SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir20. mars 2025

STARFENDARANNSÓKN STEINUNNAR

Steinunn Sigurðardóttir, Skálds saga - 74 kaflar úr höfundarlífinu, Mál og menning 2024, 244 bls.

Steinunn Sigurðardóttir á að baki um 55 ára skáldaferil og man hún orðið tímana tvenna enda var öðruvísi umhorfs á ritvellinum þegar hún hætti sér inn á hann því þar áttu karlar sviðið. Steinunn var þó einungis 19 ára gömul þegar hún sendi frá sér ljóðabókina Sífellur (1969) og hefur hún síðan skrifað fjölda verka og leikið sér með ýmis form auk þess sem hún hefur sinnt þýðingastarfi. Steinunn hefur hlotið bæði verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín; til dæmis hefur hún margoft verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlotið þau tvisvar, fyrir Hjartastað (1995) og Ból (2023), og sömuleiðis hefur hún tvisvar verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrir Tímaþjófinn (1988) og Hjartastað (1997).

Steinunn sendi í fyrra frá sér bókina Skálds saga - 74 kaflar úr höfundarlífinu sem hún kallar starfsævisögu í viðtali við Vísi. Í bókinni tekst hún á við spurningar á borð við hvernig það er að vera rithöfundur og hvaðan innblásturinn kemur og sömuleiðis fjallar hún um þörfina til að skrifa. Bókin veitir afar dýrmæta innsýn í ríflega hálfrar aldar starf rithöfundarins og svarar mörgum þeirra spurninga sem sjálfsagt brenna á fólki sem er að fikra sig fram á ritvöllinn. 

Í heimi fræða myndi þessi starfsævisaga Steinunnar líkast til kallast starfendarannsókn (e. Action Research) sem hefur notið talsverðra vinsælda síðustu áratugi enda gefið góða raun. Líkt og felst að nokkru í orðanna hljóðan snýst starfendarannsókn um að starfandinn geri sjálfur rannsókn á eigin starfi, í stað þess að einhver utanaðkomandi taki það að sér. Rannsakandi og þátttakandi eru því sama manneskjan. Öflug ígrundun og gagnasöfnun gerir rannsakandum kleift að fara meira á dýptina en utanaðkomandi gæti gert. Þar eru skrifin, dagbókin, mikilvægt gagn sem geta geymt hvers kyns hugleiðingar um hvað sem er, var og verður. Til að rifja upp liðnar stundir geta ljósmyndir einnig komið sér vel, ummæli ýmiss konar og rýni aftan úr fortíð og í tilfelli Steinunnar eru verkin hennar augljóslega mikilvægustu gögnin.

Það er virkilega gaman að skoða Skálds sögu með gleraugum þessara fræða og verða þá til ýmsar tengingar við lesturinn, bæði ljósar og leyndar. Í starfendarannsóknum, líkt og öðrum rannsóknum, er lagt upp með rannsóknarspurningu, eina eða fleiri, og það gerir Steinunn, líkt og fyrr segir. Rannsóknir sem þessar eru þó öðrum þræði eins konar óvissuferð því ómögulegt er að segja hvert hún leiðir rannsakandann, enda er það ferlið, ferðalagið sem mestu skiptir en ekki áfangastaðurinn (sem er mögulega kirkjugarðurinn þegar upp er staðið). Ferlið er lífið, starfsævisaga, Tímaþjófur, sem er vert að njóta á meðan yfir stendur. 

Verk Steinunnar eru einnig óvissuferðir, bæði fyrir lesandann og höfundinn því í sjálfu ferlinu verða til ýmsir snúningar. Til dæmis segist hún vera að kynnast persónum sínum ,,úteftir öllu sköpunarferlinu sem lifandi væru" og að þær komi sífellt á óvart, líkt og væru þær lifandi. Þetta sé því spennuferli: ,,Auðvitað sé ég sumt fyrir - en alls ekki allt." (bls. 51-52) Því mætti segja að persónusköpunin sé lifandi ferli sem getur þróast á annan veg en lagt var upp með. Líku gegnir um bæði form og söguþráð því ,,allar góðar skáldsögur hljóta að taka óvæntar stefnur hér og þar" (bls. 102)     

Hvað sem öllu öðru líður er ljóst að enginn hefur jafn góða innsýn í starf rithöfundar og rithöfundurinn sjálfur. Bókmenntaunnendur, leiknir og lærðir, geta fimbulfambað um verk höfunda, lagst vandlega yfir þau, túlkað og spekúlerað út í hið óendanlega. Nógu gaman er það en rithöfundurinn einn veit svörin fyrir víst, ef þau eru á annað borð fyrir hendi. Hún er til dæmis dásamleg frásögnin af því hvernig bókin Síðasta orðið varð til en hugmyndina sótti Steinunn í minningargreinar Morgunblaðsins ,,sem ég las mér til sorgar, fróðleiks, kvikindishláturs." (bls. 88) Steinunn varpar alveg nýju ljósi á þetta ,,séríslenska bókmenntaform" sem afhjúpar þjóðarsálina á sinn sérstaka hátt og geta þessar greinar verið, þegar best lætur, ,,perlur, klassískur íslenskur smáprósi." (bls. 89)

Þessir þjóðlegu smáprósar blöstu við Steinunni á eldhúsborðinu þegar hún drakk kaffi sitt á morgnana áður en hún hófst handa við ritstörfin en þau innti hún af hendi í sérherbergi, ef hún átti þá kost á því. Lýsing á vinnuaðstöðunni, eða aðstöðuleysinu, er eins konar stef í gegnum bókina alla enda leikur slíkt rými mikilvægt hlutverk í sköpunarverki höfunda. Þessi nálgun minnir óneitanlega á Sérherbergi (A Room of One's Own, 1929) Virginíu Woolf. Sú merka klassík hverfist um stöðu kvenna í bókmenntum og ekki hvað síst þörf þeirra á sérherbergi, andrými frá öllum skyldum og kvöðum, frelsi frá því að þvo upp og hátta börnin, þar sem þær geta notið þess listræna frelsis sem er nauðsynlegt allri sköpun. 

Sem betur fer hafði Steinunn oftast einhvers konar atdrep til að sinna skrifum sínum. Annars værum við mun fátækari. Það er einnig ómetanlegt að fá þessa rennilegu rannsókn rithöfundarins í hendur, þessa hugvekjandi útlistun á verkum hennar, tildrögum þeirra og ferli. Þetta er mikil skemmtireisa um víðar lendur skáldskaparins sem er vonandi hvergi nærri lokið. 

Tengt efni