SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir31. mars 2023

ÍSLENSKU HLJÓÐBÓKAVERÐLAUNIN 2023

29. mars voru Hljóðbókaverðlaunin (Storytel awards 2023) afhent í Norðurljósasal Hörpu. Þar uppskáru bækur eftir konur ríkulega. Þrjátíu hljóðbækur voru tilnefndar í sex flokkum til verðlaunanna og er verðlauna­hátíðin ár­leg­ur viðburður þar sem hljóðbókaunn­end­ur og fram­leiðend­ur fagna sam­an út­gáfu vönduðustu hljóðbóka und­an­geng­ins árs.

 

Í flokki SKÁLDSAGNA vann skáldsaga Valgerðar Ólafsdóttur, Konan hans Sverris (í lestri Margrétar Örnólfsdóttur). Í umsögn dómnefnar segir:

Konunni hans Sverris fáum við að heyra hispurslausa frásögn konu sem hefur loks fundið frelsið til að segja sögu sína á eigin forsendum. Hildur, sögukona bókarinnar, lýsir á blákaldan máta veruleika kvenna sem eru fastar árum eða áratugum saman í samböndum sem ógna lífi þeirra og heilsu. Hún hlífir hvorki sjálfri sér né geranda sínum þegar hún tekst á við sjálfsblekkinguna og réttlætingarnar sem fólk leitar í til að lifa af í slíkum aðstæðum. Saga Hildar er um margt svo kunnugleg. Lesandinn fær á tilfinninguna að andlega og líkamlega ofbeldið sem hún lýsir gæti allt eins átt sér stað í næsta húsi eða innan eigin fjölskyldu. Lestur Margrétar Örnólfsdóttur gæðir rödd Hildar bæði þroska og visku konu sem horfir til baka og syrgir glataðan tíma en finnur jafnframt fyrir styrk sínum í því að hafa lagt ofbeldið að baki og skapað öruggt skjól fyrir sjálfa sig og börnin sín.

 

Hér má lesa ritdóm um bókina.

 

 

Í flokki BARNA- OG UNGMENNABÓKA vann bókin Litla hafmeyjan eftir Önnu Bergljótar Thorarensen (í lestri leikhópsins Lottu). Í umsögn dómnefndar segir:

 

Litla hafmeyjan er einstaklega skemmtileg og vel gerð hljóðbók. Upphaflega var Litla hafmeyjan söngleikur sem Leikhópurinn Lotta sýndi um land allt en aðlagaði svo einstaklega vel að hljóðbókaforminu. Dómnefndin var sammála að leikgleðin hafi ráðið ríkjum þar sem heildarmyndin var virkilega sterk og allir leikarar fóru á kostum í hlutverkum sínum og ekki skemmdi fyrir frábær boðskapur varðandi náttúruvernd. Einnig var skemmtilega snúið upp á söguna um Litlu hafmeyjuna og sjá má frábæra birtingarmynd ástarinnar sem blómstrar að lokum á milli konungssonarins Hlina og hafmeyjunnar Sævars.

 

 

 

Í flokki GLÆPASAGNA varð sigursælust Þú sérð mig ekki eftir Evu Björg Ægisdóttur (í lestri Guðmundar Inga Þorvaldssonar, Haraldar Ara Stefánssonar, Maríu Daggar Nelson, Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur, Sigríðar Lárettu Jónsdóttur og Þóreyjar Birgisdóttur). Í umsögn dómnefndar segir:

 

Þú sérð mig ekki eftir Evu Björgu Ægisdóttur fléttar saman mikla fjölskyldusögu við spennandi glæpasögu sem á sér stað á lúxushóteli á Snæfellsnesi. En þegar hin áhrifamikla Snæbergsfjölskylda kemur öll saman undir sama þaki er voðinn vís og gömul fjölskylduleyndarmál leita upp á yfirborðið. Bókin er metnaðarfullt verkefni og vel uppbyggð. Enn sýnir Eva Björg hvers vegna hún er einn fremsti glæpasagnahöfundur vorrar þjóðar. Góð bók verður enn betri í hljóðbókarlestri færs lesendahóps, en hann skipa : Sigríður Láretta Jónsdóttir, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Þórey Birgisdóttir, Haraldur Ari Stefánsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson og María Dögg Nelson. Hver og einn lesari gæðir persónur bókarinnar lífi, eykur áhrif söguþráðarins til muna og hjálpar hlustandanum að greina á milli persónanna. Þú sérð mig ekki er kraftmikil glæpasaga sem lifnar við á nýjan hátt í eyrum hlustanda sem vill ekki slökkva á tækinu fyrr en síðasti taktur hljóðbókarinnar slær.

 

Hér má lesa ritdóm um bókina og líka hér.

 

 

Í flokki ÓSKÁLDAÐS EFNIS komu verðlaunin í hlut bókarinnar Veran í moldinni: Hugarheimur matarfíkils í leit að bata eftir Láru Kristínu Pedersen (í lestri Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur). Í umsögn dómnefndar segir:

 

Virkilega voguð og skörp frásögn höfundar á mjög áhugaverðu efni sem fáir þekkja en margir geta tengt við. Fíknin birtist okkur í mörgum myndum. Lára Kristín segir frá, opnar sig og ritar sína sögu um baráttu við matarfíkn af einlægni og heiðarleika. Hún berskjaldar sig fyrir hlustandanum og hikar hvergi við að galopna hjarta sitt og horfast í augu við þá erfiðleika og það mótlæti sem þessi erfiði sjúkdómur hefur að geyma. Hún er sjálfsgagnrýnin og dregur ekkert undan í frásögn sinni. Skýr lestur og áheyrileg rödd Þuríðar Blævar bætir við söguna með sinni næmu nálgun og góðri tilfinningu fyrir efninu. Frásögnin er fræðandi og aðgengileg og hentar hljóðbókarforminu vel.

 

 

 

Einnig voru veitt verðlaun í flokki BESTA LJÚFLESTURS en þau hlaut Litla bakaríið við Strandgötu eftir Jenny Colgan (í þýðingu Ingunnar Snæland og lestri Estherar Talíu Casey) og BESTA HLJÓÐSERÍAN einnig verðlaunuð, en það var serían Hundrað óhöpp Hemmingways eftir Lilju Sigurðardóttur.

Á verðlaunahátíðinni var leikkonan HELGA ELÍNBORG JÓNSDÓTTIR heiðruð fyrir ómetanlegt framlag til íslenskrar talsetningar og hljóðbóka. Helga er ein ástsælasta leikkona þjóðarinnar og hefur undanfarin ár lesið fjölda íslenskra hljóðbóka.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tengt efni