HINSEGIN BÓKMENNTAHÁTÍÐ Í ÁGÚST
Dagana 24-26 ágúst verður haldin í fyrsta sinn hinsegin bókmenntahátíð í Reykjavík. Hátíðin hefur fengið yfirskriftina QUEER SITUATION enda er boðið til hennar erlendum höfundum sem og íslenskum. Skipuleggjendur QUEER SITUATIONS eru þær Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Eva Rún Snorradóttir en Samtökin 78 aðstoða þær við ýmislegt sem tengist viðburðahaldi. Hátíðin verður haldin í Salnum í Kópavogi.
Margir spennandi erlendir höfundar eru væntanlegir á hátíðinni og má þar nefna Maggie Nelsson, Ia Genberg, Madame Nielsen og Harry Dodge. Þá verður Kristín Ómarsdóttir einnig þátttakandi.
Þær Eva Rún og Halla Þórlaug hafa sett saman leslista fyrir þau sem vilja undirbúa sig fyrir hátíðina og var hann kynntur í þættinum Tengivagninum á rás 1 síðastliðinn föstudag. Bækurnar eru í forsölu í bókabúðinni Sölku á Hverfsgötu.
Leslisti Evu og Höllu fyrir Queer Situations
-
Maggie Nelson: The Argonauts
-
Maggie Nelson: The Red Parts: A Memoir
-
Harry Dodge: My Meteorite: Or, Without the Random There Can Be No New Thing
-
Ia Genberg: Smáatriðin
-
Kristín Ómarsdóttir: Allt
-
Madame Nielsen: Beyond Identity
-
Madame Nielsen: The Monster
Í ofannefndu viðtali kváðust þær stöllur vilja halda bókmenntahátíð sem myndi upphefja og setja í fókus hinsegin höfunda: „Bæði höfunda sem eru hinsegin og eru að skrifa um hinsegin málefni en líka bækur sem eru út fyrir miðjuna í formi og hvernig þau nálgast hvar þau koma inn í bókmenntasenuna.“
Í viðtalinu kom einnig fram að þær Eva og Halla hafa saknað þess að fjallað sé um hinsegin bókmenntir af dýpt. „Við erum kannski að vonast til að það gerist einhver sprenging eða verði einhver ný nálgun á umræðuna sem er á forsendum hinseginleika,“ segir Halla. „Þegar hinsegin bækur koma út eru þær oft metnar í Kiljunni á forsendum sem er grátlegt að hlusta á,“ segir Eva Rún. Þær segja oft fjallað um bókmenntirnar í samhengi við höfundinn og gjarnan reynt að kafa ofan í hvað sé satt og hvað sé skáldað. „Það er sagt að þetta sé persónuleg bók,“ segir Eva. „Og hugrakkt að skrifa þetta,“ tekur Halla undir. Þær bættu við að „Bókmenntaheimurinn [sé] að fjalla um málefni á djúpan hátt sem við höfum ekki komist enn þá hér á Íslandi af því umræðan er rosalega grunn um þessar hinsegin bækur,“ segir Halla. „Hún fer ekki á dýpið.“
Það er nokkuð til í þessu, sérstaklega þegar Kiljan er tekin sem dæmi, en þó er sjálfsagt að benda á að ýmsir bókmenntafræðingar hafa vissulega farið "á dýptina" í umfjöllun um hinsegin bækur, hér má nefna Dagnýju Kristjánsdóttur og Geir Sveinsson, sem voru frumkvöðlar í slíkri bókmenntaumræðu, sem og Ástu Kristínu Benediktsdóttur sem hefur einbeitt sér að rannsóknum á hinsegin bókmenntum.
Þá má sem betur fer lesa um hinsegin reynslu í ýmsum samtímabókmenntum og má þar nefna, auk Kristínar Ómarsdóttur, Evu Rúnar og Höllu Þórlaugar, höfunda á borð við Björgu Guðrúnu Gísladóttur, Lilju Sigurðardóttur, Jónínu Leósdóttur, Fríðu Bonnie Andersen og Sólveigu Johnsen, svo fáeinar skáldkonur séu nefndar.
Lesa má meira um bókmenntahátíðina á heimasíðu viðburðarins og á síðu Gay Iceland. (Vert er að taka fram að viðtalið á Gay Iceland er á ensku en ef það opnast á íslensku hjá einhverjum sem smella á hlekkinn er þar um að ræða gervigreindarþýðingu!)
Myndir eru fengnar að láni frá ofannefndum heimasíðum.