SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 1. mars 2025

SKÁLDKONUR VESTURBÆJAR

Í gamla Vesturbænum hafa hreiðrað um sig ófáar skáldkonur, til lengri eða skemmri tíma, og verða nokkrar nefndar hér:

Fyrst má nefna Guðrúnu Helgadóttur (1935-2022) sem var bæði rithöfundur og stjórnmálakona. Hún bjó á Túngötu 43 í mörg ár. Guðrún skrifaði einkum bækur fyrir börn og eru bækurnar um uppátektasömu tvíburabræðurna Jón Odd og Jón Bjarna einna þekktastar en þær hafa verið margsinnis útgefnar og kvikmyndaðar. Árið 2018 voru Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur  stofnuð henni til heiðurs.

Jóhanna Kristjónsdóttir (1940-2017), blaðakona og rithöfundur, bjó ásamt fjölskyldu sinni í aldagömlu húsi að Drafnarstíg 3. Hún sendi frá sér afar athyglisvert byrjendaverk, Ást á rauðu ljósi, aðeins tvítug að aldri. Hún skrifaði einnig nokkuð um ævi sína og hin seinni ár lét hún heillast af Miðausturlöndum og skrifaði vinsælar bækur um heimshlutann. Hér má nálgast bloggið hennar.

Elísabet Jökulsdóttir (f. 1958), dóttir Jóhönnu, bjó um hríð á Drafnarstígnum. Hún flutti síðar á Framnesveg 56a og bjó þar um árabil þar til hún flutti til Hveragerðis. Elísabet lætur sér fátt fyrir brjósti brenna en frægt er orðið þegar hún bauð sig fram til forseta árið 2016 og gerði þá baráttu mun skemmtilegri en ella hefði orðið. Um þessar mundir sýnir Kriðpleir verk sem er spunnið í kringum leikverk Elísabetar.

Sigrún Eldjárn (f. 1954), rithöfundur og myndlistarkona, bjó á bernskuárum sínum í íbúð á Þjóðminjasafninu þar sem faðir hennar, Kristján Eldjárn, síðar forseti Íslands, var þjóðminjavörður. Sigrún hefur skrifað og myndskreytt bækur fyrir börn og sendi hún nú síðast frá sér bókina Sigrún í safninu en þar segir hún frá uppvexti sínum í þessu merka húsi. 

Jónína Leósdóttir (f. 1954) er Vesturbæingur í húð og hár. Hún hefur skrifað bækur af ýmsum toga en helgað sig spennusögum síðasta áratuginn. Flestar fjalla þær um Eddu á Birkimelnum sem lætur hvergi deigan síga þó hún sé um sjötugt. Í nýjustu bókinni er hún komin á kunnuglegar slóðir en sú ber titilinn Voðaverk í Vesturbænum. Hér má skoða heimasíðu Jónínu.

Kristín Ómarsdóttir (f. 1962) býr á Vesturgötu 33b. Hún er einn frumlegasti höfundur þjóðar þar sem stíll hennar og skáldskaparheimur er ólíkur því sem fólk á að venjast. Kristín hefur einnig unnið að myndlist og er hún alltumlykjandi því í garði hennar stendur Glerhúsið sem er listamannarekið gallerí.   

Ásdís Óladóttir (f. 1967) er búsett í Vesturbænum. Hún er skáldkona og kom fyrsta ljóðabók hennar út fyrir þrjátíu árum. Nýjasta bók Ásdísar ber titilinn Rifsberjadalurinn og er hún tilnefnd til Fjöruverðlauna. Ásdís er einnig aðalsöngkona kvennahljómsveitarinnar Gertrude and the flowers en sveitin flytur lög við ljóð hennar. Hér má hlýða á lag með hljómsveitinni.

Þórunn Valdimarsdóttir (f. 1954), sagnfræðingur og rithöfundur, býr á Bárugötu 5. Þórunn er jafnvíg á skáldskap og sannfræði og hefur hún skrifað skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur og sagnfræðirit, auk fjölda greina og þátta fyrir útvarp og sjónvarp. Þórunn nafn myndlist í Mexíkó og hefur hún m.a. sett upp sýningu í fyrrnefndu Glerhúsi á Vesturgötunni.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir (f. 1968) er búsett í Vesturbænum. Kristín Ragna er myndlistarkona og rithöfundur og hefur hún í verkum sínum kynnt fornan heim goða og hetja fyrir ungum lesendum. Þá er Kristín Ragna  hönnuður Njálurefilsins sem er líklega sá lengsti í heimi, 91.6 metrar. Hér má fræðast frekar um þennan merkilega refil.