SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir24. júní 2023

SKÁLDREKI ER HVALREKI

Ewa Marcinek og Natasha S. (ritstjórar). Skáldreki. Ritgerðasafn höfunda af erlendum uppruna. Una útgáfuhús. 2023, 169 bls.

Skáldreki. Ritgerðasafn höfunda af erlendum uppruna kom út fyrir skemmstu og geymir tíu ritgerðir/sögur eftir jafnmarga höfunda, frá níu löndum. Sömuleiðis er þar að finna inngangsorð eftir ritstjórana Ewu Marcinek og Natöshu S. og formála eftir Elizu Reid. Höfundarnir eru allir kynntir í bókarlok og líkt og undirtitill gefur til kynna eiga þeir það sammerkt að vera af erlendu bergi brotnir.

Þarna tjá sig sjö konur og þrír menn; Ewa Marcinek og Natasha S. eiga þarna frásagnir og Margrét Ann Thors, angela rawlings, Helen Cova, Francesca Cricelli, Giti Chandra, Jakub Stachowiak, Joachim B. Schmidt og Mazen Maarouf. Sumir textanna eru þýddir og eru þýðendurnir Kristín Ingu Viðarsdóttir, Benedikt Hjartarson og Pedro Gunnlaugur Garcia.

Þrátt fyrir að textar bókar séu skilgreindir sem ritgerðir þá eru þeir jafnan ljóðrænni en svo. Höfundarnir hafa einnig allir fengist við skriftir og hafa langflestir sent frá sér fagurfræðilega texta. Þau eru einnig nokkur sem gera það að umtalsefni hversu erfitt það er að lifa af ritstörfum á Íslandi þar sem listamannalaun séu síður en svo auðfengin. Það eru einnig mörg um hitunina hér á landi enda vart þverfótað fyrir rithöfundum, líkt og kemur fram í frásögninni „Misskilningur“ eftir Margréti Ann Thors, í þýðingu Kristínar Ingu Viðarsdóttur:

Hún spurði mig hvað annað ég væri að gera hérna á landinu. „Ég er rithöfundur,“ sagði ég henni. „Ég er að skrifa skáldsögu.“

Augu hennar ljómuðu. „Það er frábært. Maðurinn minn er líka rithöfundur.“

Eru það ekki allir? Langaði mig til að segja. Tölfræðilega, miðað við höfðatölu, er varla hægt að henda frá sér ketti í Reykjavík án þess að hann lendi á rithöfundi, er það nokkuð?

(Bls. 40)

 

Tungumálaerfiðleikar gera aðkomuhöfundum mjög erfitt fyrir. Francesca Cricelli lýsir því með afar myndrænum hætti í sögu sinni „Frú mín góð, hvar er tungan þín?“, í þýðingu Pedro Gunnlaugs Garcia. Þar er sögumaður staddur hjá íslenskum tannlækni sem furðar sig á ástandinu:

„Frú mín góð, hvar er tungan þín? Er engin tunga í þessum munni? Hmm, bíddu, ég sé kannski eitthvað, já, já, það er hérna örlítill tittur alveg aftast í þessum stóra kjafti, fullum af tönnum fyrir innan þessar stóru varir, svo lítil tunga og skitin að hún getur ekki einu sinni sleikt tennurnar, getur ekki myndað nein hljóð, hún er mjög langt frá því að nýta allt þetta pláss sem stendur til boða.“ Þessa smávöxnu tungu nota ég þegar ég sé son minn koma brosandi úr leikskólanum og segi eitt eða annað á íslensku. Ég spyr á íslensku hvort hann vilji ganga og man að þegar það eru tvö b í orði hljómar það eins og p fyrir mér: labba. Örsmá tungan dugar bara til að syngja sól úti sól inni sól í hjarta sól í sinni sól bara sól þegar ég keyri að morgni til en mér finnst enn vera nótt, til þess að róa kappklæddan son minn sem situr spenntur í barnabílstól aftur í.

(Bls. 134)

 

Fjölmörg dæmi önnur mætti nefna um upplifun þessara höfunda af íslensku samfélagi, tungu og bókmenntalífi. Ritstýrur orða það svo í inngangsorðum að sögurnar bjóði upp á ferskt sjónarhorn aðkomuhöfunda, frumlegheit í beitingu tungumálsins, ótta þeirra og drauma: „Hörund. Bein. Kjöt. Fitu. Nú erum við ykkar.“ Það er vel óhætt að taka undir þessi orð. Sögurnar eru ferskt framlag til íslenskra bókmennta, sannkallaður hvalreki.

 

Tengt efni