SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir24. ágúst 2025

LINDA HLAUT LJÓÐAVERÐLAUN GUÐMUNDAR BÖÐVARSSONAR

Í gær voru afhent Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar og komu þau í hlut Lindu Vilhjálmsdóttur. Verðlaunin eru veitt fyrir ævistarf í ljóðlist og voru fyrst veitt árið 1994. Fyrri verðlaunahafar eru Anton Helgi Jónsson, Steinunn Sigurðardóttir, Jóhann Hjálmarsson, Vilborg Dagbjartsdóttir, Gerður Kristný, Hjörtur Pálsson, Þórarinn Eldjárn, Þorsteinn frá Hamri, Ingibjörg Haraldsdóttir, Þuríður Guðmundsdóttir og Hannes Sigfússon.

Linda Vilhjálmsdóttir er fædd 1. júní 1958 í Reykjavík og ólst upp á Seltjarnarnesi. Linda er sjúkraliði að mennt og starfaði við það um árabil, meðfram ritstörfum. Fyrsta ljóðabók hennar, Bláþráður, kom út 1990 en síðan hefur hún sent frá sér átta ljóðabækur til viðbótar og skáldævisöguna Lygasaga sem kom út 2003. Linda hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir ljóðlist sína, m.a. Ljóðstaf Jóns úr Vör, Menningarverðlaun DV og Viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Fyrir ljóðabókina Frelsi hlaut hún verðlaun bókmenntahátíðarinnar „European Poets of Freedom“ sem haldin var í Gdansk í Póllandi árið 2018. Linda var heiðursskáld ljóðatímaritsins SÓNAR árið 2023.

Við óskum Lindu hjartanlega til hamingju með þennan heiður!

 

Tengt efni