ÞÓRUNN JARLA SPJALLAR UM ÍSLENSKAR FORNBÓKMENNTIR
Um þessar mundir er verið að endurflytja á rás 1 á RUV áhugaverða og skemmtilega þætti þeirra Ævars Kjartanssonar og Gísla Sigurðssonar sem bera yfirskriftina SPJALL UM LISTRÆNT FRAMHALDSLÍF FORNBÓKMENNTA. Þættirnir voru frumfluttir 2014 og komu í framhaldi af þáttaröðinni FORNBÓKMENNTIR OG VIÐ þar sem Ævar og Gísli spjölluðu við fræðimenn um íslenskar fornbókmenntir, í samtals 18 þáttum.
Í morgun var gestur þeirra Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, rithöfundur og fræðikona. Þórunn Jarla hefur sent frá sér tvær skáldsögur þar sem hún nútímavæðir tvær Íslendingasögur: Kalt er annars blóð (2007) og Mörg eru ljónsins eyru (2010). Í fyrri bókinni vinnur hún með Brennu-Njáls sögu og í þeirri síðari með Laxdæla sögu. Skáldsögur Þórunnar eru af ætt glæpasagna og báðar hlutu þær tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Í ritdómi um fyrri bókina, sem lesa má hér á Skáld.is, segir meðal annars:
Hér er sögð saga blóðugra glæpa úr samtímanum og áður en yfir lýkur hafa líkin hrannast upp og drápin tengjast heimi fíkniefna og handrukkara og alls konar ástarflækjur blandast inn í málin. Aðalpersónur eru margar og sjónarhornið síbreytilegt, sagan er jafnvel sögð út frá sjónarhorni hrafns sem flýgur yfir sögusviðið og er mjög skemmtilegt innskot í frásögnina. Sögusviðið er jafnframt breytilegt: Reykjavík, Kollafjörður, Egilsstaðir, austfirskar heiðar og Gotland og bæta má einum „staðnum“ við sem er heimur bókmenntanna. Sagan er full af tilvísunum í íslenskar bókmenntir en það er þó eitt verk sem er burðarvirki frásagnarinnar: Brennu-Njáls saga. [...] við lestur skáldsögu Þórunnar er lesandinn minntur á að í þessari frægustu Íslendingasögu allra tíma er ekki bara fjallað um átök kristni og heiðni, vinskap, heiður og hefnd heldur einnig um ástarflækjur, kynlíf, getuleysi, afbrýðisemi, útlitsdýrkun, átök milli kynja o.fl. o.fl. Sem glæpasaga er Kalt er annars blóð vel lukkuð en hér er fyrst og fremst um bráðskemmtilega samtímasögu að ræða þar sem lesandinn fær meira fyrir sinn snúð en oftast þegar lesnar eru sögur um glæp.
Óhætt er að mæla með spjalli Þórunnar við þá Ævar og Gísla, þar bar margt áhugavert á góma. Þættirnir eru aðgengir í spilara RUV og í fyrstu sex þáttunum var spjallað við Pétur Gunnarsson, Brynhildi Þórarinsdóttur, Kristínu Steinsdóttur, Þórarin Eldjárn, Vilborgu Davíðsdóttur og Einar Kárason, en öll hafa þau, líkt og Þórunn Jarla, unnið á listrænan hátt með efnivið íslenskra fornbókmennta í skáldsögum sínum.