SPENNANDI JÓL
Spennusögur eru sívinsæl bókmenntagrein og hefur kvenhöfundum fjölgað mjög með árunum. Trúlega er Birgitta H. Halldórsdóttir fyrsta íslenska konan til að senda frá sér sakamálasögu en skáldsagan Inga kom út árið 1983 og var hún lengi vel ein um hitunina. Í ár eru spennusögur eftir konur a.m.k. 13 talsins, ef ekki fleiri.
Yrsu Sigurðardóttur þekkja trúlega flest en hún hefur verið hvað lengst að. Fyrsta spennusaga hennar kom út árið 2005 og hefur hún sent frá sér bók síðan á nær hverju ári. Hún hefur hlotið bæði verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín. Nýjasta bókin nefnist Ég læt sem ég sofi.
Jónína Leósdóttir hefur skrifað bækur af ýmsu efni en árið 2016 sendi hún frá sér fyrstu bókina um hina geðþekku Eddu: Konan í blokkinni og var hún tilnefnd til Blóðdropans. Í ár kom út sjötta bókin sem hverfist um sömu aðalpersónuna: Voðaverk í Vesturbænum.
Óhætt er að segja að Eva Björg Ægisdóttir hafi komið inn í þennan spennandi heim svo að eftir var tekið en fyrsta sagan hennar, Marrið í stiganum, hlaut Svartfuglinn árið 2018. Eva Björg hefur sent frá sér bók á hverju ári síðan og hlotið fleiri viðurkenningar. Nýjasta verk hennar kallast Kvöldið sem hún hvarf.
Ragnheiður Gestsdóttir skrifaði í fyrstu sögur fyrir börn og unglinga, sem hlutu mikla athygli, en frá árinu 2019 hefur hún einkum sent frá sér spennusögur og hlaut hún Blóðdropann fyrir Farangur árið 2022. Í ár kom út bókin Týndur en hún var nýlega tilnefnd til Blóðdropans.
Ragnheiður Jónsdóttir er tiltölulega nýr höfundur en hún sendi frá sína fyrstu bók í fyrra, Blóðmjólk, og hreppti hún Svartfuglinn. Í ár kom út bókin Svikaslóð. Margrét S. Höskuldsdóttir hefur einnig sent frá sér tvær spennubækur, þá fyrri og fyrstu, Dalinn, árið 2022 sem fékk fínar viðtökur og í ár kom út sagan Í djúpinu.
Nanna Rögnvaldardóttir er orðin löngu kunn fyrir matreiðslubækurnar sínar en í ár kom út fyrsta spennusagan eftir hana, Þegar sannleikurinn sefur. Anna Rún Frímannsdóttir og Þóra Sveinsdóttir eru nýir höfundar og með sínar fyrstu bækur. Bók Önnu Rúnar nefnist Dauðaþögn og bók Þóru heitir Sjúk.
Þá færist í vöxt að höfundar gefi sögur sínar eingöngu út hjá Storytel. Nefna má Önnu Margréti Sigurðardóttur með sína fjórðu sögu, Öskrið, og þrjá höfunda aðra sem eru með sínar fyrstu bækur: Hugrúnu Björnsdóttur með spennusöguna Rót alls ills, Kolbrúnu Valbergsdóttur með söguna Hún gengur í myrkri og Unni Lilju Aradóttur með 17 ástæður til að drepa.