi brotthvarf hennar forðast Haraldur að horfast í augu við í lengstu lög. „Sannleikurinn“ hefur reyndar reynst honum skeinuhættur á fleiri sviðum og meðal annars hefur hann neitað að horfast í augu við það sem hann upplifði þegar hann barðist í borgarstyrjöldinni á Spáni, þrátt fyrir að hafa gefið einum besta vini sínum og samherja loforð um að bera vitni að stríðinu loknu: „um ástandið eins og það er, ekki eins og blöð segja frá því. Þú verður að segja frá svikunum við lýðveldið, svikum Breta, Frakka, Bandaríkjamanna. Segðu sannleikann. Lofarðu því?“ (435). Loforðið gefur Haraldur spánverjanum Andrési rétt fyrir dauðastund hans. En hann hefur ekki getað staðið við það:
Og loforðið sveik ég. Ég talaði aldrei um reynslu mína á Spáni, ekki einu sinni þótt ég væri hvattur til þess [...] Mér fannst það eins og að kalla fortíðina yfir sig, láta hana lifna að nýju, og það vildi ég ekki. Ég vildi gleyma. Mér var enn ekki orðið ljóst að maður gleymir ekki, heldur lærir að lifa með því sem var, eins og maður lærir að lifa með söknuði. Ég hafði tröllatrú á gleymskunni. En þegar ég hélt að allt hefði þurrkast út kom fortíðin tilbaka í ótrúlega skýrum dráttum. (436)
Lesandi skáldsögunnar Yfir Ebrofljótið hittir Harald fyrir þegar hann er tilbúinn að kalla fortíðina yfir sig og fylgist með honum rifja upp þátttöku sína í stríðinu með landakort og stækkunargler að vopni, á milli þess sem hann baksar einn í íbúð sinni í Reykjavík og verst heimsóknum sonar síns sem lítur til með föður sínum á hraðferð sinni milli heimilis og vinnu. Og frásögn Haraldar er ítarleg og dregst á langinn. Hann lýsir æsku sinni og uppvaxtarárum á Íslandi, hann lýsir ferðalagi sínu til Spánar en ítarlegast lýsir hann herþjálfuninni og átökunum við óvinaher fasistanna. Og síðast en ekki síst lýsir hann því hvernig stríðið leikur hann sem manneskju. Sá Haraldur sem snýr aftur úr stríðinu er ekki sá sami sem fór til Spánar. Ekki svo að skilja að hann hafi svikið hugsjónir sínar, heldur hefur stríðið svikið hann og alla þá sem trúðu á málstað þess. Og það er erfitt að horfast í augu við þann sannleika.
Frásagnaraðferð Álfrúnar í þessu verki er epískari en í tveimur síðustu skáldsögum hennar, Hringsóli og Hvatt að rúnum. Vissulega er ekki fylgt línulegum tíma í frásögninni heldur er reynt að endurskapa á raunsæjan hátt hvernig fortíðin kemur til manns í brotakenndum minningum. Þar að auki er sögumaður farin að gleyma og rugla (sbr. hugmyndir hans um svik eiginkonunnar) og því ekki alveg hægt að treysta frásögn hans. Upprifjun Haraldar á þeim tíma sem hann barðist á Spáni er framan af sögu sífellt rofin með lýsingum af baksi karlsins á nútíðarsviði sögunnar. En eftir því sem lengra líður á frásögnina fækkar þessum innskotum og kaflarnir sem gerast á Spáni lengjast og fá epískari blæ.
Veru Haraldar í lýðveldishernum er lýst af mikilli nákvæmni, jafnvel smámunasemi myndu sumir segja. Hin hæga, nákvæma frásagnaraðferð höfundar í þessu verki hefur merkileg áhrif á lesandann. Við fylgjum hinum ungu og óreyndu sjálfboðaliðum í gegnum herþjálfun og langan aðdragandann að sjálfum átökunum. Áður en þeir þurfa að kljást við óvininn með vanbúnum vopnum sínum þurfa þeir að kljást við framandi landslag og veðurfar, við hungur, þorsta og þreytu, við skít, lús og pestir, við söknuð, ótta og angist. Þeir ferðast fótgangandi fram og aftur um átakasvæðið, oft að því er virðist í tilgangs- og ráðleysi. Þessi langa þrautaganga sjálfboðaliðanna verður um leið þrautaganga lesandans, þó alls kki í þeim skilningi að lesturinn sé þraut, þvert á móti þá sogast lesandinn inn í þennan miskunnarlausa texta og finnur til sterkrar samlíðunar með persónunum. Sjálfum stríðsátökunum er einnig lýst í smáatriðum á svo sannfærandi hátt að furðu sætir. Með þessari frásagnaraðferð tekst Álfrúnu að gera okkur lesendur að þátttakendum í þessu „gleymda“ stríði - og það kalla ég árangursríka fræðslu um mannkynssögu! - jafnvel þótt Álfrún sjálf sé á þeirri skoðun „að starf rithöfundar eigi lítið skylt við fræðslustarf kennara eða uppeldisstarf foreldra, enda hittast höfundur og lesandi í „miðli“ sem byggir á ritmáli, og við köllum list.“[2] En hlýtur það ekki að auka gildi hins listræna texta ef lesandi hans fær meira út úr honum en lestrarnautnina eina og sér - og verður einhvers vísari við lesturinn?
Bútar og brot - reitir og þræðir
Yfir Ebrófljótið er fimmta skáldverk Álfrúnar, en á eftir smásagnasafninu Af mannavöldum komu skáldsögurnar Þel (1984), Hringsól (1987) og Hvatt að rúnum (1993). Þel og Hringsól eiga það sameiginlegt með Yfir Ebrófljótið að í öllum þessum þremur skáldsögum er frásögnin lögð í munn sögumanns sem lítur til baka yfir líf sitt, reynir að raða sínum gloppóttu minningabrotum saman í heillega mynd um leið og hann háir baráttu við gleymskuna, eins og lýst var hér að framan. Þetta eru því öðrum þræði „sjálfsævisögur“ en þó eiga þær lítið skylt við þá bókmenntagrein eins og við þekkjum hana þar sem raunverulegt fólk skrifar (og skáldar) frásögn af eigin ævi. Aftur er hægt að benda á athyglisverða klausu úr fyrstu bók Álfrúnar:
Ég hef alltaf dáðst að fólki sem ritar sjálfsævisögur. Það virðist ekki þurfa að velkjast í vafa. Mér dettur ekki í hug að væna það um lygi eða að það hagræði sannleikanum. Það horfir bara á líf sitt eins og sögu. Það lýtur sögulögmálum. Það vil ég ekki gera (Af mannavöldum, 1982, bls. 110)
Þessa sögumannsrödd virðist mega heimfæra upp á höfundinn sjálfan sem meðvitað brýtur hin klassísku sögulögmál og býður lesendum sínum upp á brotakennda frásögn, búta sem þeir verða að raða saman sjálfir vilji þeir skynja söguna sem heildstæða frásögn eða finna þann þráð sem tengir hin ólíku brot saman. Bútar og þræðir eru reyndar sérstaklega viðeigandi orð þegar kemur að því að lýsa frásagnaraðferð Álfrúnar Gunnlaugsdóttur – og , hún notar sjálf slík orð í verkum sínum. Snemma í skáldsögunni Hvatt að rúnum segir svo um eina sögupersónuna:
[…] hugur stráksins líktist brekáni með ótal reitum, hvernig sem hann reyndi tókst honum aldrei að skoða nema einn reit í senn. Hefði viljað sjá þá alla í sjónhendingu. Honum var það ofviða eins og gefur að skilja. Og þá mér. Einn reitur verður að nægja. (Hvatt að rúnum, 1993, bls. 23)
Víða í skáldsögunni er síðan vísað til þess að „nýr reitur“ taki við um leið og skipt er um sjónarhorn og sögusvið. Frásagnaraðferð Álfrúnar mætti því allt eins líkja við þá list að sauma saman ólíka efnisbúta sem síðan mynda litríkt bútateppi þar sem hver reitur hefur ákveðnu hlutverki að gegna í heildarmyndinni.
Hvatt að rúnum er án efa með flóknari íslensku skáldsögum hvað varðar frásagnartækni en um leið ein af þeim allra mest spennandi sem út hafa komið hérlendis á síðasta áratug. Þetta gildir að minnsta kosti fyrir þá lesendur sem kjósa fremur stöðu virks þátttakanda í því sköpunarferli sem felst í því að lesa, engu síður en í því að skrifa, heldur en að vera óvirkir þiggjendur – sem getur þó vissulega falið í sér mikla lestraránægju líka. Franski táknfræðingurinn Roland Barthes talaði um tvenns konar lestraránægju sem lesendur fengju út úr því að lesa skáldverk: Í fyrsta lagi ánægju (f. plaisir, e. pleasure) sem hlytist af lestri viðnámslausa texta (readerly texts) þar sem lesandinn væri fyrst og fremst í stöðu þiggjandans og í öðru lagi nautn (f. jouissance, e. bliss) sem einungis væri hægt að upplifa ef textinn veitti viðnám og krefðist virkrar þátttöku lesandans (writerly texts). [3] Ég tel óhætt að fullyrða að textar Álfrúnar séu flestir af þeirri tegund sem veita lesanda viðnám, krefjast þátttöku hans og bjóða upp á lestrarnautn.
Að hvetja að rúnum þýðir að kalla einhvern á eintal og í skáldsögunni sem ber þennan fyrnda titil situr kona á eintali ýmist við nágranna sinn Jón Pétur eða við dularfullan náunga sem heitir Stefán. Stefán gæti allt eins verið draugur. Samtöl hennar við þessa tvo menn (sem helst mega ekki vita hvor af öðrum) drífur frásögnina áfram og segja má að hvor þeirra ráði yfir einum þræði þeirrar margþráða sögu sem fram fer. En það er einhver undarleg barátta á ferðinni varðandi þessa þræði og þegar grannt er skoðað kemur í ljós að það er kannski ekki síst sjálft frásagnarformið sem er til umræðu í skáldverkinu. Æ ofan í æ verður þetta aðaltákn frásagnarinnar, þráðurinn, á vegi lesandans í mismunandi formi. „Hnykill í bauk“ berst á milli persóna í þeirri frásögn sem tilheyrir nútíðarsviði sögunnar og „hnoði í buðk“ gengur á milli manna í þeirri frásögn sem gerist í fjarlægri fortíð. Eignarhald á þessum hnyklum tveim er óljóst en hins vegar er ljóst að þeir sem geyma þá hafa „visst ráðrúm“ eða visst frelsi til þess að ráða lífi sínu. Hnyklarnir eru komnir frá konum en þeir verða bitbein karla og kvenna í sögunni og tengjast þeim ýmis svik. Undir bókarlok stendur sögukona með hvoru tveggja í höndunum, hnykillinn og hnoðann:
Upp er runnið fyrir mér hvað gera skal, ég tek um þráðarendann á hvorum hnykli, hnýti og vind sameiginlega ofan af þeim upp á nýjan hnykil. Mér til gleði sé að þræðirnir tvinnast saman. Styrkja hvor annan. (Hvatt að rúnum, 1993, bls. 331)
Í þessari klausu má sjá táknmynd þess sem gerist í frásögn bókarinnar, þar sem tveir söguþræðir er tvinnaðir saman við líf sögukonunnar sjálfrar og er það allmikil gáta fyrir lesanda að ráða í hvernig þræðirnir fléttast saman og hver ræður yfir (sögu)þráðunum. Jafnvel „Höfundurinn“ sjálfur (stundum nefndur H) virðist ekki hafa fullt vald yfir þráðum frásagnarinnar, að minnsta kosti veita sögupersónur honum viðnám eftir bestu getu.
„Skáldskapur er þó ekki saklaus leikur“
En haldi einhver að Álfrún Gunnlaugsdóttir stundi bara saklausan leik með form og frásagnarhátt í verkum sínum þá er það mikill misskilningur. Hún hefur einnig sitthvað fram að færa sem hún telur mikilvægt að miðla. Í grein sem birtist í Skírni 1994 segir hún:
Skáldskapur er þó ekki saklaus leikur. Væri því þannig farið óttuðust hann ekki valdhafar ýmissa landa. […] Undir yfirskyni skáldskaparblekkingar gæti margt leynst, jafnvel óæskilegar hugmyndir. Þær eru þó sjaldnast settar fram með beinum hætti, heldur flæktar í neti alls kyns bragða. Hluti af ánægju lesandans er einmitt í því fólginn að greiða úr flækjunni. Einnig dylst margt undir yfirborði góðrar sögu sem stjakar við lesandanum og krefst „þátttöku hans“ við að skapa hana. Sagan er ekki tuggin ofan í hann. 4
Hér sjáum við vísi af fagurfræðilegri sýn Álfrúnar Gunnlaugsdóttur og það er auðsætt að hún treystir lesandanum til þess að „greiða úr flækjunni“. Lesandi sem les Hvatt að rúnum og leggur á sig að glíma við formið og greiða úr flækjunni kemst að því að verkið geymir magnaðar sögur af ást, ofbeldi og kynlífi (eru það ekki þannig sögur sem allir vilja heyra?). Hún segir frá vofveiflegum atburðum sem gerðust á íslensku prestssetri snemma á tuttugustu öld og hún segir frá ógnartímum plágu og stríðs í Evrópu. Þá er einnig sögð hér saga sem minnir á riddarasögur miðalda og önnur sem gerist á ofanverðri tuttugustu öld. En allar fléttast þessar sögur saman á einhvern hátt, þær spegla hver aðra um leið og þær miðla ákveðnum gildum. En Álfrún gætir þess vandlega að láta „boðskap“ aldrei yfirskyggja hina listrænu framsetningu sína enda virðir hún „lesandann sem sjálfstæða og fullveðja manneskju er geti gengið óstudd“. 5