VON ER Á...
Nú nálgast sá tími óðfluga að jólabókaflóðið skelli á okkur að fullu. Frést hefur að mörgu spennandi í prentvélunum, ljóðabókum, skáldsögum, ævisögum, fræðiritum o.fl. o.fl.
Við hjá Skáld.is ætlum að reyna að fylgjast sem best með og rýnum nú í á hverju er von í ljóðabókadeildinni. Fyrst má þó minna á að nokkrar bækur hafa þegar litið dagsins ljós, til að mynda Einurð eftir Draumeyju Aradóttur og Fagurboðar eftir Þórunni Valdimarsdóttur.
Margar af okkar bestu skáldkonum senda frá sér nýjar ljóðabækur í ár. Þar má nefna Gerði Kristnýju (Jarðljós), Guðrúnu Hannesdóttur (Kallfæri), Sigurbjörgu Þrastardóttur (Flaumgosar), Ragnheiði Lárusdóttur (Með veður í æðum), Margréti Lóu (Pólstjarnan fylgir okkur heim) og Þórdísi Gísladóttur (Aðlögun). Þess má geta að þeir sem næla sér í bók Ragnheiðar Lárusdóttur fá í kaupbæti allar fyrri ljóðabækur hennar, því þær eru prentaðar með í nýju bókinni.
Nýliðar í hópi ljóðskálda eru einnig nokkrir og við höfum frétt af þessum skáldkonum senda frá sér sínar fyrstu ljóðabækur: Guðrún Rannveig (Brotsjór hugans), Halla Þórðardóttir (Sólin er hringur), Ingibjörg Kristín Ingólfsdóttir (Skóhljóð), Karólína Rós Ólafsdóttir (Úr hvalnum), Kristín Þóra Harðardóttir (Átthagafræði), Sandra Dögg (Í upphafi var leir), Sigrún Erla Hákonardóttir (Hljóð) og Svava Þorsteinsdóttir (Svefnhof). Grætur guð nefnist ný ljóðabók Hjördísar Bjargar Kristinsdóttur en hún er ekki algjör nýliði, eins og lesa má í Skáldatalinu okkar.
Skálda-kollektívin Svikaskáld og Yrkjur senda bæði frá sér bækur í ár. Bók Svikaskálda ber þann óvænta titil Ég er það sem ég sef en bók Yrkja nefnist Farvötn.
Þá sætir tíðindum að heildarsafn ljóða Lindu Vilhjálmsdóttir kemur út og ber látlausa yfirskrift: Safnið.
Það geymir allar níu ljóðabækur Lindu, frá árabilinu 1990‒2022, auk nokkurra ljóða sem birst hafa annars staðar eða eru áður óbirt. Inngangsorð skrifar Kristín Eiríksdóttir og í bókarlok er viðtal Hauks Ingvarssonar við Lindu þar sem hún segir frá lífi sínu og skáldskap.
Við þessi útgáfutíðindi má bæta að út kemur ljóðabókin Skartgrípaskrínið eftir dönsku skáldkonunnar Ursula Andkjær Olsen, í þýðingu Brynju Hjálmsdóttur. Ursula (f. 1970) þykir eitt besta skáld Dana um þessar mundir og verður spennandi sjá ljóð hennar á íslensku.
Það er því ljóst að ljóðaunnendur geta svo sannarlega látið sig hlakka til haustsins því margt spennandi verður á boðstólum. Vafalaust hefur eitthvað af væntanlegum ljóðabókum farið fram hjá okkur og biðjum við fyrirfram afsökunar á því og munum bæta úr því um leið og fréttir berast!