OPNAÐ FYRIR KVENLEGU RÁSINA humm
Linda Vilhjálmsdóttir. humm. Reykjavík: Mál og menning 2022, 57 bls.
Titilinn á nýju ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur, humm, er forvitnilegur og lesandi hlýtur að stöðvast strax við hann og spá í hvað skáldið er að fara með svo stuttum og óræðum titil. Í Íslenskri orðabók á vef Árnastofnunar er orðið skilgreint sem upphrópun og sagt tákna hik, vandræði eða óvissu. Ég er þó ekki frá því að hummið sé enn margræðara en orðabókaskilgreiningin gefur til kynna og ráðist af því hvernig það er borið fram eða sagt upphátt. Í skemmtilegu samtali á milli Lindu og Elísabetar Jökulsdóttur í þættinum Víðsjá á rás 1 nýlega kom fram að Linda lítur á hummið sem einhverskonar óræðan tjáningarmáta kvenna, það geti táknað allt eða ekkert, verið svar við hverju sem er.
Í hummi geta falist efasemdir og spurningar, en einnig íbyggin ígrundun. Sé hummið sönglað hægt og rólega má skilja það sem leið til einbeitingar og jafnvel hugleiðslu. Í áður nefndu samtali ýjaði Linda Vilhjálmsdóttir reyndar sjálf að slíkri merkingu þegar hún líkti humminu við ommið sem þeir sem iðka jóga söngla með sjálfum sér til að ná innri ró og einbeitingu.
Ljóðabók Lindu skiptist í fjóra hluta og eitt ljóð fer á undan fyrsta hluta. Þar lýsir ljóðmælandi hvernig hún andar djúpt og finnur „taugafrumurnar rumska" og „fiðring í náranum / sem leiðir upp í legið // og bylgjast um brjóstin". Hún finnur einnig „niðurrifs / kökkinn í hálsinum / splundrast // og leysa úr læðingi / langdregið ekkasog". Ljóðið má túlka sem lýsingu á því hvernig umbreyting er að eiga sér stað, úr neikvæðu ástandi yfir í jákvætt ástand, úr aflleysi yfir í styrk og „elskan / þenst út [...] og smám / saman // birtir til".
Í fyrsta hlutanum er yrkisefnið af svipuðum toga, þar er sagt frá einmana stelpu sem „þorði ekki að láta ljós sitt skína" og „stóð hikandi á kantinum". Þetta er „skuggastelpa" sem á fullorðinsárum varð að þungbúinni konu og óhætt að reikna með að hér séu teiknaðar upp útlínur sjálfsmyndar. Linda dregur upp magnaðar myndir af veðri og sálarlífi sem endurspegla hvort annað, í upphafslínunni er snúið upp á þá hugsun að veðrið geti stjórnað líðan okkar, getur það ef til vill verið á hinn veginn?: „eins og veðrið / stjórnist af líðan minni / þessa óvissutíð í upphafi árs". Ljóðmælandi vill „skilja á milli / skuggastelpunnar // og þungbúnu konunnar // það er hægara / sagt en gert" en með því að „standa kyrr / og muna að anda" er von til þess að „freðin snjókerling" bráðni. Með því að ná tökum á andardrættinum, hjartslættinum og láta blóðrásina „aðlagast öldunni" má ná tökum á hugsuninni og tilfinningunum og taka við því góða og kvenlega:
Lokahendingar ljóðsins gefa síðan tóninn um það sem á eftir fylgir:
Þetta má skilja sem svo að þegar ljóðmælanda hefur tekist að skilja á milli skuggastelpunnar og þungbúnu konunnar - og þegar henni hefur tekist að ná tökum á andardrætti og tilfinningalegri líðan - þá finni hún kraftinn koma; hún finnur kvenlegu rásina í barkanum opnast og hún vill tala; bera vitni um kúgun og þöggun kvenna í gegnum ár og aldir. Og það gerir hún í næsta hluta bókarinnar sem inniheldur magnað ljóð um formæður og hlutskipti allra kvenna þar sem titill ljóðabókarinnar kemur oft við sögu, hugtakið 'humm' kemur fyrir sjö sinnum í ljóðinu, sem hefst þannig:
Aldalöng reynsla hefur kennt konum „að tilveruréttur / kvenkynsins veltur / á vellíðan mannkyns" og „að hummið sem slíkt / er annar af hornsteinum / heimilisfriðarins". Og konur hafa einnig lært láta „lítið fyrir sér fara", vera „þó alltaf til staðar" og laga „það sem aflaga fer", vera „hæverskan uppmáluð", „hækka ekki róminn", „halda sig á mottunni", „nöldra ekki múðra eða mögla", „passa upp á línurnar", að ógleymdu því að kunna „þá list að skammast sín". En þótt konur hafi lært allt þetta og viti að „maður / verður að kunna sig // sérstaklega / ef maður er kona" þá „fussa [þær] í anda // „meðan hliðarsjálfið malar / með inniröddinni". Lokalínur þessa magnaða ljóðs eru:
Í III. hluta yrkir Linda um skattholið sem svo margar konur af hennar kynslóð fengu í fermingargjöf. Hennar skatthol stendur núna „skakkt og skælt á beygluðum fótum" í „troðfullri geymslunni miðri" en hafði á sínum tíma tekið upp allt pláss í skotinu sem hún hafði til yfirráða þannig að „ekkert pláss [var] afgangs / fyrir skömmustulegar fortíðarskottur // með fráleita / framtíðardrauma". Ljóðmælandinn mátar sjálfsmynd sína við skattholið, plássið sem það tekur, og hvernig það og skúffur þess marka henni stað í tilverunni. Á skattholinu er „snyrtiborð með spegli / og blóðrauðum plusshólfum / þar var töluvert pláss / fyrir ungmeyjardjásnið // fáskrúðugt snyrtidót / og skartgripaskrín" en „takmarkað pláss / fyrir litlar bækur" og „ekkert pláss fyrir ritvél". Bæði unglingsstúlkan og skattholið eiga allnokkra þrautagöngu fyrir höndum, hún gefst upp á skólagöngu í latínuskólanum „þar sem lærifeðurnir / þéruðu og móðguðu / ungar stúlkur á víxl" og „læsti skömmina niðri í plussfóðruðum hólfum / hvítlakkaða skattholsins". Skattholið verður síðan eftir í foreldrahúsum þegar hún flytur að heiman og „móðirin / dröslaði [því] samviskusöm / milli hverfa og landshluta / í hálfa öld tæplega". (Nú væri ef til vill ráð hjá Lindu að bjarga skattholinu úr geymslunni og láta gera það upp!)
Í hreint frábæru lokaljóði IV. og síðasta hluta bókarinnar fær lesandinn í raun vitnisburð skáldsins um það sem á undan er farið. Þar er því lýst hvernig ljóðmælandinn hefur reynt þrumuveður, eldglæringar og úrhellisregn víða um heim, en séð „ljósið í skýjunum" og heyrt „hummið / í ömmunum"; hún heyrir keðjusöng þeirra og kemur honum á framfæri með „röddinni [sinni] mjóu":
Í hummi Lindu Vilhjálmsdóttur er ekki að merkja hik, vandræði eða óvissu. Sé rödd skáldsins mjó er hún engu að síður sterk, djúp og hljómmikil. Ljóðabókin humm er femínískt manifestó Lindu Vilhjálmsdóttur og er í raun beint framhald af síðustu ljóðabók hennar smáa letrið (2018) þar sem einnig er ort um formæður, hlutskipti kvenna í bland við sjálfsmyndir ljóðmælanda. Báðar þessar bækur eru firna vel upp byggðar og innihalda mögnuð ljóð þar sem grunntónninn er herskár en undir býr sársauki sem ljær ljóðunum dýpt og áhrifamáttur þeirra er mikill.
Með þessum tveimur ljóðabókum hefur Linda stimplað sig rækilega inn í þann hóp íslenskra skáldkvenna sem í dag mynda magnaðan keðjusöng kvenna sem brýna röddina í femínísku andófi í seigdrepandi feðraveldi sem hlýtur þó að fara að kikna undan kórnum og að riða til falls.