HINSEGIN Á SKÁLD.IS
Í tilefni dagsins er vert að benda á að á Skáld.is má finna sitthvað um hinsegin skáld og skáldskap. Í Skáldatalinu eru allar okkar helstu hinsegin skáldkonur, t.d. Ásdís Óladóttir, Eva Rún Snorradóttir, Fríða Bonnie Andersen, Jónína Leósdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Lilja Sigurðardóttir og Vigdís Grímsdóttir. Allar hafa þær fjallað um hinsegin veruleikann í verkum sínum, hver með sínum hætti.
Þá hafa birst greinar og fjöldi ritdóma um hinsegin bókmenntir sem finna má á vefnum með einfaldri leit. Vert er þó að nefna sérstaklega eina grein Soffíu Auðar Birgisdóttur sem er afar áhugaverð þar sem hún fjallar um kyn og kynverund og fleira því tengt sem hefur verið í umræðunni um nokkurt skeið.
Í grein sinni leitast Soffía Auður við að varpa ljósi á frásögn Málfríðar Einarsdóttur af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur (systur/bróður/systkini Benedikts Gröndals), kynferði hennar og sömuleiðis því að hún hafi mögulega getið barn með konu. Texti Málfríðar er afar athyglisverður þó að stuttur sé. Hann birtist í Rásir dægranna og er svohljóðandi:
Prestur nokkur, sem mig minnir að héti Þórður, bað [Guðrúnar] en hún réð honum frá því að giftast sér. Samt varð af því að þau ættust, en engin urðu börnin nema hvað vinnukona prestsfrúarinnar kenndi henni barn og gat hún ekki borið það af sér. Benedikt Gröndal getur ekki þessarar systur í Dægradvöl en allra hinna.