KONUR ERU EKKERT MINNA ÁBERANDI EN KARLKYNS HÖFUNDAR Í DAG - NEMA SÍÐUR SÉ
Viðtal Hólmfríðar Helgu Sigurðardóttur við Soffíu Auði Birgisdóttur birtist áður í STUNDINNI, 9. nóvember 2019
Í á fjórða áratug hefur Soffía Auður Birgisdóttir verið virkur gagnrýnandi íslenskra bókmennta. Hún hefur þar að auki gefið íslenskum skáldkonum sérstakan gaum og lagt sig eftir að rýna í verk þeirra, nokkuð sem margir kollega hennar hafa vanrækt, í það minnsta hér áður fyrr. Nýlega kom út á vegum Háskólaútgáfunnar bók hennar Maddama, kerling, fröken, frú en í henni er að finna 31 grein eftir Soffíu, þar sem rýnt er í kvenlýsingar íslenskra nútímabókmennta. Þannig varpar Soffía upp fjölbreyttri mynd af konum, í gegnum verk höfunda á borð við Halldór Laxness, Svövu Jakobsdóttur, Vigdísi Grímsdóttur, Kristínu Ómarsdóttur, Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur og marga fleiri.
Soffía fagnaði sextugsafmæli sínu 2019. „Kannski var það afmælisgjöf til sjálfrar mín að gefa út hluta af þessum greinum sem ég hef skrifað um konur í bókmenntum og kvenlýsingar í bókmenntum. Þó að meirihluti þeirra fjalli um kvenrithöfunda eru þarna líka greinar um bækur eftir karla sem fjalla um kvenpersónur, eins og Konan við 1000° eftir Hallgrím Helgason og Kata eftir Steinar Braga.“
Elsti kvennabókmenntaleshringur landsins
Soffía tileinkar bókina vinkonum sínum úr leshring sem stofnaður var af nemendum í fyrsta kúrsinum í kvennabókmenntum sem Helga Kress kenndi við Háskóla Íslands en Helga er einn mesti áhrifavaldur í feminískum bókmenntarannsóknum hér á landi. „Við vorum svo áhugasöm eftir þetta námskeið að við gátum ekki hugsað okkur að hætta, svo við stofnuðum leshring þegar kúrsinn var búinn. Markmiðið var að halda áfram að lesa skáldverk og fræðitexta eftir konur. Smám saman duttu strákarnir út en við konurnar höfum hist um það bil einu sinni í mánuði í tæplega 40 ár, svo við erum ábyggilega elsti kvennabókmenntaleshringur á Íslandi.“
Konurnar í hópnum hafa flestar lifað og hrærst í heimi bókmennta og skáldskapar, ýmist sem kennarar, fræðimenn eða leikritaskáld. Þær voru frá upphafi á öllum aldri. „Sú elsta okkar, Rannveig Löve, var til dæmis fædd árið 1920 og varð háöldruð. Núorðið lesum við mest íslenskt efni enda er það alveg nóg, því nú er svo margt að koma út eftir íslenskar konur.“
Skáldkonur í dag fullar sjálfstrausts
Sem bæði fræðimaður og bókaormur hefur Soffía lengi fylgst grannt með ferli fjölda skáldkvenna. Hún segir Auði Övu hafa hitt naglann á höfuðið með aðalpersónuna í skáldsögunni Ungfrú Ísland, sem þráði að verða rithöfundur. „En það er engin eftirspurn eftir hennar textum. Þannig var það náttúrlega lengi vel, það voru örfáar konur sem voru með í umræðunni og jafnvel þótt þær væru með í umræðunni, eins átti til dæmis við um Ástu Sigurðardóttur, þá kom bara ein bók út eftir hana. Konur áttu frekar erfitt uppdráttar, lengi vel, innan þess sem karlar skilgreindu sem fagurbókmenntir, því samhliða því voru vinsælustu höfundar um miðja 20. öldina höfundar eins og Guðrún frá Lundi, Elísaborg Lárusdóttir, Ragnheiður Jónsdóttir, sem skrifuðu mikið og slógu öll met í útlánum á bókasöfnum. En það leit enginn á þær sem alvöru rithöfunda.“
Hún rifjar upp orð Sigurðar A. Magnússonar, rithöfundar og blaðamanns, sem gegndi meðal annars stöðu formanns Rithöfundasambands Íslands. Honum blöskraði svo að sjá hvað þessar konur voru vinsælar á bókasöfnum, að hann fann sig knúinn til að skrifa grein í Morgunblaðið, þar sem hann hneykslaðist á vinsældum bókanna og notaði orðið kerlingabókmenntir yfir þær, eins og frægt varð. „Svo reyndi hann nú að draga í land þegar hann var gagnrýndur fyrir þetta, meðal annars með því að segja að karlar gætu líka skrifað kerlingabækur. En það hefur orðið gríðarleg breyting á stöðu kvenna í bókmenntaheiminum. Núna eru ungar konur svo fullar sjálfstrausts og eru teknar alvarlega. Þær fá sínar bækur útgefnar og eru ekkert minna áberandi en karlkyns höfundar, nema síður sé.“
Konurnar betur menntaðar
Líklega voru bókaútgefendur fyrri tíma ekki nægilega vel vakandi fyrir fjársjóðnum sem leyndist í konum, bæði sem höfundum og lesendum, að mati Soffíu. „Það sem þeir sem unnu í útgáfubransanum gerðu sér ekki alveg grein fyrir var það að stærstur hluti lesenda eru konur. Konur á miðjum aldri og eldri eru aðal menningarneytendur landsins. Tregðan að gefa út bækur fyrir konur skrifast á karlmenn sem hafa ekki nægilegt vit á markaðsmálum.“
Sjálf segist hún sem lesandi hafa jafnan áhuga á bókmenntum eftir karla og konur, sem endurspeglast meðal annars í því að hún skrifaði doktorsverkefnið sitt um verk Þórbergs Þórðarsonar. Námskeiðið örlagaríka hjá Helgu Kress hafi hins vegar opnað augu hennar fyrir því hversu mjög höllum fæti konur stóðu í bókmenntaheiminum. „Ég hef alltaf sagt það, að kvenbókmenntafræðingar eru mikið betur menntaðir en karlbókmenntafræðingar, vegna þess að þær lesa allt það sem þeir lesa – og svo kvenhöfundana líka. Við konur sem erum bókmenntafræðingar lítum á það sem skyldu okkar að lesa kanónurnar, sem eru karlar, en svo lesum við líka kvenhöfundana. Við sjáum ekki strákana gera það í sama mæli.“
Í þeirri viðleitni að vekja athygli á kvennabókmenntum hefur Soffía tekið þátt í uppbyggingu vefsins Skáld.is sem stefnt er að því að verði stærsti gagnabanki sem til er um íslenskar kvennabókmenntir. Nú þegar er hægt að nálgast þar upplýsingar um 300 skáldkonur og fleiri bíða þess að birtast á vefnum. „Við erum með annað eins af konum sem við eigum eftir að setja inn og svo bætast nýjar konur við á hverju ári,“ segir Soffía. Á vefnum eru líka viðtöl og greinar, bæði nýtt og eldra efni, að ógleymdum ritdómum um nýjar bækur eftir konur. „Við erum fimm í ritstjórn, allar vel menntaðar í bókmenntum, en gerum þetta þó í sjálfboðavinnu. Við höfum verið að sækja um styrki því okkur vantar peninga til að geta gert þetta að ennþá öflugri vef og helst þyrftum við að geta ráðið inn manneskju til að setja inn efni, því það er svo mikið af því til. Við höfum til dæmis fengið leyfi til að setja allt efnið frá Helgu Kress inn á vefinn og margar aðrar eru tilbúnar til að leyfa okkur að setja inn sitt efni. Þetta er sérstaklega mikilvægur vettvangur núna í dag, þegar ritdómar teljast ekki svipur hjá sjón og rithöfundar eru heppnir ef þeir fá einn eða tvo dóma um sínar bækur.“
Alls konar konur
Í bókinni sýnir Soffía lesendum fjölbreyttar myndir af konum í gegnum greinarnar þrjátíu og eina. Hún skrifar bæði um einstök verk, auk þess að taka fyrir heil höfundaverk einstakra höfunda, þeirra á meðal Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur. „Það hefur svo lítið verið skrifað um verk Elísabetar og aldrei áður um hennar höfundarverk. Það hefur ein önnur fræðigrein birst um hana og það var um eina bók. Elísabet er dæmi um höfund sem hefur verið vanræktur af fræðimönnum. Ég held að það geti verið af því að hún er svolítið öðruvísi. Ég held hins vegar að allir sem lesa greinina mína um hana uppgötvi að hún er stórmerkilegur rithöfundur sem hefur mikla sérstöðu, meðal annars í því hvernig hún skrifar um kvenlíkamann og kynlíf kvenna. Það er enginn annar höfundur sem skrifar neitt líkt því.“
Hún nefnir sérstaklega bókina Heilræði lásasmiðsins frá árinu 2007. „Þetta er skáldævisaga, byggð á ævi hennar, þar sem hún flettir lögunum utan af því að vera kona, kynlífi kvenna og samskiptum kynjanna. Þetta er gjörsamlega mögnuð bók. Mér finnst að allir ættu að lesa hana.“
Gerir ekki upp á milli
Spurð að því hvaða íslensku kvenhöfunda hún haldi mest upp á er hún treg til að svara og segist ekki geta gert upp á milli þeirra. „Það er mjög erfitt fyrir mig að ætla að draga einhverja af þeim sérstaklega út. það er engin eins og Svava, engin eins og Álfrún, engin eins og Vigdís, engin eins og Kristín Ómars. Þær og margar aðrar hafa allar þessi sterku höfundareinkenni. Mér finnst þær allar æðislegar.“
Hvað yngri höfunda varðar nefnir hún tvær sem hafa vakið athygli hennar og hún hlakkar til að fylgjast með í framtíðinni. „Fríða Ísberg hefur náð mjög vel í gegn og hún er afskaplega flottur höfundur. Svo finnst mér Þórdís Helgadóttir stórkostleg. Hún gaf út Keisararmörgæsir í fyrra, sem mér fannst ein athyglisverðasta bók ársins. Það er einhver mjög sterkur tónn í sögunni og hún tekur eitthvert stökk í þeirri bók. Ég get borið það saman við Svövu Jakobsdóttur. Þegar sögurnar hennar komu út varð eitthvert þroskastökk í bókmenntunum. Það var ekki hægt að skrifa venjulega smásögu eftir að Svava skrifaði sínar. Mér finnst eitthvað svipað hafa gerst með Keisaramörgæsum hennar Þórdísar.“
Hólmfríður Helga Sigurðardóttir