HVAÐ Á AÐ LESA Í JÓLAFRÍINU? VIÐ MÆLUM MEÐ!

Í jólafríinu er fátt betra en að lesa góðar bækur og ekki síst er gaman að kynna sér frumsamdar íslenskar skáldsögur og ljóð ásamt þýðingum á áhugaverðum erlendum bókmenntum. Oft leynast líka gimsteinar í flokki fræðirita og ævisagna, það er svo sannarlega af mörgu að taka.
Hér á eftir fara nokkrar tillögur frá ritstjórn um áhugaverðar bækur sem vert er að sökkva sér niður í, kannski með konfektið á hliðarlínunni.
Einkum er horft til þeirra bóka sem ekki hlutu náð á árinu hjá auglýsendum og dómnefndum, hafa kannski ekki farið mjög hátt en eiga fyllstu athygli skilið.
JÓNA MÆLIR MEÐ:

SÍÐUSTU DAGAR SKELJASKRÍMSLISINS eftir Steinunni G. Helgadóttur
Síðustu dagar skeljaskrímslisins er „enn ein dystópían" að sögn höfundar. Hún á að gerast í kringum 2040 í ótilgreindum smábæ á Suðurnesjum þar sem ríkir alger stöðnun. Aðalsögupersónan er æði sérstök, líkt og margar persónur Steinunnar, en hún býr ein og barnlaus í björgunarskipi, bruggar rabarbaravín og skrásetur tilvitnanir upp úr gömlum annálum.
Þetta er er ákaflega vel skrifuð saga, frumleg og efni hennar á sannarlega erindi, ekki síst það sem snýr að loftlags- og útlendingamálum.

ÚTREIÐARTÚRINN eftir Rögnu Sigurðardóttur
Útreiðartúrinn hverfist einkum um erfið samskipti feðganna Sævars og Péturs. Pétur er á unglingsaldri og á erfitt með að fóta sig í nýju umhverfi. Þegar hann og félagi hans verða fyrir alvarlegri árás dregur það dilk á eftir sér. Atvikið vekur sárar minningar hjá Sævari og hann rifjar upp gamalt morðmál úr fjölskyldunni.
Þessi saga rígheldur lesandanum, hún er vel fléttuð, spennandi og geymir áhrifaríka umfjöllun um samskipti feðganna sem lætur tæplega nokkra manneskju ósnortna.

LÍFIÐ ER UNDANTEKNING eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur
Lífið er undanteking er með betri ljóðabókum ársins. Bókin geymir ljóð af ýmsu efni og ólíkum stíl; finna má þarna prósaljóð og örsögur saman við öllu „hefðbundnari" nútímaljóð. Í ljóðunum er tekist jafnt á við heimspekilegar pælingar og hversdagslegri, í bland við sígildara efni á borð við ástina. Í bókinni leynast einnig skemmtilegir orðaleikir og gjarnan er grunnt á kímninni, það má jafnvel finna þarna skondið ávarp til nemenda.
Það er sannarlega óhætt að mæla með lestri þessarar bókar enda hefur höfundur löngu sýnt að hún er ein af okkar bestu skáldkonum. Hér má lesa eitt ljóðanna.

ÁÐUR EN ÉG BRJÁLAST eftir Soffíu Bjarnadóttur
Áður en ég brjálast var ekki fyrr komin úr prentun en hún vakti mikla og jákvæða athygli. Það var heldur ekki að ástæðulausu því efni hennar er áhrifaríkt; einlægt og opinskátt líkt og undirtitill ber með sér, játningar á miðjunni. Bókin er kynnt sem „feminískt skáldverk um ástir, ólík breytingaferli og lífsreynslu róttækrar móður sem leitar heim í skáldskapinn þar sem goðsagnaverur vappa um." Sagan er sannarlega allt það og meira til.
Vel skrifuð og áhrifarík saga sem snertir á ýmsu viðkvæmu efni.

MÓÐURÁST: SÓLMÁNUÐUR eftir Kristínu Ómarsdóttur
Sólmánuður er þriðja bók höfundar í bókaröðinni: Móðurást. Þar fjallar Kristín um uppvöxt langömmu sinnar, Oddnýjar, á seinni hluta nítjándu aldar. Þegar hér er komið sögu er Oddný á fermingaraldrinum og farin að máta sig við það hlutverk sem býður hennar í lífinu. Ættmæðrasögur, ef svo mætti kalla, hafa verið talsvert áberandi undanfarin ár og er það vel. Saga Kristínar geymir afar frumlega nálgun að því viðfangsefni.
Textinn er afar lýrískur og má vel smjatta á honum lengi vel eftir að lestri lýkur. Kristínu bregst ekki bogalistin hér frekar en fyrri daginn.
MAGNEA MÆLIR MEÐ:

HORFUMST Í AUGU eftir Sigrúnu Ásu Sigmarsdóttur
Hér yrkir Sigrún Ása í minningu eiginmanns síns, Einars Eyjólfssonar (1956–2015). Ljóðin eru hjálpartæki hennar til að syrgja og leið til að skilja söguna og bæta lífið. Þetta er önnur ljóðabók Sigrúnar Ásu sem sendi frá sér bókina Siffon og damask árið 2018.

VIÐ VEGG TÍMANS eftir Margréti Gísladóttur
Margrét yrkir hér falleg ljóð um náttúruna. Stillir mannfólkinu upp við hlið hennar og spyr óþægilegra spurninga. Ljóð Margrétar eru eins og vel meitlaðar höggmyndir. Þar eru engin óþarfa orð sem flækja fyrir. Við skiljum viðhorf Margrétar til lífsins og ekki síst hennar fallegu hugsanir sitja eftir við lesturinn og manni langar helst til að kíkja á þau aftur og aftur, finna góðu tilfinninguna sem þau veita og skilja boðskapinn til hlítar í hverju og einu þeirra

FÉLAGSLAND eftir Völu Hauks
Fyrsta ljóðabók Völu Hauks sem hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2024. Sniðug hugmynd að yrkja um félagsheimili landsins fyrr og nú og mikilvægt hlutverk þeirra í litum samfélögum. Vala yrkir um lífið í landinu, samfélagið og menninguna en líka um náttúruna og mannlífið. Hún hefur ferska sýn sem gaman er að spá í.
DRAUGAMANDARÍNUR eftir Birgittu Björg Guðmarsdóttur

Draugamandarínur eru vel útfærð ljóðabók sem fjallar á skemmtilegan máta um þá litlu athöfn að flysja utan af mandarínum. Í smáatriðum fer Birgitta með okkur í lítið ferðalag sem breytist fljótt í stigskipta skynjun þar sem lesandinn er leiddur áfram í gegnum snertingu ávaxtarins og neglur að klóra rifu á yfirborðið. Fingurinn borar sig inn í kjötið þar sem safinn tekur að leka niður hendina og inn í ermina og um leið flæðir munnvatn um allt, lykt sem blossar upp og vekur upp minningar um sársauka. Hið hversdagslega eins og það að fá sér bita af mandarínu breytist í líkamlega lestrarnálgun, að einhverju óþekktu, framandlegu og merkingin verður önnur og hugræn.
ALBERTINE ÆFINGARNAR eftir Anne Carson

Albertine er ein dularfyllsta persónan í minningaverkingu Í leit að glötuðum tíma eftir Marcel Proust. Hún er ástmey sögumannsins, tákn fyrir þrá, afbrýðisemi og eignarhald. En hver er hún í raun?
Í þessu rómaða verki nálgast Anne Carson spurninguna með sínum hárbeitta stíl. Hugleiðingar, orðaleikir, vangaveltur og húmor – hér ægir öllu saman. Albertine-æfingarnar varpa óvæntu ljósi á Proust en ekki síður á flókið samband listar, ástar og valds.
SOFFÍA AUÐUR MÆLIR MEÐ:

ARIEL eftir Sylviu Plath
sem kom út í íslenskri þýðingu Móheiðar Hlífar Geirlaugsdóttur hjá bókaútgáfunni Skriðu, í þeirra fallega og vandaða handsaumaða bandi. ARIEL er ein merkilegasta ljóðabók tuttugustu aldar (það eru 60 ár síðan hún kom fyrst út) og er talað um "tímamót í menningarsögunni" í kynningu útgefanda og hér er tekið undir það.
Höfundurinn féll fyrir eigin hendi aðeins þrítug að aldri en skildi eftir sig þessi mögnuð ljóð sem lesa má aftur og aftur og pæla lengi í.

DRÍFA VIÐAR: Málari, rithöfundur, gagnrýnandi og baráttukonu
Þetta er bæði texta- og listaverkabók um Drífu Viðar, sem menntaðist til myndlistar um leið og Nína Tryggvadóttir og Louisa Matthíasdóttir og hefur verið kölluð "þriðja konan", sem gleymdist því miður, líklega vegna þess hversu ung hún féll frá. En Drífa var merkilegur listamaður, skrifaði bækur og bókmenntagagnrýni. Það eru Auður Aðalsteinsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir og Kristín Guðrún Jónsdóttir sem ritstýra bókinni, en í henni eru greinar eftir eftir Drífu og um Drífu og verk hennar, auk fjölda prenta af myndlistarverkum hennar.

ALLT UM ÁSTINA eftir bell hooks
bell hooks (1951-2021) er með merkari fræðikonum í Bandaríkjum á tuttugustu öld og mikill fengur að fá bók eftir hana í íslenskri þýðingu. bell hooks var femínisti sem tók þátt í réttindabaráttu afró-ameríkana og skrifaði mikið. Um bókina Allt um ástina segir í kynningu Hins íslenska bókmenntafélags: "Ástin er í meðförum bell hooks ekki aðeins óræð tilfinning sem kviknar og leikur lausum hala innra með okkur heldur uppspretta gilda sem ráða mannlegum samskiptum. Ástin er persónuleg en hún er líka stórpólitísk. Hún birtist í umhyggju, virðingu, heilindum og helgun og er óhugsandi án virkrar þátttöku og fullrar ábyrgða."

MARTA MARTA eftir Marjun Syderbø Kjelnæs
Marjun Syderbø Kjelnæs er einn besti rithöfundur Færeyja um þessar mundir. Bókin fjallar um færeysku konuna Mörtu sem dvelur árið 1993 á samyrkjubúi (kibbuts) í Jórdandalnum. Hún gerir sér far um að reyna að skilja eðli þeirrar pólitísku og trúarlegu átaka og spennu sem er allt um lykjandi á þeim slóðum. Þrjátíu árum síðar kemur ísrölsk vinkona hennar í heimsókn til Færeyja. Landið helga er þá enn opnara sár en nokkru sinni fyrr. Hvers vegna er ekki hægt að horfast í augu við veruleikann? spyr Marta.
Þetta er bók sem á svo sannarlega erindi til okkar í dag enda var enska þýðingin valin "bók ársins" 2024 af Sunday Times, Guardian, Financial Times, Times, Daily Mail, New Statesman, Oprah Daily, Chicago Tribune, Globe and Mail.
LJÓÐASAFN eftir Guðrúnu Hannesdóttur

Snemma á árinu komu allar tíu bækur Guðrúnar út í einu safni hjá Dimmu. Guðrún er eitt okkar allra besta ljóðskáld og Ljóðsafnið mikil gjöf til ljóðaunnenda. Þessa bók má lesa lengi í smábitum yfir öll jólin - og reynar allt árið.
STEINUNN INGA MÆLIR MEÐ:
ÁSTARKRAFTUR, UNDIRSTÖÐUR ÁSTARFRÆÐA

Ástin er alla jafna ekki viðfangsefni virðulegra fræðimanna því hún hefur ekki þótt fræðileg og kannski aðallega kerlingarleg. Þar til Anna Guðrún Jónasdóttir setti ótrauð fram hugtakið ástarkraftur í doktorsritgerð árið 1991. Ástarkraftur er sköpunarkraftur öryggis og vellíðunar og birtist í stuðningi og umhyggju bæði í einkalífi og á vinnumarkaði - og yfirleitt er það konur sem ausa úr sér ástarkraftinum. Þetta er rammpólitíst og femínískt hugtak.
Konur gefa af sér í ástarsamböndum án þess að njóta endilega ávaxtanna. Í þessari bók er fjallað um fyrirbærið ástarkraftinn og birtingarmyndir þess. Sautján fræðimenn leggja orði í belg um ást sem mannlega þörf og iðju sem hefur ekki einungis áhrif á stöðu einstaklinga heldur einnig á samfélagsgerð, velferð og jafnrétti. Mjög áhugaverðar pælingar sem við þurfum öll að kynna okkur.
FYRIR VÍSINDIN
Fyrsta bók Önnu Rósar Árnadóttur, sem hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör í fyrra. Sigurljóðið Skeljar er einmitt að finna í þessari bók. Bókarkápan er mjög flott! Gaman að sjá tungutak vísindanna í ljóðrænum og launfyndnum myndum.
Ein af áhugaverðustu ljóðabókum ársins, mjög efnilegt skáld sem gaman verður að fylgjast með.
HUGRENNINGAR

Dr. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir er hafsjór af visku og fróðleik um alls konar bókmenntir. Árum saman hefur hún kennt, greint og rannsakað og jafnan með fersku femínísku og félagslegu sjónarhorni.
Í þessari bók sem út kom á árinu eru vísindagreinar eftir hana um bókmenntir og samfélag, svo sem um berrassaða stelpu og síðbrjósta kellingu, um Þórberg og Bjarna Bernharð, Sólstafi eftir Lindu Vilhjálms, um Ástu Sig og Steinunni Finns o.m.fl.
Vel skrifað, vel kýlt, vel pælt.
STÚLKA MEÐ FÁLKA
Fáir hafa jafnmikið vald á tungumálinu og Þórunn Vald, nema ef vera skyldi Steinunn Sig. Stúlka með fálka er eins konar framhald af ættarkvennasögu Þórunnar þar sem örlög eru grimm og aðstæður sjaldnast hliðhollar. Segir líka frá bókum sínum og ýmsu krassandi úr einkalífinu. Þórunn er snillingur í að flétta saman skáldskap og sagnfræði. Hún hefur einstakan húmor, ekki síst fyrir sjálfri sér.
Yndislesning sem óhætt er að mæla með!
VIÐ HÖFUM ALLTAF ÁTT HEIMA Í KASTALANUM
Algjörlega frábær saga eftir Shirley Jackson, þekktan rithöfund í Bandaríkjunum á síðustu öld. Hún var heimavinnandi húsmóðir, stundaði ritstörf jafnan heima við og annaðist börn og bú samhliða. Þekktust var hún fyrir gotneskar hrollvekjur sem talið er að hafi haft mikil áhrif á sagnaritun Stephen King o.fl .
Systrunum Merricat og Constance hefur verið útskúfað, en hvers vegna? Þær lifa fábrotnu og reglusömu lífi á ættaróðali sínu í útjaðri þorpsins - þar til einn góðan veðurdag... Frábær bók þar sem sögumaður er ekki allur þar sem hann er séður.
Gunnhildur Jónatansdóttir íslenskaði mjög vel, ein bók hefur komið út eftir Shirley Jackson á íslensku, Líf á meðal villimanna í öndvegis þýðingu Gyrðis Elíassonar.