SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir18. mars 2023

HNOÐI Í BUÐK. HNYKILL Í BAUK. HEIMUR Í BÓK. Hvatt að rúnum

Álfrún Gunnlaugsdóttir Hvatt að rúnum, Mál og menning, 1993, 336 bls.

Orðið texti, sem í nútímamáli merkir ritað mál, er komið úr latínu og er leitt af orðinu textúra sem þýðir að vefa eða fella saman. Skyldleiki texta og vefs er því orðsifjalegur og er það einkar viðeigandi því tengsl þessa tveggja eru margvísleg, enda þreytast menn seint á að líkja ritverkum við vef, spuna, fléttu og annað því um líkt. Slíkar hugleiðingar kvikna enn við lestur nýjustu skáldsögu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Hvatt að rúnum.

Í þessari sögu situr kona á tali við tvo menn í húsi sínu. Þessa konu má kalla sögukonu þó aðrar persónur bregði sér einnig í hlutverk frásagnaraðila textans. Annar viðmælanda sögukonu heitir Stefán og hann er draugur. Hann felur hún uppi á lofti fyrir hinum viðmælandanum, Jóni Pétri, sem hún ræðir við niðri í stofu. Samtöl konunnar við þessa tvo menn mynda tvo meginþræði sögunnar en ótal aðrir þættir fléttast saman við: hugleiðingar sögukonu um líf sitt í fortíð og nútíð og atburði fortíðarinnar sem tengjast fleiri persónum. Af þessum aukaþáttum er þó einn fyrirferðamestur en það er saga sem draugurinn Stefán las í lifanda lífi sínu og segir sögukonu. Sú saga er frá miðöldum og segir af sveininum Diafanusi sem leggur af stað heiman frá í leit ævintýra og lendir í þeim mörgum. Stefán, sem lifði á 18. öld, sér sjálfan sig í Diafanusi enda eru samsvaranir margar: báðir yfírgefa þeir mæður sínar ungir, alast upp og læra á lífið meðal vandalausra, báðir lenda þeir í ferðalögum um ókunn lönd þar sem ýmis ævintýri og margar hættur bíða þeirra.

Þau mynstur sem hér eru ofin tengjast vináttu, svikum, ást, kynhvöt, trú, kreddu, stríði, friði, hugsjónum og valdníðslu — svo fátt eitt sé nefnt. Og þessi mynstur fléttast síðan öll á einn eða annan hátt inn í þá sögu sem rammar allar hinar, söguna sem gerist á tíma sögukonu — sem er einnig okkar tími eða 20. öldin. Nútímasagan er hreinræktuð „nútíma“ saga sem hefur að geyma hina þrjá ómissandi þætti sem „nútíma“ lesendur eru sagðir krefjast: ást, ofbeldi og kynlíf í ríkum mæli. Hér er sagt frá ástum tveggja kvenna og eins karlmanns sem gæta ekki að sér í hita tilfinninga, girndar, afbrýði og einsemdar. Þetta er tilfinningaþrungin saga af óblíðum örlögum og flóknum mannlegum samskiptum.

Saga Stefáns draugs skiptist í tvo meginþætti og segir annar af æsku hans á íslensku prestssetri, Friðþjófsstöðum, þar sem ýmsir vofveiflegir atburðir gerast, og hins vegar segir af ferðalagi hans til Evrópu og lífi hans þar á ógnartímum plágu og stríðs. Aftan á bókarkápu stendur að saga Diafanusar sé riddarasaga úr fjarlægri fortíð, en mér virðist hún fremur þjóna hluverki nokkurs konar dæmisögu (með skírskotanir til hirina tveggja meginsagnanna). Persónur miðaldasögunnar standa fyrir ákveðin gildi og lífssýn eins og ráða má af nöfnum og/eða stöðu þeirra í lífinu: (Diafanus = hinn gagnsæi eða jafnvel flón guðs, Fronín = hinn montni, eða sá sem hreykir sér, Gloría = hin dýrðarlega (kona). Hermíti, Abbadís og Vörður (eða valdsmaður).

Um leið og sagðar eru margar magnaðar og skemmtilegar sögur í þessari bók er sjálft frásagnarformið í brennidepli. Æ ofan í æ verður á vegi lesandans aðaltákn frásagnarinnar í þessari bók: Þráðurinn. „Hnykill í bauk“ berst á milli persóna í nútímasögunni og „hnoði í buðk“ fer manna á milli í sögu Stefáns. Ekki er á hreinu hver á hnyklana, en ljóst er að þeir sem geyma þá hafa „visst ráðrúm", visst frelsi til að ráða lífi sínu. Hnyklarnir eru komnir frá konum og verða bitbein karla og kvenna í sögunni og tengjast þeim ýmis svik. Undir bókarlok stendur sögukona með hvoru tveggja í höndunum, hnykilinn og hnoðann: „Upp er runnið fyrir mér hvað gera skal, ég tek um þráðarendann á hvorum hnykli, hnýti og vind sameiginlega ofan af þeim upp á nýjan hnykil. Mér til gleði sé ég að þræðirnir tvinnast saman. Styrkja hvor annan“ (331). Hún biður síðan ungan mann að koma hnyklinum í hendur annarra hvorra tveggja kvenna sem hann þekkir. Þannig hefur hún ráðstafað þræðinum = frásögninni í trássi við höfundinn að því er virðist: „— Þú hafðir betur. H er ævareiður. — Höfundurinn! Ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Hann vildi ráðskast með mig, þvert ofan í leikreglurnar sem hann sjálfur setti. Gaf mér frelsi og ætlaði síðan að svipta mig því. Þú tróðst þér inn á mig sem handbendi hans. Klókindi tveggja karla. Svei því" (332).

Með þessum óvænta en bráðsmellna atburði gefur Álfrún skáldverki sínu enn eina vídd sem tengist hugleiðingum um frásagnarlist og kynferði og tekur hún þar upp þráð sem meðal annars var spunninn í Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur. Þeir sem lesið hafa fyrra verk Álfrúnar kannast við þessa frásagnaraðferð hennar; að brjóta upp tíma og umhverfi frásagnar, flétta saman brotum, og láta lesanda eftir að ráða í heildarmyndina. Þetta er krefjandi frásagnarháttur en um leið mjög gefandi og skapandi: lesandinn verður virkur þátttakandi í þeirri sögu sem miðlað er. Álfrún hefur meistaratök á þessari aðferð sem hún hefur þróað frá fyrstu smásögum sínum. Þótt fram vindi í bókinni þremur meginsðgum frá þremur mismunandi tímaskeiðum þá verður frasögnin aldrei það flókin að lesandinn tapi áttum. Svo vel er ofið saman þráðum; atburðír frá einu tímaskeiði speglast í atburðum annars tímaskeiðs, sömu stefin koma fyrir aftur og aftur í mismunandi myndum; þrátt fyrir ólíkan tlma og ólíkt umhverfi er mannskepnan ætíð söm við sig í öllu sínu æði, stríði, ástum og svikum.

Vel má vera að einhverjir lesendur hafi lítið umburðarlyndi gagnvart þessum frásagnarhætti þar sem meira er gefið í skyn en látið er uppi. Vel má vera að einhverjir lesendur láti letina letja sig við lesturinn og heimti skýringar og einföld svör. Við þá vil ég segja (og geri ég orð Stefáns draugs að mínum þegar hann segir við sögukonu): „...ófróð þykir mér þú um þá list að segja sögu. Allt þarf að skýra!“ (167). Þeir sem hins vegar lúta lögmálum þessa texta munu njóta hins listræna vefnaðar til fulls — enda gerður af meistara höndum. Að lokum vil ég geta bókarkápunnar sem gerð er af Ingibjörgu Eyþórsdóttur og er einstaklega vel gerð og hæfir fullkomlega söguefninu.

 

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu, 14. desember 1993.

 

Tengt efni