SPENNUSÖGUR EFTIR KONUR
Þessa dagana er Jólabókaflóðið í algleymi enda styttist í hátíðarnar sem geyma fögur fyrirheit um mjúkan sófa, rjúkandi kaffibolla, konfekt í skál, reisulegan bókastafla og jafnvel nýfallinn snjó. Hér á Skáld.is höfum við leitast við að segja aðeins frá því helsta sem konur eru að senda frá sér þessa dagana og er vel þegið að fá ábendingar um ný verk sem kunna að hafa farið framhjá okkur.
Meðal þeirra verka sem koma út um þessar mundir eru hinar sívinsælu spennusögur og þar láta konur ekki sitt eftir liggja. Hér verður gerð stuttlega grein fyrir þeim helstu:
Óvissa eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson er hennar tíunda verk en önnur spennusagan sem hún sendir frá sér. Sú fyrri Mannavillt, sem kom út í fyrra, þótti sumpart nýstárleg viðbót við glæpasagnaflóruna og þykir það sömuleiðis eiga við nýju bókina.
Um Óvissu:
Horfinn eiginmaður, kafbátaumferð í Reykjavíkurhöfn að næturþeli og ímyndunarveikur unglingur. Allt eru þetta óvæntar hliðar á nýju máli sem vinirnir Linda Lilja og Gabríel sogast inn í. Þau eru ekki hinir dæmigerðu spæjarar, bæði stödd á tímamótum í lífi sínu og hafa nóg á sinni könnu. Engu að síður ákveða þau að reyna að komast til botns í atburðarás sem vekur villtar spurningar um gullleit, njósnir og ýmislegt fleira. Svörin koma á óvart þótt þau ættu að liggja í augum uppi. (Forlagið 2022)
Eva Björg Ægisdóttir hefur sent frá sér glæpasögu árlega allt frá árinu 2018. Hennar fyrsta verk, Marrið í stiganum, hlaut bæði glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn og Íslensku hljóðbókaverðlaun. Bókin sem kom út núna kallast Strákar sem meiða.
Um Stráka sem meiða:
Maður finnst myrtur í sumarbústað í Skorradal. Á veggnum fyrir ofan hann hafa verið skilin eftir blóðug skilaboð.
Elma glímir hér við sérlega erfitt mál sem teygir anga sína víða um samfélagið og tugi ára aftur í tímann – ekki síst eftir að gömul dagbók ungs drengs finnst. Og á Akranesi er fólk sem vill alls ekki að sannleikurinn komi í ljós. (Forlagið 2022)
Guðrún Guðlaugsdóttir hefur skrifað ævisögur, viðtalsbækur, skáldsögur, smásögur og ljóð og kom fyrsta verk hennar út árið 1978. Frá árinu 2014 hefur hún hins vegar einbeitt sér að glæpasagnaritun og sendir nú frá sér tíundu bókina sem ber titilinn Mannsmyndin.
Um Mannsmyndina:
Bláleitur litur á líki verður Ölmu Jónsdóttur blaðamanni að rannsóknarefni. Hún er að þreifa sig áfram á nýjum slóðum, taka hlaðvarpsviðtal. Dulrænar sýnir viðmælanda hennar vekja óhug og einnig bernskuár hans og fortíð þar sem undarleg dauðsföll koma við sögu. (Bókatíðindi 2022)
Jónína Leósdóttir sendi frá glæpasöguna Varnarlaus á dögunum. Sagan er önnur bók hennar um tvíeykið Adam og Soffíu en sú fyrri, Launsátur, kom út í fyrra. Jónína hefur skrifað sögur af ýmsu efni en fyrir fáeinum árum sneri hún sér alfarið að ritun spennusagna. Frumraun hennar í þeim flokknum var Konan í blokkinni sem kom út árið 2016 og hlaut Blóðdropann.
Um Varnarlaus:
Adam er rétt mættur í vinnuna á sálfræðistofunni Sáló þegar barni er rænt úr afgreiðslunni. Síðar sama morgun vélar fyrrverandi eiginkona hans, rannsóknarlögreglukonan Soffía, hann til að taka að sér mál sem Adam er viss um að stangast alvarlega á við siðareglur stéttarinnar. Til að flækja lífið enn frekar haga aldraðir foreldrar hans í Englandi sér stórundarlega og leyndarmálið um Jennýju, hliðarsjálfið sem lakkar á sér neglurnar þegar enginn sér til, er sífellt á barmi þess að komast upp. (Forlagið 2022)
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kemur að samningu Reykjavík: glæpasögu, ásamt Ragnari Jónassyni. Þetta er hennar fyrsta skáldverk en hún hefur áður sent frá sér á bók lokaritgerð sína við Háskóla Íslands um glæpasögur: Glæpurinn sem ekki fannst: saga og þróun íslenskra glæpasagna. Því má ætla að hún sé vel heima í þessum flokknum.
Um Reykjavík: glæpasögu:
Í ágúst 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, úr vist í Viðey og eftir það spyrst ekkert til hennar. Áratugum saman hvílir mál Láru þungt á íslensku þjóðinni og engin skýring kemur fram á hvarfi hennar. Í ágúst 1986 fer ungur blaðamaður að grafast fyrir um þetta dularfulla mannshvarf með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Hér bjóða Ragnar Jónasson og Katrín Jakobsdóttir lesendum í ferðalag á vit sumarsins þegar Reykjavík átti 200 ára afmæli, Bylgjan og Stöð 2 voru að fara í loftið og leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs stóð fyrir dyrum. Og þetta sumar komu líka fram óvæntar vísbendingar um afdrif Láru Marteinsdóttur. (Forlagið 2022)
Lilja Sigurðardóttir er glæpasagnahöfundur og leikskáld. Hún sendi nýverið frá sér spennusöguna Drepsvart hraun og er hún tíunda útgefna verkið hennar. Fyrsta spennusagan, Spor, kom út árið 2009. Næsta fylgdi árið eftir og síðan hefur Lilja gefið út bók á hverju ári frá 2015. Hún hefur í tvígang hlotið Blóðdropann og einu sinni Grímuna.
Um Drepsvart:
Drepsvart hraun er fimlega fléttuð og hressandi spennusaga um ókannaðar lendur og óhugnanlegar fyrirætlanir. Áður eru komnar út þrjár bækur um sömu persónur, Helköld sól, Blóðrauður sjór og Náhvít jörð.
Þegar Áróra fær þær fréttir að ókunnugt barn segist vera systir hennar endurfædd bregður henni illa þótt staðhæfingin sé fráleit. Hún hefur leitað systur sinnar án árangurs í þrjú ár en nú virðist þetta litla barn búa yfir nýrri vitneskju. Sama dag kemur lögreglumaðurinn Daníel heim og finnur kveðjubréf frá leigjanda sínum, dragdrottningunni Lady Gúgúlú, sem kveðst þurfa að fara úr landi í skyndi. Þetta hljómar einkennilega – og þegar ógnandi menn birtast í leit að drottningunni verður ljóst að eitthvað verulega undarlegt er á seyði. (Forlagið 2022)
Margrét S. Höskuldsdóttir er nýr höfundur með sína fyrstu skáldsögu sem nefnist Dalurinn. Þessi spennusaga sker sig nokkuð úr öðrum sem hér er fjallað um því hún kom út í sumar. Sagan hefur því hlotið nokkra umfjöllun og þykir góð frumraun.
Um Dalinn:
Sif dvelur ein í sumarbústað vestur á fjörðum við ritgerðaskrif. Umfjöllunarefnið eru draugar og vættir dalsins sem aldrei hafa raskað ró hennar fyrr en nú. Sem betur fer er æskuvinur ekki langt undan og jafnvel ferðamaður í vanda veitir visst öryggi – þar til allt sveipast skyndilega óvissu og Sif veit ekki lengur hverju er hægt að treysta. Hér stígur fram nýr spennusagnahöfundur með grípandi sögu sem engin leið er að leggja frá sér. (Forlagið 2022)
María Siggadóttir sendi frá sér barnabókina Jólasögu úr Ingólfsfjalli árið 2014, myndskreytta af Ellisif Malmo Bjarnadóttur og ljóðabækurnar Stjörnudamask á þvottasnúru (2017) og Í gegnum laufþakið (2020). Í ár kom út smásagan Táknmál norðurljósanna og spennusagan Hvítserkur.
Um Hvítserk:
Maður nokkur finnst myrtur í heimahúsi og við rannsókn málsins blandast atburðarásin saman við smygl á eiturlyfinu Vermaak, einhverju hættulegasta eiturlyfi sem vitað er um. Hera Hallvarðsdóttir rannsóknarlögreglukona og félagar hennar, sem annast rannsókn málsins, hafa í mörg horn að líta. Spennusaga sem heldur lesandanum í óvissu fram á síðustu stundu. (Forlagið 2022)
Ragnheiður Gestsdóttir hefur sent frá sér á annan tug verka fyrir bæði börn og fullorðna og hlotið fjölda verðlauna. Í fyrstu skrifaði hún einkum, og myndskreytti, bækur fyrir unga fólkið en síðustu verk hennar eru spennusögur fyrir fullorðna. Blinda er þriðja glæpasagan hennar en sú fyrsta, Farangur, hlaut Blóðdropann árið 2021 og er auk þess tilfnefnd til Glerlykilsins 2023.
Um Blindu:
Þegar sjónin dofnar og myrkrið færist nær verður eitt – og aðeins eitt – skýrt og augljóst. Glæpsins þarf að hefna. En hvernig á hún að fara að því?
Sólveig er ósköp venjuleg kona; tæplega sextug ekkja, móðir og amma. Glæpur sem framinn var fyrir mörgum árum hefur mótað líf hennar og fjölskyldunnar, þótt enginn viti af honum nema hún sjálf. Og hann. Sá sem þarf að deyja. (Forlagið 2022)
Rannveig Borg Sigurðardóttir sendi frá sér spennusöguna Tálsýn fyrir skemmstu en hún er önnur bók höfundar. Fyrsta bókin kom út í fyrra og ber titilinn Fíkn en Rannveig Borg hefur undanfarin misseri lagt stund á meistaranám í alþjóðlegum fíknifræðum. Fíkn þótti góð frumraun og hlaut góðar viðtökur á Storytel.
Um Tálsýn:
Líf Önnu er eins og spegilslétt yfirborð vatnsins. Þar birtist mynd af framakonu sem allir vegir eru færir. Hún gegnir ábyrgðarmiklu starfi hjá alþjóðlegum fjárfestingabanka í Sviss, þar sem hún býr ásamt eiginmanni sínum og syni, og hennar bíða frekari vegtyllur. Sjónvarpsmaðurinn Tryggvi vinnur að þáttum um þessa íslensku framakonu í hörðum heimi viðskiptanna og með þeim þróast vinskapur. En er allt sem sýnist? Spegill vatnsins gárast og óljósir atburðir og vísbendingar um að óvinveitt öfl sæki að Önnu og eiginmanni hennar hrannast upp. Um leið vitja hennar draugar úr fortíðinni og smám saman molnar úr undirstöðum þess lífs sem hún hefur skapað sér. Þegar þræðirnir koma saman stendur Anna frammi fyrir erfiðum valkostum – en kannski hefur hún ekkert val. (Forlagið 2022)
Yrsa Sigurðardóttir sendir frá sér bók nú sem fyrri ár og nefnist nýja bókin Gættu þinna handa. Yrsa hefur verið einn okkar þekktasti glæpasagnahöfundur og eru sögur hennar að nálgast 20 talsins. Hún hóf sinn rithöfundaferil þó sem barnabókahöfundur. Hún hefur hlotið Íslensku barnabókaverðlaunin og í þrígang hreppt Blóðdropann. Þá var spennusagan Ég man þig (2010) kvikmynduð og frumsýnd árið 2017.
Um Gættu þinna handa:
Fimm vinir halda til Vestmannaeyja um miðjan vetur. Tilefnið er sorglegt, jarðarför gamallar vinkonu, en endurfundirnir eru líka ánægjulegir. Fljótlega verður þó ljóst að þau eiga óuppgerð mál úr partíi sem þau héldu sjö árum fyrr á stúdentagarði og hlaut örlagaríkan endi. Og ekki er víst að allir eigi afturkvæmt úr þessari ferð.
Lögregluteymið sem Yrsa Sigurðardóttir kynnti til sögunnar í bók sinni Lok lok og læs snýr hér aftur og rannsakar flókið mál í sögu sem fær hárin til að rísa. (Forlagið 2022)