SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir10. mars 2024

ÞESSI TVÍFÆTTA VILLIBRÁÐ

Inngangur

 

 

Það er Vandræðalegt að vera kona,
á heimleið að kvöldlagi, gjóandi angistaraugum,
á aðalmenni með veiðileyfin.
Vandræðaleg þessi tvífætta villibráð – sjálfsögð, en venst
því varla.1

 

 

Þetta brot er hluti af ljóðabálkinum VANDRÆÐA úr bók Steinunnar Sigurðardóttur, Af ljóði munt þú verða (2018). Þar er ort um ýmiss konar vandræði sem fylgja því að vera manneskja: karl, kona, móðir, faðir, barn og aldraður. Hugsunin sem tjáð er í þessu broti kallast á við hendingu úr nafnlausu ljóði í bók Lindu Vilhjálmsdóttur, smáa letrið (2018).2
Þar lýsir ljóðmælandinn líðan sinni – eða öllu heldur vanlíðan – með ýmis konar líkingum. Ljóð Lindu er sett saman úr tuttugu hendingum og hefst á setningunni: „Stundum líður mér / eins og síld í tunnu.“ Síðan rekur hver líkingin aðra þar sem lýst er hvernig ljóðverunni líður stundum eins „varphænu á ó vistvænu búi,“ „undaneltisgyltu með legusár,“ „brottköstuðum undirmálsfiski“ eða „loðdýri í búri,“ svo dæmi séu tekin. Í lokahendingunni breytist orðið stundum hins vegar í alltaf; ljóðmælandanum líður „alltaf eins og stelpukrakka á bakaleið í myrkri“. Í báðum ljóðunum birtast konur á heimleið að kvöldlagi í myrkri. Þeim líður greinilega illa í slíkum aðstæðum og þótt það sé ekki sagt beinum orðum í ljóði Lindu er ljóst að stelpukrakkinn óttast að öllum líkindum það sama og konan í ljóði Steinunnar; að aðalmenni með veiðileyfin séu á ferð.

Í nýlegu smásagnasafni Fríðu Ísberg, Kláði (2018), er að finna sögu sem ber titilinn „Heim“ og þar er sagt frá ungri konu sem er á heimleið að næturlagi og býr sig undir mögulega árás. Hún er með símann tilbúinn í öðrum vasanum og: „Tekur utan um lyklakippuna í hinum vasanum, þræðir lyklana á milli fingranna og kreppir hnefann“ og er þar með komin með litla gaddakylfu reiðubúna.3 Linda Vilhjálmsdóttir yrkir í fyrstu persónu, Steinunn Sigurðardóttir vísar til konu í þriðju persónu en Fríða Ísberg skrifar í annari persónu. Kvenkyns lesandi samsamar sig að öllum líkindum við fyrstu persónu röddina í ljóði Lindu, þekkir þá vandræðastöðu sem konan í ljóði Steinunnar er í en í sögu Fríðu er engin undankoma því þar er talað beint til lesandans, það ert „þú“ sem þarna er lýst og flestar konur kannast líklega við aðstæðurnar og þær hugleiðingar sem viðraðar eru í frásögninni og snúast um óttann sem konur finna fyrir þegar þær eru einar á gangi síðla kvölds eða um nótt.

 

 

Það er umhugsunarvert að í að minnsta kosti þremur nýlegum skáldverkum eftir íslenskar konur af ólíkum kynslóðum sé lýst nákvæmlega sömu aðstæðum og óttanum sem þeim fylgja. Geta má sér til um að #metoo-byltingin hafi haft þau áhrif að konur á öllum aldri séu tilbúnari en áður til að tjá þennan ótta sem fylgir því að vera kona. En viðfangsefnið er ekki nýtt þótt óvenjulegt sé að sjá það koma fram í mörgum bókmenntaverkum sama árs og óðara spretta fleiri sögur eftir íslenskar konur upp í hugann. Frá liðinni öld má til að mynda nefna smásögur eftir Ástu Sigurðardóttur4 og Fríðu Á. Sigurðardóttur5 sem báðar skrifuðu um ofbeldi gegn konum og börnum. Þá hefur þetta þema verið óvenju áberandi sem viðfangsefni í bókmenntum kvenna undanfarinn áratug. Elísabet Kristín Jökulsdóttir yrkir um heimilisofbeldi í ljóðabókinni Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett (2014) og Gerður Kristný yrkir um ofbeldi gegn konum í þremur ljóðabálkum sínum, Blóðhófni (2010), Drápu (2014) og Sálumessu (2018), svo dæmi séu tekin.

Að skrifa um óttann við ofbeldi er að sjálfsögðu ekki það sama og að skrifa um ofbeldið sjálft þótt þetta séu greinar af sama meiði. Það sem vekur sérstaklega áhuga minn eru allar þessar lýsingar á ótta kvenna sem virðist til staðar burtséð frá því hvort raunveruleg hætta sé á ferðinni í þeim aðstæðum sem lýst er eða ekki. Spyrja má: Hvaðan kemur þessi kynbundni ótti og hver er ástæða hans? Hver gefur út veiðileyfi fyrir aðalmenni?

 

Reynsla og raunveruleiki kvenna

 

Slíkar spurningar eru ekki nýjar og áður en lengra er haldið er við hæfi að víkja að fyrirlestri sem Svava Jakobsdóttir flutti fyrir rúmlega fjörutíu árum, í mars 1979, og birti síðan með yfirskriftinni „Reynsla og raunveruleiki. Nokkrir þankar kvenrithöfundar.“6 Grein Svövu fjallar um „kvenlega reynslu“ og hvernig hún rekst í og á við bókmenntahefð. Svava opnar greinina með upphafi að smásögu sem varð því miður aldrei lengri en það brot sem þarna er birt og þær hugleiðingar um mögulegt framhald sem Svava ræðir í greininni. Textabrotið fjallar um konu sem er ein á ferð að kvöldlagi og er birt hér í heild:

 

 

„Umhverfið varð ókunnuglegra því meir sem dimma tók. Húsin gránuðu og virtust hækka við hvert fótmál sem dimmdi uns heimurinn var ekki nema þessi þrönga gjá með samfelldum gráum veggjum á báða vegu og ljósin í mannháum verslunum á götuhæð gerðu ekki annað en undirstrika að hún var ein á ferð í stórborg. Þeir fáu bílar sem fóru hjá óku greitt, óðfúsir að komast sem fyrr á bása sína í svefnhverfunum. Þegar hún beygði fyrir næsta horn átti hún ekki nema nokkra metra heim á hótelið og hún ætlaði, þegar hún væri sloppin inn í herbergið, að loka að sér, vefja um sig teppi í hægindastólnum og lesa bók. Þá sá hún skyndilega hvar karlmaður kom á móti henni út úr rökkrinu framundan. Hún mældi ósjálfrátt fjarlægðina á milli þeirra og án þess að greikka sporið tók hún stefnu skáhallt yfir götuna í átt að hótelinnganginum en hann breytti um stefnu í átt til hennar og var fljótari en hún. Hann var allt í einu kominn í veg fyrir hana og byrjaður af ákafa að tala og fullvissa hana um að hún þyrfti ekki að óttast sig, hann ætlaði ekki að gera henni mein, hún sæi líklega að hann væri ekki þess háttar maður, henni væri þess vegna óhætt að ganga um götur, hann ætlaði bara að láta hana vita að hún þyrfti ekki að vera hrædd ... Hún komst ekki undan, véki hún til hliðar var hann óðara kominn fram fyrir hana uns hún missti alla stjórn á sér og byrjaði að æpa ...“7

 

Svava ítrekar að hún er ekki komin lengra með þessa frásögn og geti því „ekki velt upp öllum flötum sögunnar eða spurt allra þeirra spurninga sem nauðsynlegt er að spyrja“.8 En eina spurningu hefur hún „þó á takteinum nú þegar og hún er mjög almenns eðlis: hvernig get ég gert innri reynslu raunverulega í skáldskap?“. Síðan játar hún að áður en hún skrifaði þetta upphaf að sögu hafi þetta verið persónuleg reynsla. „Ég fór að íhuga hinn skyndilega ótta sem hafði gripið mig um leið og ég sá karlmanninn. Ég vil leggja áherslu á, að ég á við óttann sjálfan, sjálft eðli hans“, skrifar Svava og spyr í framhaldinu: „Hvernig get ég sýnt í skáldskap að þessi ótti er fyrir hendi sem sérstök kvenleg reynsla eingöngu (ég geng nefnilega út frá því vísu að karlmaðurinn, sem í hlut á, hafi ekki fyllst skyndilegum óskilgreindum ótta við það eitt að koma auga á mig á rökkvuðu borgarstræti)“. 9 Svava telur ekki nægjanlega skýringu á slíkum ótta kvenna að fjölmiðlar séu uppfullir af fréttum af árásum karla á konur, af ofbeldi á síðkvöldum, af nauðgunum að næturlagi. Ekki heldur að konum sé kennt frá unga aldri að forðast þær aðstæður sem geta leitt til slíks ofbeldis. Hún segir slíkan rökstuðning geta í hæsta lagi skýrt viðbrögð sín og hegðun en „ekki sjálfan óttann sem er raunveruleg reynsla og nátengdur ofbeldinu, sem hefur þó ekki enn komið í ljós. Hvers vegna fyllist ég ótta áður en maðurinn er búinn að sýna hvort hann hefur illt í hyggju eða ekki? Því ég veit í rauninni líka, að þau skipti er kona gengur ein á götu í rökkri án þess að karlmaður ráðist á hana, eru, þegar allt kemur til alls, miklu fleiri en hin“.10

 

Í greininni „Ábyrgar konur og sjúkir karlar. Birtingarmyndir nauðgunarmenningar í íslensku samfélagi“, sem birtist í 1. hefti Ritsins 2019, benda þær Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir á að samræmi sé á milli sagna kvenna sem „gefa til kynna að kynferðislegt ofbeldi sé útbreiddur vandi“ og niðurstaðna „rannsókna sem sýna háa tíðni kynferðislegs ofbeldis og kynferðislegrar áreitni, sem og mikla ásókn í stuðningsúrræði fyrir brotaþola.“11 Þær kenna vandann við „nauðgunarmenningu“ sem „hefur verið skilgreind sem menning sem ýtir undir og viðheldur kynferðislegu ofbeldi gegn konum og samþykkir ofbeldið og ótta kvenna við ofbeldið sem norm“.12 Þær benda líka á að slík menning fái oft að viðgangast án gagnrýni og rannsóknir sýni að „almennt  viðhorf  í  samfélaginu er að  slík  menning  sé  „eðlileg“  og  óhjákvæmileg og með þeim hætti er undirokaðri stöðu kvenna í samfélaginu viðhaldið. Nauðgunarmenning er því ein af birtingarmyndum kynjamisréttis“.13 Fimm árum áður en grein þeirra Finnborgar Salome og Gyðu Margrétar birtist héldu þær fyrirlestur um sama efni með yfirskrift sem kjarnar vandann sem hér er til umræðu: „„Það er svo óþolandi að maður þurfi að sætta sig við það að maður þurfi í raun að gera ráð fyrir að þetta geti gerst!“ Um áhrif nauðgunarmenningar á daglegt líf kvenna.“14 Í fyrirlestrinum gera þær grein fyrir niðurstöðum þriggja rýnihópaviðtala við konur og karla á aldrinum 20-30 ára þar sem spurt var um ótta við nauðgun. Afgerandi munur reyndist vera á svörum kvenna og karla, en þeir síðarnefndu höfðu engar áhyggjur af því að verða fyrir slíku ofbeldi.15 Í grein sinni og fyrirlestri fjalla Finnborg Salome og Gyða Margrét, út frá sjónarhóli félagsvísinda, um nákvæmlega sama efni og hér er til umræðu, út frá sjónarhóli bókmennta, og samhljómurinn á milli þessa tveggja ólíku „orðræðu“ er algjör. Niðurstöður rannsókna þeirra „gefa vísbendingar um að margar konur lifa í ótta við nauðganir“ og að „[a]llar konur sem tóku þátt í rannsókninni upplifðu slíkan ótta öðru hverju og sumar jafnvel oft.“16 Einnig kom í ljós að „sumar konur gera ráðstafanir til að fyrirbyggja að þeim verði nauðgað úti að nóttu til, niðri í bæ, í leigubílum eða í útlöndum. Það eru konur sem stjórnast af þessum ótta, þær fara ekki út að skokka á grænum svæðum borgarinnar eða meðfram sjávarsíðunni í myrkri – hvort sem það er dagur eða nótt. Þær passa að halda sig á stöðum þar sem einhver getur heyrt í þeim ef þær þyrftu að hrópa eftir hjálp“. Niðurstöðurnar sýna einnig að konur fylgja „félagslegum reglum og „passa sig“ og sumar þeirra „eru meðvitaðar um að verja sig með „vopnum“, ef svo má að orði komast, þær eru reiðubúnar að nota lykla og penna og sumar ganga jafnvel með hníf á sér til þess að geta varist ofbeldi ef á þær verður ráðist.“17 Af rannsókninni má draga þá ályktun að óöryggi stjórnar lífi kvennanna að miklu leyti: „Óttinn hamlar konum og sviptir þær frelsi.“18 Í lokaorðum fyrirlestursins hvöttu Finnborg Salome og Gyða Margrét konur til að „skora óttann á hólm“ því hann sé „stjórntæki“ og „einn þeirra þátta sem viðhalda undirskipun kvenna“.19 Vel má segja að með því að skrifa bókmenntatexta – sögur og ljóð – um þennan ótta séu konur í hópi íslenskra rithöfunda einmitt að gera þetta; að skora óttann á hólm með því að draga slíka reynslu fram í dagsljósið, að koma þessum raunveruleika í orð á vettvangi sem hugsanlega nær til stærri hóps en rannsóknir fræði- og vísindamanna.

 

Óttinn færður í orð

Geta má sér til um að smásaga Fríðu Ísberg, „Heim“, sé í beinu samtali við ofannefnda grein Svövu sem og smásögu Fríðu Á. Sigurðardóttur „Samfylgd“ sem birtist í smásagnasafninu Við gluggann (1984). Í „Samfylgd“ segir af konu sem er á heimleið seint um kvöld eftir að hafa varið kvöldinu með vinkonum sínum. Úti er rigning og myrkur og er vísað endurtekið til þeirra aðstæðna í sögunni. Orð á borð við „myrkur“ og „dimmt“ eru síendurtekin í frásögninni og óttinn grefur smám saman um sig: „Svartir steindrangar. Villuljós. Augu sem stara á mig út úr myrkri, fylgjast með mér, bíða ...“. 20 Konan heyrir fótatak sem nálgast og hún minnist draums þar sem ótti við slíkar aðstæður kemur við sögu:

 

Ósjálfrátt herði ég ferðina. Fótatakið fyrir aftan mig verður einnig hraðara. Kaldir fingur læðast upp eftir bakinu, leika við hrygginn og laumast upp í hnakkagrófina eins og skordýr með frosna fætur. Ég hef oft hlaupið svona í draumi. Hlaupið undan einhverju eftir þröngum, dimmum strætum, krákustígum, þar sem húsin hölluðust yfir mig, skyggðu á himininn, skæld, myrk, mannlaus. Eydd borg. Hlaupið – undan einhverju ...21

 

 

Athyglisverðar samsvaranir eru við texta Svövu Jakobsdóttur í lýsingunum á húsunum sem „virtust hækka við hvert fótmál“. Í texta Fríðu Á. Sigurðardóttur kemur einnig við sögu bíll sem „kemur þjótandi á ofsahraða út úr myrkrinu [...] og þýtur fram hjá“ og minnir á bílana í texta Svövu sem „óku greitt, óðfúsir að komast sem fyrr á bása sína í svefnhverfunum.“ Orðið „fótatak“ kemur þrettán sinnum fyrir í „Samfylgd,“ sögukonan er ýmist viss um að hún heyri fótatak fylgja sér eftir eða hún telur að um ímyndun sé að ræða. Orðið „myrkur“ kemur sömuleiðis þrettán sinnum fyrir í sögunni og orðið „dimmt“ ellefu sinnum. Bæta má við orðum á svipuðu merkingarsviði („myrkfælin“, „svart“, „svartir steindrangar“, „svargráir“, „skuggi“) og orðasamböndum („hvergi nokkra glætu að sjá“). Með slíkri orðanotkun tekst Fríðu að magna upp tilfinninguna fyrir ótta konunnar sem vex smám saman uns hann er orðinn stjórnlaus og hún: „Frávita af hræðslu.“ Ógnin birtist henni sem skuggi í myrkrinu, skuggi „án andlits djúpt inni í myrkrinu“ sem hún hleypur undan í skelfingu 22

 

Allt önnur stemning ríkir í sögu Fríðu Ísberg. Hún gerist um bjarta júlínótt en það kemur þó ekki í veg fyrir óttann sem grefur um sig í ungu konunni sem er á heimleið með litla „gaddakylfu [reiðubúna] undir rykfrakkanum“.23 Hún „tekur eftir karlmanni í fjörutíu, fimmtíu metra fjarlægð. Hann gengur sömum megin götunnar, beint á móti þér, svolítið hratt. Er það óvenjuhratt?“.24 Þetta kallast á við upplifun konunnar í sögubroti Svövu sem sá „skyndilega hvar karlmaður kom á móti henni út úr rökkrinu framundan. Hún mældi ósjálfrátt fjarlægðina á milli þeirra og án þess að greikka sporið tók hún stefnu skáhallt yfir götuna“. Ólíkt karlmanninum í texta Svövu, sem fylgdi konunni eftir þegar hún tók „stefnu skáhallt yfir götuna“ og gengur í veg fyrir hana til að fullvissa hana um að hún þyrfti ekki að óttast sig, hann ætlaði ekki að gera henni mein,“ þá gengur karlmaðurinn í sögu Fríðu Ísberg sjálfur yfir götuna áður en þau mætast og það „hvarflar að þér að hann hafi skipt um gangstétt einmitt til þess að þú þyrftir ekki að óttast neitt“. 25

 

Líkt og í hugleiðingum Svövu er í sögu Fríðu Ísberg komið inn á þá staðreynd að hér er um að ræða reynslu sem allar konur þekkja, en ekki karlmenn:

 

Vinur þinn var á hjóli og þú labbandi. Þú baðst hann um að teyma hjólið, taka aukakrók með þér. Það var kalt, þetta hefur á milli vetrar og vors, hann var tregur til, skildi ekki alveg hvað málið væri. Gerði smá grín að ímyndunarveikinni í þér. Svo féllst hann á að labba líka. Þú lofaðir að bjóða honum í pönnukökur daginn eftir, sem þú gleymdir svo að gera. „Finnst þér aldrei óþægilegt að labba einn heim?“ spurðir þú þegar þið voruð komin inn í rótgróið íbúðahverfið. „Í Reykjavík?“ spurði hann vantrúaður. Horfði yfir mannlausa götuna eins og til að sýna þér meinleysi hennar.“26

 

Karlmenn eiga ekki von á kynferðislegu ofbeldi þegar þeir eru einir á heimleið að næturlagi, – eins og staðfest var í rannsókn þeirra Finnborgar Salome og Gyðu Margrétar sem áður var vísað í, og þótt ef til vill væri rík ástæða fyrir þá að óttast annars konar ofbeldi, svo sem rán eða barsmíðar, þá virðist slíkur ótti ekki vera stöðugur fylgifiskur þeirra líkt og óttinn við kynferðisofbeldi er hjá konum. Í sögubroti Svövu og í sögu Fríðu Á. Sigurðardóttur er ekki sagt með berum orðum hvers konar ofbeldi konurnar óttast en í sögu Fríðu Ísberg leikur hins vegar enginn vafi á hverskyns er. Rifjuð eru upp atvik sem hentu „litlu systur bestu vinkonu þinnar. Eða kannski var það bara besta vinkona þín“.27 Móðir óttast um dóttur sína og rifjar „upp árásartilraun niðri í bæ fyrr um árið. Hversu mörg brot voru tilkynnt á síðasta ári, að þeim fjölgi frá ári til árs“. Og móðirin trúir dótturinn fyrir leyndarmáli: „Að henni var.“28

En eitt er það sem greinir sögu Fríðu Ísberg frá sögum eldri höfundanna sem telja má áhugavert. Konurnar í eldri sögunum missa báðar stjórn á sjálfri sér, óttinn heltekur þær og önnur „byrjaði að æpa“ en hin tekur á rás: „Hendist af stað. Æði áfram. Þýt másandi fyrir hornið, fram hjá skýlinu, út á götuna, hrasa, dett. Ískrandi bíll bremsar á punktinum.“29 Konan í sögu Fríðu Ísberg fyllist hins vegar reiði:

 

Það fýkur í þig. Að vera svona hrædd. Að það sé búið að taka nóttina frá ykkur. Áður fyrr hefðirðu hlustað á tónlist á leiðinni heim. Stillt á hæsta styrk þótt það væri farið að surga í heyrnartólunum. Þú byrjar að strunsa. Þú ert komin inn í runnagöturnar, með hliðarstígum, húsasundum og háum trjám. Það er enginn sjáanlegur. Þér er skapi næst að klæða þig úr og rölta restina nakin. Löturhægt. Með eins sexí rasssveiflum og þér er unnt. Strjúka fokkjúputtum í kringum geirvörturnar ef einhver labbar framhjá. Gefa svo fingurkoss með fokkjúputtunum.30

 

Þótt slík afstaða kunni að vera verri en gagnslaus yrði konan fyrir árás má ef til vill sjá í þessari afstöðu kynslóðamun sem jafnframt er afrakstur vitundarvakningar á borð við #metoo og umræðu um að „skila skömminni“. Að auki virkar þessi kokhrausta afstaða konunnar (sem er komin langleiðina heim) sem nokkurs konar hugarléttir (e. comic relief) gagnvart þeim ótta sem sagan miðlar. Reiðin sem lýst er í upphafi tilvitnunarinnar hér að ofan kallast einnig á við yfirskrift fyrirlesturs Finnborgar Salome og Gyðu Margrétar, sem áður var rætt um, og er sótt í ummæli eins viðmælandans, ungrar konu: „Það er svo óþolandi að maður þurfi að sætta sig við það að maður þurfi í raun að gera ráð fyrir að þetta geti gerst!“

Í grein Svövu Jakobsdóttur eru ekki gefnar neinar afgerandi skýringar á þessum kvenlæga ótta enda er tilgangur hennar fyrst og fremst að draga fram það sem kalla má kvenlega reynslu sem er önnur en reynsla karla og benda á að þangað eigi kvenrithöfundar að sækja í skrifum sínum vilji þær forðast að fleyta áfram vanabundinni hugsun sem á rætur í hefð sem ekki er þeirra.31 Ljóst er að óttinn sem lýst er í sögunum sem fjallað hefur verið um hér að ofan er kvenleg reynsla og brýnt hlýtur að vera að greina rætur óttans í því skyni að uppræta hann. Svava rýnir í eigið sögubrot og hún staldrar fyrst við setninguna: „Húsin gránuðu og virtust hækka við hvert fótmál sem dimmdi uns heimurinn var ekki nema þessi þrönga gjá með samfelldum gráum veggjum ...“ og hún ályktar:

 

Ég þykist sjá að konan er ekki bara stödd á götu í tæknivæddri stórborg nútímans heldur í landslagi fjarri öllum mönnum. Rúmið sem henni er ætlað í þessari veröld þrengir æ meir að henni. Þökin á húsunum eru horfin í myrkrið fyrir ofan og sjást ekki lengur. Veggirnir enda hvergi en hækka í það óendanlega og samtímis minnkar hún (hún hlýtur að skynja sjálfa sig þannig). Og ég spyr sjálfa mig hvort þetta segi okkur eitthvað um náttúrulega tilvist konunnar í heiminum og hvaða skilyrði henni séu af þeim sökum sett – ég fer að velta því fyrir mér hvaða áhrif sú einfalda staðreynd að karlmaðurinn er stærri en konan, gæti hugsanlega haft á hana, viðhorf hennar til lífsins og á tilveru hennar yfirleitt. Gæti ekki vitneskjan um þessa staðreynd einmitt verið innbyggður þáttur í hinni áhættusömu göngu hennar þarna í götunni / landslaginu og átt nokkra sök á því að henni er ekki alls kostar rótt?32

 

Aðeins síðar skrifar Svava: „Mér sýnist konan vera þegar á flótta áður en hún mætir karlmanninum. Og áður en hún veit hvort hann er góður eða illur, hvort hann er að leita að bráð eða bara ná í aspirín.“33 Svava ítrekar að þótt konan búi ekki yfir vitneskju um erindi karlmannsins getur hún „nokkurn veginn gengið að því vísu að karlmaðurinn sem hún mætir er stærri en hún“ og hún vill koma því á framfæri að það er „hin líkamlega stærð karlmannins – í þessu tilviki – án tillits til annarra þátta, sem getur verið konunni ógn hvar sem er og hvenær sem er“.34 Það er þessi kvenlega reynsla sem Svava vill koma á framfæri í texta. En hún veltir einnig fyrir sér hvort hægt sé að draga víðtækari ályktanir af þessari einföldu staðreynd – að karlar eru að jafnaði stærri og sterkari en konur – og það skýri ótta þeirra síðarnefndu við þá fyrrnefndu:

 

Verkefni mitt er að reyna að sýna innri reynslu konunnar, viðbrögð hennar og andsvar á því andartaki er vitundin (meðvituð eða ómeðvituð konunni sjálfri) um karlmanninn sem náttúrulegt fyrirbæri og vitneskjan um margvíslega menningarlega, félagslega og stjórnmálalega þætti er henni fylgja, blandast saman í eitt. Mig langar til að kanna, hvort karlveldið á sviði kynferðismála, félagsmála, efnahagsmála og stjórnmála, eigi sér ef til vill rætur í jafnfrumstæðri tilfinningu og þeirri, að karlmaðurinn er líkamlega stærri og sterkari – hefur líkamlega yfirburði.35

 

 

Ofbeldi þrífst á kynjamisrétti

 

Áleitnasta spurningin hlýtur þó að snúast um um huglæga þætti og hugarfar fremur en líkamlega yfirburði. Hvers vegna er ofbeldi karla í garð kvenna eins algengt og raun ber vitni? Þar hlýtur fleira að koma til en sú staðreynd að karlkynið er – að meðaltali – stærra og sterkara en kvenkynið. Ótal rannsóknir staðfesta að ofbeldi þrífst á kynjamisrétti, að því meira bil sem er á milli réttinda kvenna og réttinda karla í samfélögum þess meira ofbeldi á sér stað gagnvart konum.36 Árið 1997, var haldinn fundur sérfræðinga á vegum UNESCO til að ræða tengsl karla og karlmennsku við stríð og frið.37 Markmið fundarins var að virkja þekkingu sérfræðinga á málefninu til að móta raunhæfar tillögur sem stuðlað gætu að friðsamlegum lausnum á svæðum þar sem stríðsmenning ríkir. Fundurinn var haldinn á þeim forsendum að horfast þyrfti í augu við þá staðreynd að ofbeldismenning þrífst framar öðru á kynjamisrétti og hugmyndum um karlmennsku. Í formála bókar sem gefin var út í kjölfar fundarins er bent á að kynjaþátturinn er sjaldan tekinn inn í umræðu um hvernig stuðla megi að friði, málefnið hefur verið jaðarsett eða alveg hundsað.38 Meðan að slík yfirsjón er á ferðinni – að hundsa þann þátt sem að öllum líkindum er áhrifamestur í beitingu ofbeldis og ræktun ofbeldismenningar – er varla von til úrbóta. En að sjálfsögðu hefur margt áunnist á þeim tæpa aldarfjórðungi sem liðinn er síðan efnt var til fundarins. Í því sambandi má nefna að árið 2018 voru Friðarverðlaun Nóbels veitt írönsku baráttukonunni Nadiu Murad sem hefur barist ötullega gegn kynbundnu ofbeldi og nauðgunum í stríði síðan hún slapp sjálf úr þræla- og nauðgunarbúðum Íslamska ríkisins (e. the Islamic State) eftir að hafa verið þar fangi í þrjá mánuði árið 2014.39

Félagsfræðingurinn Robert W. Connell,40 sem var þátttakandi á UNESCO fundinum, ítrekar í grein sinni í bókinni að það séu menningarlegir þættir en ekki eðlislægir sem liggja til grundvallar ofbeldi. Eðlishyggju­hugmyndum, sem ganga út frá því sem staðreynd að karlmönnum sé eðlislægt að vera árásargjarnari en konur og þar sé hormónum um að kenna, hefur verið hafnað enda sýna rannsóknir að slíkt fæst ekki staðist. Ef við ætlum að leita skýringa á kynbundnu ofbeldi verðum við að greina félagslegar og menningarlegar rætur hugmynda um karlmennsku fremur en að einblína á líffræði, ítrekar Connell.41 Við verðum með öðrum orðum að gera okkur grein fyrir því að það sama gildir um karlkynið og Simone de Beauvoir hélt fram um kvenkynið: einstaklingar eru mótaðir til að passa inn í ákveðin kyngervi, þeir fæðast sem einstaklingar en verða karlar og konur. Menningar- og félagslegt uppeldi stráka beinist að því að þeir tileinki sér karlmennsku líkt og uppeldi stúlkna beinist að því að þær tileinki sér kvenleika. Þessu fylgir einsleitni og bæling sem þegar verst lætur getur verið mjög skaðleg, bæði fyrir sálarlíf einstaklinga og samfélagið í heild.

Connell leggur áherslu á að við verðum að gera okkur grein fyrir að kyngervi er mjög flókið fyrirbæri þar sem við sögu koma meðal annars valdatengsl og efnahagslegir þættir. Kyngervi eru einnig fjölbreytileg og óstöðug, þau eru að verki á ómeðvituðu sviði jafnt sem meðvituðu og eru samofin tungumáli og táknkerfum. Þá eru þættir eins og kynþáttur og stétt einnig mikilvægir í mótun kyngervis.42 Fjölmargir fræðimenn hafa rannsakað mótun kyngervis á síðastliðnum áratugum og sá fræðimaður sem einna lengst hefur gengið í ályktunum um kyngervi er hin bandaríska Judith Butler sem gengur skrefi lengra og heldur því fram að ekki aðeins sé kyngervi fyrst og fremst gjörningur sem við fremjum í sífellu heldur megi segja það sama um líffræðilegt kyn.43

Það blasir við að það er ekkert auðhlaupaverk að umbreyta kyngervum og þar með hugmyndum um karlmennsku og kvenleika sem hafa verið að mótast um aldir. Connell leggur áherslu á að við verðum að skilja að slíkar hugmyndir eru byggðar inn í kynjatengsl og hafa neikvæðar afleiðingar bæði fyrir konur og karla.44 Nefna má sem dæmi hvernig karlveldissamfélög hafa útilokað karla frá því að sýna umhyggju og tjá tilfinningar sínar og ýtt undir (meðvitað og ómeðvitað) ofbeldistengda hegðun. Ýtrasta dæmið um það síðarnefnda er þjálfun hermanna þar sem hvatt er til nauðgana og gefin örvandi lyf til að auðvelda framkvæmd á slíkum ofbeldisverkum.

Félagsfræðingurinn Michael S. Kimmel bendir á að allt frá unga aldri er ofbeldi „forhertasti og óviðráðanlegasti hegðunarþátturinn í kynjamun“. Hann vísar í afbrota­fræðingana Michael Gottfredson og Travis Hirschi sem fullyrða „að karlmenn sé alltaf og alls staðar líklegri en konur til að fremja glæpi“.45 Gottfredson og Hirschi byggja á bandarískri tölfræði frá síðasta áratug liðinnar aldar sem sýnir að 99% þeirra sem handteknir eru fyrir nauðgun eru karlmenn, 92% þeirra sem fremja rán eru karlmenn, 87% þeirra sem handteknir eru fyrir ofbeldisárásir eru karlmenn, 85% þeirra sem handteknir eru fyrir annars konar árásir eru karlmenn, 83% þeirra sem beita heimilisofbeldi eru karlmenn, 82% þeirra sem handteknir fyrir ósæmilega hegðun á almannafæri eru karlmenn og 90% þeirra sem handteknir eru fyrir morð eru karlmenn.46 Nýrri tölur sýna svipaða niðurstöðu, auk þess sem þær bera vitni um að kynbundið ofbeldi og nauðganir eru síst á undanhaldi, þvert á móti sýnir tölfræðin aukningu á þessum sviðum. Nefna má að kynferðislegt ofbeldi sem kært var til lögreglu í Bandaríkjunum nær tvöfaldaðist á milli áranna 2017-2018.47 Líklega koma slíkar tölur fæstum á óvart, við þekkjum þessa skuggahlið karlmennskunnar því birtingarmyndir hennar blasa alls staðar við í menningu okkar og samfélagi. Það þarf að líkindum ekki að undrast að konur séu slegnar ótta þegar þær eru einar á ferð að kvöldlagi.

 

Djúpar rætur kynbundins ofbeldis

 

Birtingarmyndir kynjamisréttis sem og frásagnir af ofbeldi gegn konum gegnsýra vestræna menningu. Þær er að finna í goðsögnum, trúarbrögðum, þjóðsögum og ævintýrum, munnmælum og bókmenntum frá upphafi vega. Vissulega eru ótal frásagnir af ofbeldi gegn karlmönnum einnig að finna í þvílíkum heimildum en ég tel óhætt að fullyrða að afstaðan sem birtist í frásögum af ofbeldi gegn konum sé önnur en sú sem birtist í frásögnum af ofbeldi gegn körlum.

 

Ævintýrið um Rauðhettu er nokkurs konar erkisaga um þær hættur sem kunna að liggja í leyni fyrir konur sem eru einar á ferð. Reyndar hefur þetta tiltekna ævintýri gjörbreyst í áranna rás. Upphaflega sagan, sem varðveitt var í munnmælum og gekk á milli kvenna, lýsti þroskaferli stúlku á kynþroskaskeiði. Þegar karlmenn skráðu söguna breyttist hún yfir í varnaðarsögu fyrir ungar stúlkur. Í greininni „Rauðhetta í munnlegri geymd. Amman sem gleymdist“ rekur franski þjóðfræðingurinn Yvonne Verdier hvernig sagan breyttist frá því að vera frásögn um það hvernig stúlkur taka við kynhlutverki mömmu sinnar og ömmu yfir í að verða saga sem boðar stúlkum að vara sig á „úlfum“.48 Verdier sýnir hvernig stúlkan breytist úr geranda (í munnmælasögum kvenna) í þolanda eða fórnarlamb þegar karlmenn hófu að skrásetja söguna. Í þeirri gerð sem færð var í letur af Frakkanum Charles Perreault á 17. öld (sem endar illa; Rauðhetta er étin af úlfinum) og hinum þýsku Grimmsbræðum á 19. öld (sem endar vel; veiðimaður kemur til bjargar) verður Rauðhettusagan frásögn sem varar ungar stúlkur við því að vera einar á ferli. Þær geti átt á hættu að mæta úlfi og verða étnar af honum; í yfirfærðri merkingu karlmanni sem gæti beitt þær ofbeldi og það er nauðgun sem vofir yfir. Rauðhettu fer því best að vera hlýðin og góð – og halda sig heima. Perrault ítrekar boðskap sinn í eftirmála sögunnar með eftirfarandi vísu:

 

Drag hér af lærdóm: að þeir ungu,
einkum þó hið fagra kyn,
mega ei varast mjúka tungu
og það er ekki undarlegt
að úlfurinn gleypir þá svo frekt.
Úlfur, segi ég, því ekki allir
eru þeir búnir á sama hátt
einn er kurteis en hyggur flátt
sá ei ýlfrar eða vælir
utan meyna með blíðu tælir
inn í hús og upp í rekkju búna.
Af öllum úlfum verstan veit ég þann
vísar meyjar skyldu forðast hann.49

 

 

Stjórn á kynlífi kvenna er reyndar eitt af grundvallarstefjum karlveldis og vestrænna trúarbragða. Í Gamla testamentinu er hórsek kona það lægsta af öllu lágu og notuð sem myndlíking fyrir spillingu og guðleysi.50 Biblían geymir fjölda frásagna af ofbeldi gegn konum og körlum en ástæður ofbeldisins og aðstæðurnar sem lýst er, sem og afstaðan sem blasir við í biblíutextunum er mjög ólík í tilviki ofbeldis gegn konum annars vegar og körlum hins vegar. Þetta kristallast til að mynda í frásögn í nítjánda kafli Dómarabókar Gamla textamentisins sem ber yfirskriftina „Níðingsverk í Gíbeu“. Þar segir frá Levíta nokkrum sem er á ferð með hjákonu sína og svein. Þau þiggja gistingu og kvöldverð hjá öldruðum manni í Gíbeu og þá dregur til tíðinda:

 

En meðan þau voru að matast umkringdu illmenni nokkur úr borginni húsið, börðu á hurðina og kölluðu til húsbóndans, gamla mannsins: „Leiddu út manninn sem kominn er til þín svo við getum kennt hans.“ Þá gekk maðurinn, sem þarna réð húsum, út til þeirra og sagði við þá: „Nei, bræður mínir, fyrir alla muni fremjið ekki slíka óhæfu. Fyrst þessi maður er kominn á heimili mitt fremjið þá ekki slíka svívirðu. Hér er hjákona hans og mærin dóttir mín. Ég skal leiða þær út og þær megið þið taka nauðugar og gera við þær hvað sem ykkur langar en á þessum manni megið þið ekki fremja slíka svívirðu.“ En mennirnir hlustuðu ekki á hann. Þá þreif maðurinn í hjákonu sína og hratt henni út á strætið til þeirra og þeir nauðguðu henni og misþyrmdu alla nóttina, allt til morguns, og slepptu henni ekki fyrr en dagur rann. Þegar birta tók af degi kom konan og féll niður fyrir húsdyrum mannsins þar sem bóndi hennar var inni og lá hún þar uns bjart var orðið.

 

Meðan á ofbeldinu stendur sefur húsbóndi konunnar en um morguninn fer hann á fætur, lýkur upp húsdyrunum og segir konunni að standa upp því þau skuli halda ferð sinni áfram. Hann fær ekkert svar frá konunni sem liggur fyrir fótum hans (og er líklega látin), svo hann lyftir henni upp á asnann sinn og heldur heimleiðis: „Þegar hann kom heim tók hann hníf, þreif hjákonu sína og bútaði hana sundur í tólf hluti og sendi þá út um allar byggðir Ísraels.“ Þessi frásögn er hluti af lengri sögu Dómarabókarinnar um syndir og syndagjöld ættkvísla Ísraels og af þessu verða mikil eftirmál. Ekki verður farið nánar út í samhengið því það sem ég vildi vekja athygli á fyrst og fremst er hin gjörólíka afstaða til kynferðisofbeldis gegn körlum annars vegar og konum hins vegar. Það er óhæfa og svívirða að ætla sér að nauðga karlmanni en engin slík orð eru höfð um það níðingsverk að nauðga konum. Einnig er eftirtektarvert að þótt það sé aðeins hjákona gestsins sem verður fórnarlamb hópnauðgunarinnar þá býður gamli gestgjafinn einnig fram mærina, dóttur sína; hann er tilbúinn til að fórna henni fremur en að láta fremja svívirðu gagnvart karlkyns gesti sínum.

 

Karllægt sjónarhorn

 

En það þarf ekki að leita aftur um aldir til að finna texta sem sýna það vald sem karlar taka sér yfir líkama kvenna og afhjúpa samspil kynferðis og obeldis. Árið 2008 kom út smásagnasafnið Hálmstrá eftir Magnús Sigurðsson og þar er að finna söguna „Hvolpavit“.52 Þetta er stutt saga, þrjár og hálf blaðsíða, með látlausum en mögnuðum frásagnarstíl þar sem brugðið er upp mynd af hugarheimi ungra stráka sem líklega eru nýorðnir kynþroska, fjórtán ára gamlir. Þeir eru að æfa sund og það eru stúlkur í hópnum líka. Sagan hefst svona:

 

 

Við góndum allir á hana þegar hún kom út á laugarbakkann í fyrsta sinn, svo háfætt og þráðbein í baki, og byrjuðum fljótlega að djöflast í henni. Klipum hana í brjóstin og strukum okkur upp við hana ofan í lauginni. Eftir sundæfingarnar eltum við hana svo í heita pottinn. Gengum þétt upp við hana en skutum okkur svo ofan í pottinn á undan henni og drógum hana niður til okkar, í fangið. Hún virtist láta sér þessi strákapör okkar í léttu rúmi liggja. Sagði að minnsta kosti aldrei neitt eða bað okkur um að láta sig í friði.53

 

 

Stúlkan sem um ræðir er tveimur árum yngri en strákarnir, tólf ára gömul, en hún stendur sig svo vel í sundinu að hún er færð upp í þeirra sundflokk. Í byrjun sögunnar eru „allir“ strákanna að „djöflast“ í stúlkunni, sumir þeirra láta af áreitinu með tímanum en nokkrir þeirra geta ekki hætt. Stúlkan reynir aldrei að verjast en lesandinn skynjar vel ótta hennar og valdamisvægið sem þó er aldrei gert að umræðuefni í textanum. Það setur stúlkuna í enn veikari stöðu að hún er „útlensk“ og „hunangsbrún á hörund“, líklega frá „Bankok eða Bangladesh“ og hinar stúlkurnar vingast ekki við hana: „Þær yrtu sjaldnast á hana, líkast til af öfund. Stelpur eru þannig innrættar“, ályktar sögumaður.54 En þótt stúlkan reyni ekki að verjast biður hún drengina um að hætta og það æsir þá enn meira upp:

 

Við héldum þó áfram að strjúka okkur upp við hana sumir þegar lítið bar á, læddum forvitnum fingrum hingað og þangað og klipum. En öðruvísi en áður, með þeim hætti að nú kipptist hún til eins og við rafstraum og greip andann á lofti. Og þegar svo bar við gerðist það stundum að hún hvíslaði ofurlágt þetta einfalda orð sem gerði okkur undantekningarlaust vitlausa af girnd að heyra:

  Ekki. Ekki.55

 

Það kemur að því að drengjunum þremur tekst að króa stúlkuna eina af, „þjálfarinn hafði forfallast þann daginn“:

 

„Við elskum þig, we love you long time,“ sögðum við gamansamir og tosuðum hana til okkar, í fangið, og hleyptum henni hvergi í æsingnum sem skapaðist. Við fundum lyktina af heitum hunangskroppnum hennar og tinnusvörtu hárinu og blóðið ólgaði í okkur. Við vorum eftirlitslausir og gengum á lagið, þrýstum okkur upp að henni og stýrðum grönnum fingrum hennar innundir buxnastrengi okkar. Henni virtist líka það ágætlega, streittist hvorki á móti né bað okkur um að hætta.56

 

Með setningunni „we love you long time“ er vísað í kvikmynd Stanleys Kubrick Full Metal Jacket (1987) sem gerist í Víetnamstríðinu. Þar er setningin lögð í munn asískum vændiskonum og þykir dæmigerð fyrir hvernig Hollywood sýnir asískar konunar gjarnan sem kynferðisleg viðföng vestrænna karlmanna.57 Með því að láta drengina segja þessa hlöðnu setningu við stúlkuna gefur höfundur textanum aukna vídd þar sem vestrænir kynþáttafordómar bætast við kvenfyrirlitninguna og ofbeldisþáttinn sem sagan miðlar. Drengirnir afklæða stúlkuna en þeim stendur „stuggur hver af öðrum“ og eru „feimnir að halda áfram undir vökulu augnaráði hver annars“ svo sá elsti í hópnum rekur hina tvo út og læsir sig inni með stúlkunni:

 

Það var ekkert við því að segja. Við hlýddum, biðum þess að röðin kæmi að okkur en reyndum að hlera gegnum hurðina hvað væri á seyði. Allnokkra stund heyrðum við þó ekkert. Síðan tóku að berast lágværar stunur í gegnum hurðina sem enduðu stuttu síðar með niðurbældu veini.

  „Smyrðu örlitlu af því framan í andlitið á þér,“ heyrðum við félaga okkar segja áður en dyrnar opnuðust nokkrum mínútum síðar.58

 

Stúlkan kemur fullklædd fram ásamt drengnum sem er „glottandi og vatnseygur“. Hann skipar hinum drengjunum að láta hana vera: „stúlkan smeygði sér fram hjá okkur tveimur, horfði til jarðar og skaust þögul upp í búningsklefana.“ Þegar nauðgarinn hefur sagt félögum sínum frá samskiptunum í smáatriðum verða þeir mjög spennir og geta „ekki beðið eftir að leika sama leik“. Til þess kemur þó ekki því stúlkan hættir að mæta á sundæfingar og lokasetningar sögunnar eru: „Þó átti hún framtíðina fyrir sér, að því er þjálfarinn sagði, og harmaði mjög að hún skyldi hverfa svo snarlega úr íþróttinni.“59

Athyglisvert er að höfundur notar fyrstu persónu fleirtölu í „Hvolpavit“. Með því að nota „við“ nær Magnús Sigurðsson svipuðum áhrifum og Fríða Ísberg með ávarpinu „þú“ í sögunni „Heim“. Í sögu Fríðu er talað til allra kvenna en í sögu Magnúsar er talað fyrir hönd allra stráka; það eru „við“ sem eru gerendur í sögunni. Eins og áður sagði er stíllinn látlaus, hann er einfaldur á yfirborðinu þótt hann lýsi í raun mjög flóknum og hrollvekjandi kynjasamskiptum. Með orðum á borð við „hvolpavit“ og „strákapör“ dregur höfundur fram eðlishyggjuhugmyndir um leið og haldið er fram barnslegu sakleysi („gamansemi“) þar sem slíkt á alls ekki við. Sagan „Hvolpavit“ gefur okkur innsýn í karllega reynslu og hlýtur að staðfesta að kvenfyrirlitning sé svo rótgróin okkar menningu að enn sé mikið verk að vinna varðandi samskipti kynjanna. Mikilvægasta spurningin snýr að því hvernig sporna megi við slíkum hugsunarhætti drengja og kenna þeim að bera virðingu fyrir stúlkum og koma fram við þær sem jafningja. Kannski getur #metoo-umræðan komið að gagni hvað það varðar. Brýn nauðsyn er á breyttu gildismati í samskiptum kynjanna, eins og Svava Jakobsdóttir ítrekar í greininni sem rædd var hér að ofan. Svava bætir þar við:

 

En sjálf mundi ég halda fast við þá skoðun að ég væri að fjalla um kvenlega reynslu sem á rót að rekja til þess að konan er ofurseld félagslegu valdi sem er stærra en hún sjálf og hún á alltaf yfir höfði sér hættu á andlegu og líkamlegu ofbeldi. Tækist mér að auka skilning á nauðsyn breytts gildismats í samskiptum kynjanna (og fólks almennt) þá held ég að konan mín hafi ekki til einskis hætt sér út á almannafæri.60

 

Spyrja má hvort Svava sé í mótsögn við sjálfa sig því í grein hennar má sjá tvenns konar skýringar á ótta kvenna við að vera einar á ferli að næturlagi. Annars vegar telur hún að skýringin gæti einfaldlega legið í „jafnfrumstæðri tilfinningu og þeirri, að karlmaðurinn er líkamlega stærri og sterkari – hefur líkamlega yfirburði“ og hins vegar að skýra megi óttann með því að „konan er ofurseld félagslegu valdi sem er stærra en hún sjálf og hún á alltaf yfir höfði sér hættu á andlegu og líkamlegu ofbeldi“. Í þessu þarf þó ekki að felast mótsögn því báðar skýringarnar eru gildar og fara reyndar ágætlega saman. Svava er fyrst og fremst að velta viðfangsefninu fyrir sér og kanna ólíka fleti á því, fremur en að gera tilraun til að njörva niður ákveðna niðurstöðu.

Ef við höfum í huga það sem rætt var hér að ofan um kyngervi, karlmennsku og kvenleika má halda því fram að drengirnir í smásögu Magnúsar Sigurðssonar, „Hvolpavit,“ séu einnig ofurseldir félagslegu valdi þegar þeir taka sér það „veiðileyfi“ á hina „tvífættu bráð“ sem frásögnin miðlar. Með „nútímalegra“ orðalagi mætti segja að þeir væru, líkt og stúlkan í sögunni, ofurseldir „nauðgunarmenningu“, auk þess sem þeir hafa tvímælalaust líkamlega yfirburði gagnvart henni. Helsti munurinn er fólginn í ólíkri stöðu kynjanna innan félagslega valdakerfisins, þar sem hlutverk geranda og þolanda eru bundin ákveðnu kyni. Þessum mun miðla allir þeir bókmenntatextar sem hér hefur verið fjallað um – ekki síður en vísindalegar rannsóknir og tölfræði.

 

Lokaorð

Í inngangi var spurt, með tilvísun til hendingar úr ljóði Steinunnar Sigurðardóttur: Hver gefur út veiðileyfi fyrir aðalmenni? Kannski er svarið einfalt og blasir við í því umdeilda nýyrði íslenskrar tungu sem notað hefur verið nokkrum sinnum í þessari grein: Veiðileyfin eru hluti af nauðgunarmenningu sem virðist vera fylgifiskur samfélaga manna nú á tímum sem og fyrr á öldum. Ekki er langt síðan orðið nauðgunarmenning (e. „rape culture“) var fyrst notað í umræðu um kynbundið ofbeldi á Íslandi. Samkvæmt vefnum timarit.is birtist það fyrst á prenti 8. febrúar 2013 í tengslum við yfirlýsingu frá samtökunum UN Women, V-dags samtökunum og Lunch Beat, þar sem Íslendingar voru hvattir til þátttöku „í alheimsbyltingu gegn kynbundu ofbeldi“ með því að taka þátt í hópdansi þann 14. febrúar sama ár.61 Í umræðum á samfélagsmiðlum og víðar hefur komið í ljós að ýmsum er í nöp við þetta orð þar sem þeir telja ótækt að kenna ofbeldi á borð við nauðgun við „menningu“. Engu að síður er ljóst að hugtakið er gagnlegt því það megnar að útskýra forsendur óttans sem konur upplifa þegar þær eru einar á ferli að kvöld- eða næturlagi. Eins og rannsóknir Finnborgar Salome og Gyðu Margrétar sýna er ótti kvenna við kynferðislegt ofbeldi raunveruleiki sem hvílir á þeirri staðreynd að slík (ó)menning er til staðar. Nauðgunarmenning felst í „normalísering[u] á kynferðislegu ofbeldi og orðræð[u] sem setur ábyrgðina á brotaþola, dregur brotin í efa og afsakar gjörðir ofbeldismanna.62 Þetta er „ein ýktasta birtingarmynd kynjamisréttis“, árétta þær jafnframt og ítreka að margs konar aðgerðir séu nauðsynlegar til að uppræta þau kynjuðu valdatengsl sem „eru í senn orsök og afleiðing kynbundins ofbeldis og nauðgunarmenningar.“63 Til að stuðla að breytingum þarf bæði stjórnvaldsaðgerðir, sem og aðgerðir sem varða félagslegt og efnahagslegt réttlæti. En einnig þarf að hvetja konur til að rísa upp gegn óttanum og andæfa þeirri frelsissviptingu sem felst í því að geta ekki gengið óhræddar um götur þótt áliðið sé. Smásaga Fríðu Ísberg sker sig að því leyti frá smásögum eldri höfundanna sem nefndar voru hér að framan að í henni má merkja slíkt andóf og reiði yfir því að „það sé búið að taka nóttina frá“ konum. Og sams konar andóf og reiði má greina í „óskálduðum“ frásögnum kvenna sem birst hafa nýverið í fjölmiðlum og kallast á við þann „skáldskap“ sem hér hefur verið til umræðu. Vel fer á að enda á einni slíkri frásögn frá íslenskrar konu, Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur, sem lýsir slíku andófi og óttaleysi:

 

Ég var að koma af Ölstofunni með seinni skipunum og sá stóran mann koma á móti mér. Ég fékk óþægilega tilfinningu fyrir því en ákvað að hrista það af mér og láta þetta ekki hafa áhrif á mig. Um leið fann ég hvernig ég reis upp, bæði að innan og utan. Ég rétti úr bakinu og gekk beint fram hjá honum í stað þess að fara yfir götuna eins og ég hafði hugsað mér. Nema hvað, þegar við mættumst hvæsti hann á mig: „tík“. Ég veit ekki enn hvað þetta var, en ég ímynda mér að það hafi stuðað hann að finna að ég var óttalaus. Hann sá að ég ætlaði ekki að leyfa honum að ógna mér. Mér finnst enn skrýtið að segja frá þessu, en ég er orðin fimmtug kona og hef lent í alls konar,“ segir Hanna Björg. „Það er meira að segja búið að normalisera kynferðislega áreitni og selja okkur að þetta sé bara svona. Beint og óbeint höfum við fengið skilaboð um að tepruskapur sé bannaður og húmorsleysi sé óþolandi. Og þá er erfitt að viðurkenna það, jafnvel fyrir sjálfum sér, þegar það er gengið yfir mörkin því það vill enginn vera týpan sem gerir veður út af engu.64

 

 
Greinin birtist fyrst í Fléttur V. #MeToo
Reykjavík: RIKK og Háskólaútgáfan 2021
 
 
 
 
 
Aftanmálsgreinar
 
[1] Steinunn Sigurðardóttir, Að jörðu munt þú verða, Reykjavík: Bjartur, 2018, bls. 8.
[2] Linda Vilhjálmsdóttir, smáa letrið, Reykjavík: Mál og menning, 2018, bls. 25-34.
[3] Fríða Ísberg, Kláði, Reykjavík: Partus, 2018, bls. 37.
[4] Ásta Sigurðardóttir skrifar um ofbeldi gegn konum og börnum í ýmsum sagna sinna, sjá t.d. sögurnar „Dýrasaga“, „Frostrigning“ og „Huggun“. Í „Dýrasögu“ lýsir Ásta því á áhrifamikinn hátt hvernig fullorðinn maður hræðir lítið stúlkubarn með frásögn af hundeltu dýri, sjá Sögur og ljóð, Reykjavík: Mál og menning, 1985. Dagný Kristjánsdóttir hefur sýnt fram á hvernig túlka megi söguna sem frásögn af ofbeldi og misnotkun á barni, sjá: „Myndir“, Undirstraumar. Greinar og fyrirlestrar, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999, bls. 139-153.
[5] Fríða Á. Sigurðardóttir skrifar um grun um heimilisofbeldi í smásögunni „Ópið“, um nauðgun í smásögunni „Dagsskíma“ og um ótta konu sem er á heimleið í myrkri í smásögunni „Samfylgd“. Allar þessa sögur eru í smásagnasafninu Við gluggann, Reykjavík: Skuggsjá, 1984.
[6] Svava Jakobsdóttir, „Reynsla og raunveruleiki. Nokkrir þankar kvenrithöfundar“, Kona með spegil. Svava Jakobsdóttir og verk hennar, ritstj. Ármann Jakobsson, Reykjavík: JPV útgáfa, 2005, bls. 60-68.
[7] Sama heimild, bls. 60. Hér er textagerð Svövu Jakobsdóttur fylgt, þ.e.a.s. texti smásagnabrotsins er ætíð skáletraður, en hugleiðingarnar sem fylgja í greininni eru hins vegar ekki skáletraðar.
[8] Sama heimild, bls. 60.
[9] Sama heimild, bls. 61.
[10] Sama heimild, bls. 61.
[11] Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir, „Ábyrgar konur og sjúkir karlar. Birtingarmyndir naðugunarmenningar í íslensku samfélagi“, Ritið, 1. tbl. 19. árg. 2019, bls. 15.
[12] Sama heimild, bls. 15-16.
[13] Sama heimild, bls. 16.
[14] Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir, „Það er svo óþolandi að maður þurfi að sætta sig við það að maður þurfi í raun að gera ráð fyrir að þetta geti gerst!“ Um áhrif nauðgunarmenningar á daglegt líf kvenna, Þjóðarspegillinn. Ráðstefna í félagsvísindum XV, ritstjóri Silja Bára Ómarsdóttir, Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2014. Sjá vefútgáfu: http://hdl.handle.net/1946/20030
[15] Sama heimild, bls. 4.
[16] Sama heimild, bls. 7.
[17] Sama heimild, bls. 7.
[18] Sama heimild, bls. 8.
[19] Sama heimild, bls. 8.
[20] Fríða Á. Sigurðardóttir, Við gluggann, bls. 93.
[21] Sama rit, bls. 95.
[22] Sama rit, bls. 98.
[23] Fríða Ísberg, Kláði, bls. 37.
[24] Sama rit, bls. 40.
[25] Sama rit, bls. 40.
[26] Sama rit, bls. 42.
[27] Sama rit, bls. 38.
[28] Sama rit, bls. 39.
[29] Fríða Á. Sigurðardóttir, Við gluggann, bls. 98.
[30] Fríða Ísberg, Kláði, bls. 42-43.
[31] Sjá Svava Jakobsdóttir, „Reynsla og raunveruleiki,“ bls. 62-63.
[32] Sama rit, bls. 63-64.
[33] Sama rit, bls. 64.
[34] Sama rit, bls. 64.
[35] Sama rit, bls. 64.
[36] Sjá t.d. Michael S. Kimmel, The Gendered Society, New York og Oxford: Oxford University Press, 2004, 2. útg., kaflinn „The Gender of Violence“, bls. 264-288, og Male roles, masculinities and violence. A culture of peace perspective, ritstj. Ingeborg Breines, Robert Connell og Ingrid Eide, París: The United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization, 2000. Sjá einnig ýmsar greinar í 3. hefti Ritsins 2018 og 1. hefti Ritsins 2019. Bæði þessi hefti báru þema-yfirskriftina Kynbundið ofbeldi og varpa ljósi á viðfangsefnið út frá bæði bókmenntum og félagsfræði.
[37] Fundurinn var haldinn í Osló í september 1997 og í kjölfarið var gefin út ofannefnd bók Male roles, masculinities and violence.
[38] Sjá Male roles, masculinities and violence, bls. 9.
[39] Sjá nánar á vefsíðu Nóbelsverðlaunanna: https://www.nobelprize.org/prizes/peace/2018/murad/facts/
[40] Nefna má að ástralski félagsfræðingurinn Robert W. Connell hefur látið leiðrétta kyn sitt og heitir núna Raewyn Connell (sjá: https://en.wikipedia.org/wiki/Raewyn_Connell). Hér verður hins vegar að sjálfsögðu vísað til þess höfundarnafns sem heimildin ber, eins og reglur kveða á um.
[41] Robert W. Connell, „Arms and the man: using the new research on masculinity to understand violence and promote peace in the contemporary world“, Male roles, masculinities and violence, bls. 22-23.
[42] Sama rit, bls. 23.
[43] Sjá Judith Butler, Gender Trouble: Feminism and the Subversion of Identity, New York: Routledge, 1990; Bodies That Matter: On the Discursive Limits of Sex, New York: Routledge, 1993; og Undoing Gender, New York: Routledge, 2004.
[44] Robert W. Connell, „Arms and the man,“ bls. 23.
[45] Það er rétt að taka fram að í kjölfar #metoo-umræðunnar hafa komið fram ásakanir á hendur Michael S. Kimmel, sem í áraraðir hefur verið talinn einn fremsti rannsakandi á sviði karlmennskufræða, og því kann einhverjum að þykja vafasamt að vísa til rannsókna hans. Ég deili ekki þeirri skoðun og tel að vafasamara sé að henda áhugaverðum rannsóknarniðurstöðum þótt rannsakandinn sjálfur kunni að vera gallagripur. Um þetta má lesa nánar, t.d. hér: https://www.insidehighered.com/news/2018/08/10/michael-kimmels-former-student-putting-name-and-details-those-harassment-rumors.
[46] Sama rit, bls. 265. Tölfræðin er úr skýrslu frá United States Department of Justice, „Uniform Crime Reports“, frá 1991.
[47] „The rate of rape or sexual assault increased from 1.4 victimizations per 1,000 persons age 12 or older in 2017 to 2.7 per 1,000 in 2018.“ Sjá Rachel E. Morgan og Barbara A. Oudekerk, „Criminal Victimization, 2018“, U.S. Department of Justice. Office of Justice Programs. Bureau of Justice Statistics, bls. 2, sjá á vef: https://www.bjs.gov/content/pub/pdf/cv18.pdf. Á bandarísku vefsíðunni Bureau of Justice Statistics má finna allskyns tölfræði sem varða ofbeldi. Upplýsingarnar eru flokkaðar á ýmsan máta, eftir borgum, eftir eðli glæpanna o.fl. Það væri efni í  nýja grein að taka saman og greina þá tölfræði sem þarna má skoða – líkt og Gottfredson og Hirschi gerðu við skýrslur frá árinu 1997. Því læt ég nægja að benda á vefsíðuna fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér málið nánar: https://www.bjs.gov/index.cfm?ty=pbdetail&iid=6686
[48] Yvonne Verdier, „Rauðhetta í munnlegri geymd. Amman sem gleymdist“, íslensk þýðing Guðrún Bjartmarsdóttir, Tímarit Máls og menningar, 3/1983, bls. 284-305. Sjá einnig umræðu um þetta í: Kristín Stella L‘orange, „Litlar stúlkur og úlfar. Rauðhetta í Ást á rauðu ljósi og kvikmyndinni Freeway“, Tímarit Máls og menningar, 4/2008, bls. 61-70.
[49] Yvonne Verdier, „Rauðhetta í munnlegri geymd. Amman sem gleymdist“, bls. 288.
[50] Sjá t.d. Esíkíel 16. kafli og Hósea 2. kafli. Texta allra íslenskra Biblíuþýðinga er að finna á rafrænu formi á biblian.is.
[51] Hér er vísað í þýðinguna frá 2007 sem kölluð er Biblía 21. aldarinnar. Þessa yfirskrift 19. kafla Dómarabókarinnar er ekki að finna í fyrri þýðingum Biblíunnar á íslensku. Í Viðeyjarbiblíu (1841) hefur kaflinn yfirskriftina „Illvirki Gíbeiíta“ en í Guðbrandsbiblíu (1584) og í þýðingunni frá 1981 ber kaflinn enga yfirskrift.
[52] Magnús Sigurðsson, Hálmstrá, Reykjavík: Uppheimar, 2008, bls. 20-23.
[53] Sama rit, bls. 20.
[54] Sama rit, bls. 21.
[55] Sama rit, bls. 21.
[56] Sama rit, bls. 22.
[57] Sjá t.d. Sam Louie, „White Sexual Imperialism: ‘Me Love You Long Time’“, AsAmNews, 7. ágúst 2013 og Sunny Woan, „White Sexual Imperialism: A Theory of Asian Feminist Jurisprudence“, Washington and Lee Journal of Civil Rights and Social Justice 14, 2/2008.
[58] Magnús Sigurðsson, Hálmstrá, bls. 23.
[59] Sama rit, bls. 23.
[60] Svava Jakobsdóttir, „Reynsla og raunveruleiki“, bls. 68.
[61] Sjá „Milljarður rís, alþjóðleg bylting. Dansað gegn kynbundnu ofbeldi“, Fréttatíminn, helgin 8.-10. febrúar 2013, bls. 2: https://timarit.is/files/39813419
[62] Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir, „Ábyrgar konur og sjúkir karlar“, bls. 35.
[63] Sama heimild, bls. 37-38.
[64] Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, „Vitni að grófri árás á vinkonu“, [Viðtal við Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur], Dagblaðið Vísir, DV 11.-13. mars 2014, bls. 2-3, sjá vefsíðu: https://timarit.is/files/39512564