SKÁLDKONUR LESA

Sú sem hér hamrar á lyklaborðið varð forvitin um hvað skáldkonurnar okkar eru að lesa um þessar mundir. Hún sendi því nokkrum fyrirspurn þar um í von um að þær hefðu tök á að líta upp úr jólavafstrinu og senda mér línu eða tvær. Svörin eru mjög frjáls í forminu líkt og vera ber því spurningarnar bjóða því heim (og kerlingin hún Jóna hefur vit á því að hræra sem minnst í texta skálda! Fáein inngangsorð og millifyrirsagnir eru þó hennar og eitthvað smávegis dútl annað) Spurningarnar voru:
Ertu búin að lesa margar bækur í þessu flóði jólabóka? Einhver sem stendur upp úr? Hvaða bók ertu að lesa núna og hvernig líkar þér? Hvaða bækur bíða á náttborðinu?
Svör skáldkvennanna Ásdísar Óladóttur, Elísabetar Jökulsdóttur, Eyrúnar Óskar Jónsdóttur, Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur, Sunnu Dísar Másdóttur og Þórunnar Valdimarsdóttur má lesa hér fyrir neðan og kann ég þeim bestu þakkir fyrir svörin!
ÁSDÍS ÓLADÓTTIR

Elísabet sagðist vera búin að kaupa nokkrar bækur til jólagjafa og geti því ekki kjaftað frá þeim:
Skemmtileg og spennandi
Búin að kaupa nokkrar til jólagjafa bæðí fyrir börn og fullorðna, get ekki kjaftað frá því en ég fæ Bláaa Pardusinn frá mér. Auk þess tók ég á bókasafninu Atburðinn eftir Annie Enró, Þannig var það eftir Jon Fosse og Umskipti eftior Mo Yan. Er að lesa Sálnaveiðarann eftir Þór Tulinius, mjög skemmtileg og spennandi.
Meistaraverk
Ég get bara lesið stuttar bækur, nema Áður en ég brjálast efir Soffíu Bjarnadóttur, ég gleypti hana í mig. Meistaraverk. Mig langar að lesa Huldukonuna eftir Fríðu Ísberg og skoða ljósmyndabækurnar Tóm eftir Spessa og Spegil þjóðar eftir Gunnar V. Andrésson.
Að lokum er vert að nefna að Saleh Rozati tók myndina af skáldkonunni.
EYRÚN ÓSK JÓNSDÓTTIR

Eyrún segist vera búin að lesa talsvert af nýjum verkum og þá einkum ljóðabækur:
Ljóðabækur fyrir börn og fullorðna
Ég er búin að lesa flestar af ljóðabókunum sem hafa komið út í ár og þar standa upp úr Lífið er undantekning eftir Sigurlínu Bjarney en bókin er yndislega mannleg og skemmtilegt hvernig hún leikur sér að heimspekilegum spurningum. Postulín eftir Sunnu Dís snerti mig líka djúpt, sem og Mara kemur í heimsókn eftir Natasha S.
Síðan eru það tvær ljóðabækur fyrir börn sem vöktu athygli mína. En þegar ég var krakki elskaði ég ljóðabækur fyrir börn. Annarsvegar er það bókin Hallormstaðarskógur eftir Ásu Hlín en hún myndskreytir hana sjálf með alveg dásamlegum myndum. Þetta er ein af þessum bókum sem mig langaði bara að lesa aftur um leið og ég var búin og upphátt til þess að heyra töfrana. Hin bókin er Dásamleg dýr eftir Ingibjörgu Birgisdóttur, mjög skemmtileg en hún endaði í nokkrum jólapökkum frá mér.
Í flóðinu góða leynist eitthvað fyrir alla
Ég var dugleg að lesa þær skáldsögur sem komu fyrstar í flóðinu. Eins og Rósa og Björk eftir Satu Ramo, sem ég mæli eindregið með. Satu hefur stimplað sig inn sem einn af áhugaverðustu höfundum landsins. Þá fannst mér bókin hennar Soffíu Bjarnadóttur Áður en ég brjálast alveg frábær. Af þýddum bókum sem komu út á íslensku í ár þá var ég mjög hrifin af Við höfum alltaf átt heima í kastalanum eftir Shirley Jackson. En það er alveg magnað hvernig höfundur leikur sér með orðin og stílinn.
Þær bækur sem komu út aðeins seinna í flóðinu bíða á náttborðinu eða eftir að biðlistinn styttist á bókasafninu. Ég er mjög spennt að lesa Lausaletur eftir Þórdísi og Huldukonan eftir Fríðu Ísberg. Og svo Ósmann eftir Joachim B. Schmidt, en fyrri bækur hans, Kalman, og Kalman og fjallið sem svaf voru alveg stórkostlegar og ég er búin að mæla með þeim við alla sem vilja heyra. Svo finnst mér alltaf gaman að lesa barnabækur og ég ætla að lesa Skólastjórann eftir Ævar, Skuldadagur eftir Bergrúnu og Sólgos eftir Arndísi. Mér sýnist sem enginn ætti að þurfa að fara bókalaus inn í jólin og að í flóðinu góða leynist eitthvað fyrir alla.
SIGURLÍN BJARNEY GÍSLADÓTTIR
Sigurlín hefur lesið nokkrar bækur og enn fleiri bíða jólanna:
Ferskur andblær
Bækurnar sem ég hef lesið úr jólabókaflóðinu eru nokkrar. Fyrir stuttu las ég ljóðabækurnar Postulín eftir Sunnu Dís Másdóttur og Fyrir vísindin eftir Önnu Rós Árnadóttur. Ég var rétt í þessu að klára bókina Móðurást: Sólmánuður eftir Kristínu Ómarsdóttur og mæli með henni. Kristín kemur með ferskan andblæ inn í sögulegu skáldsöguna og mér sýnist hún vera að búa til nýja tegund bókmennta.
Planið yfir jólin
Yfir jólin er planið að lesa bækurnar Frumbyrjur eftir Dag Hjartarson, Mamma og ég eftir Kolbein Þorsteinsson, Lausaletur eftir Þórdísi Helgadóttur, Huldukonan eftir Fríðu Ísberg og Stúlka með fálka eftir Þórunni Valdimarsdóttur. Svo hefur í nokkrar vikur staðið til að lesa bókina Sæluvika eftir Indriða G. Þorsteinsson.
Uppgötvun ársins
Uppgötvun ársins hjá mér er rithöfundurinn Deborah Levy en ég hef hlustað á þríleikinn hennar Things I Don‘t Want to Know, Real Estate og The Cost of Living. Um er að ræða sjálfsævisögulegt verk sem hún kallar living autobiography og þar fléttar hún heimspekilegum, ljóðrænum og feminískum hugleiðingum við eigið líf. Þessa dagana hlusta ég á The Positions of Spoons: And Other Intimacies eftir hana sem eru hugleiðingar hennar um skáldskapinn og lífið. Ég mæli sterklega með henni og það væri gaman að sjá einhverja af bókum hennar þýdda á íslensku á næstu árum.
SUNNA DÍS MÁSDÓTTIR

Sunna Dís segist vera búin að lesa talsvert en verði lítið ágengt því það sé svo margt spennandi í boði:
Hrifin af stallsystrum sínum og Degi
Ég er búin að lesa talsvert mikið en finnst mér nú samt varla verða neitt ágengt – það er svo margt spennandi að lesa. Ég var mjög hrifin af báðum stallsystrum mínum í Svikaskáldum, Huldukonunni eftir Fríðu Ísberg og Lausaletri Þórdísar Helgadóttur og svo ekki síður Frumbyrjum eftir Dag Hjartarson, dásemdarbók!
Akkúrat núna er ég reyndar að svindla aðeins á jólabókaflóðinu og lesa Systrarna, sænskan doðrant sem mig hefur langað til að lesa frá því að bókin kom út. Hún er eftir Jonas Hassen Khemiri sem er höfundur sem ég hef lesið flestallt eftir og hrifist af. Ég er rétt farin af stað en spennt fyrir bókinni sem fylgir eftir Mikkola-systrunum þremur.
Á trúlega gott í vændum
Á náttborðinu bíða svo – eða eru rétt ókomnar – nýjar bækur Sifjar Sigmarsdóttur, Allt sem við hefðum getað orðið, og Sigríðar Hagalín, Vegur allrar veraldar. Sú síðastnefnda held ég að verði jólanæturlesningin í ár og ég er nokkuð viss um að ég eigi gott í vændum þar.
ÞÓRUNN VALDIMARSDÓTTIR

Þórunn segist vera með margar bækur á borðinu og þakkar guði fyrir að margar þeirra séu eftir konur:
Já sæll ... ég er með margar bækur á borðinu, guði sé lof (úr því að þetta eruð þið) að margar þeirra eru eftir konur. Best að baula þeim bara út úr sér í stafrófsröð, eins og oftast er gert í upplestrum jólabókaflóðs okkar bókaglöðu þjóðar. Ég er dugleg að kaupa bækur því sem atvinnumanni er mér ljóst að ég fæ skattafrádrátt fyrir slík kaup.
Frábær bók og tröllstórir stafir
Arnaldur Indriðason: Tál: Þetta er alveg frábær bók. Við Arnaldur erum vinir síðan í sagnfræðinámi forðum. Hann var með Eggerti mínum í fótbolta á laugardögum og þannig héldum við sambandi löngu eftir að námi lauk, konurnar fengu að vera með í fótbolta partíum. Ég hitti Arnald í haust á Bókagleði haustsins í Hörpunni þar sem hann einn hafði sérborð við enda langborðs Forlagsins, sem var mjög langt langborð. Hann er eini alvöru metsöluhöfundur Íslands, hefur verið það alla ævi og pungar út bókum árlega. Við skiptumst á bókum og víst veit ég að það kemur fyrir að karlar lesa bækur mínar. Fæ oft þakklæti á vegum úti fyrir hinar og þessar bækur sem ég, nóta bene, hef skrifað um karla. Mér sveið létt þegar ég frétti að karlmaður las hljóðbók af bók minni um Matta Joch., svona er gert án þess að hugsa. Kvenrödd bókar sem tók 5 ár að rannsaka og skrifa er þögguð í upplestri án þess að nokkur sé spurður. Það er svo sjálfsagt að gera lítið úr kerlingum. Afsakið útúrdúr.
Bókin hans Arnaldar með þennan klassíska titil eins atkvæðis Tál lýsir skelfilegum undirheimum Reykjavíkur svo að mér leið óvenjuvel í bælinu ... djöfull er nú gott að þetta vesalings fárveika dópista fólk er ekki á sveimi í veröld minni. Fékk sælustraum svona um það bil á þriðju eða fjórðu blaðsíðu. Persónusköpun fín, nema eitt er að bókinni. Hún er blind. Sjónlaus. Ekkert er sagt um útlit persóna, hárlit, vaxtarlag, hreyfingar. Segja má að það vanti myndlistina í þessa bók. Fyrirgefðu Arnaldur, eða ekki. Það er svo langt síðan ég hef lesið bók eftir þig að ég man ekki hvort þetta hefur alltaf verið einkenni þinna bóka. En mikið djöfull er bókin góð og þú átt svo sannarlega skilið að vera metsöluhöfundur ... spakmæli heimsins klikka aldrei: Bragð er að þá barnið finnur. Kápan er kolsvört eins og innhald bókar, með þessari káputísku sem ég er orðin hundleið á - tröllstórir stafir fylla alla kápuna að framan. Þá þarf hönnuður ekki að hafa fyrir því að hugsa, þið skiljið.
Brakandi snilld og „Bækur, gjörið svo vel kassi"
Ásdís Ingólfsdóttir: Viðkomustaðir. Saga af Lóu: Sæmundur hans Bjarna Harðar gaf þessa bók út í fyrra. Ásdís er systurdóttir íslenskukennara míns í MH, Jóns Böðvarssonar. Hún er líka vinkona mín síðan við vorum sendar saman í rithöfundaskjól í Kanada, ásamt Móheiði í Kanínuholunni. Ásdís hefur kennt íslensku held ég í heila ævi, í Kvennaskólanum og er nú svo heppin að vera komin á eftirlaun og geta sinnt skáldskapnum einvörðungu. Bókin er brakandi snilld og sárt til þess að hugsa hve margir góðir höfundar á öllum aldri eiga erfitt með að finna útgefanda. Það er af því að við erum bókagalin þjóð. Þá kemur Bjarni Harðarson til bjargar með Sæmund, hann bjargaði mér þegar enginn vildi gefa út Íslenska fyndni eftir mig. Glettnin skýrð og skoðuð eða hvað sem undirtitillinn var. Ég þurfti ekki að borga með mér eins og sumir höfundar, fékk fullan kassa af bókum til að gefa í kringum mig og ágætis uppgjör. Mæli eindregið og margfaldlega með þessari bók, hún er bráðskemmtileg og falleg, eins og hún Ásdís sjálf.
Bettina Brömme: Weisswurst fur Elfen. Stadt – Land – Liebe: Þessa bók hlýt ég að hafa þegið upp úr einhverjum Bækur gjörið svo vel kassa. Gefin út í Þýskalandi 2011. Greip hana bara af tómri óskhyggju, því að ég þykist kunna þýsku. Bókin er fallega hallærisleg, með forsíðumynd af konu með týrólahatt prýddan tveimur hjörtum. Enn ólesin, nema ég gríp hana stöku sinnum og les upphátt. Lofa að lesa hana frá A-Ö mjög bráðlega. Titillinn er ef ég skil hann rétt, Hvít pylsa fyrir álfa. Nottlega hreinn dónaskapur, ekki þarf maður að vera mikill táknfræðingur til að sjá það, hehe. Mjög þægilegt nú til dags að allar orðabækur eru inni í símum okkar. Þökk sé þér, Gervigreind.
Græðgislestur og sjálfsútgáfa
Diamond; Jared: The Third Chimpanzee, The Evolution and Future of the Human Animal: Já svona bækur les ég af mikilli græðgi. Bandarískur höfundur, bókin fyrst gefin út Vestanhafs 1992, í Bretlandi árið eftir en mín bók er endurútgefin 2006. Metsölubók að sjálfsögðu. Metsöluhöfundur margfaldur.
Ellcock; Stephen: The Book of Change. Images and Symbols to Inspire Revelations and Revolutions: Þetta er myndabók með skýringum – algjörlega frábær. Mæli með. Bandarísk eins og svo margt gott þaðan, fyrst prentuð í UK 2021.
Guðrún Guðlaugsdóttir: Dóu þá ekki blómin? Guðrún er mamma listakvennanna Ásu hans Sjóns og Móu, hún á líka ágæta syni sem ég þekki ekki. Storytel gaf Dóu þá ekki blómin út sem hljóðbók í vor, en Guðrún er meira en afbragðs höfundur, með ævistarf að baki sem blaðamaður, hún gefur bækur sínar út sjálf, eins og Þórarinn Eldjárn. Sumir nenna því. Þetta eru frábærar bernskuminningar þótt í formi skáldsögu séu. Lykill að horfnum heimi telpu í sveit, opnar dyr inn í fortíðarþrá okkar allra, eftisstríðsárabarnanna, sem nutum þess að vera í heilögu sambandi við náttúruna, áður en samfélagið varð svona helvíti leiðinlegt.
Hugljómandi ljóð
Gyrðir Elíasson: Dulstirni og Meðan glerið sefur: Það er alltaf jafn alvöru hugljómandi að lesa ljóðin hans Gyrðis. Mælikvarði minn á listir er hvað þær gera við skynjun mína, hve mikið þeim tekst að breyta sýn minni og tilfinningu gagnvart tilverunni. Rithöfundabörnin mín, Gunnar Theodór og Yrsa Þöll Gylfadóttir gáfu mér þessar bækur jólin 2023. Þær loða enn við náttborðið mitt. Góð ljóð eru aldrei of oft lesin.
Þess má geta að Þórunn var með níu bækur enn á náttborðinu hjá sér en það bíður betri tíma að heyra hvernig henni líkaði sá lesturinn.